27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1926

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg er einn af þeim, sem flytja brtt. á þskj. 235, 18. lið, um að veittar sjeu til bóndans í Grænumýrartungu 2500 kr. í eitt skifti fyrir öll til húsabóta. Till. lá fyrir fjvn. með upplýsingum, teikningu af húsi, gerðri af þeim manni, sem ríkið felur að annast það, og á að kosta 13200 kr. Meiri hl. sá sjer ekki fært að veita þetta.

Allir hv. þm. vita, að hjer er ekki um venjul. stað að ræða. Þetta er fyrsti bærinn undir næstfjölfarnasta fjallvegi landsins, Holtavörðuheiði. Hellisheiði ein er fjölfarnari. Ríkið hefir oft hjálpað, þegar svona stendur á, t. d. í Fornahvammi og á Kolviðarhóli og víðar. Þetta er engin beiðni um árlegan styrk, heldur í eitt skifti, og til þessa bæjar hefir enginn styrkur verið veittur áður.

Þótt svona standi á, að þessi staður sje í mínu kjördæmi, þá er það alls ekki vegna þessarar sýslu, heldur alls Norðurlands og allra ferðamanna, sem þessa leið fara, sem jeg tel þetta nauðsyn.

Til frekari rökstuðnings þessari beiðni skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr umsögn norðanpóstsins um þetta efni.

Pósturinn skrifar meðal annars:

„Eins og margir kannast við, er til þekkja, er Holtavörðuheiði mjög erfið yfirferðar á vetrum, snjóþung og löng. Það er ekki ósjaldan, sem jeg hefi verið um 20 klukkutíma yfir heiðina með fjölda fólks og rúma 30 hesta með póstflutningi. Þá hefir verið mikil þörf á að geta hvílt í Grænumýri þreytta og hungraða hesta og fólk kalið og uppgefið og svangt líka. Jeg verð að segja það, að hart var aðgöngu að verða þá að halda áfram vegna húsrúmsleysis. Þó hefir komið fyrir, að jeg varð að gista í Grænumýri, var þá með fólk, sem var komið að dauða vegna vosbúðar og kulda; var jeg þá yfir 20 klukkutíma yfir heiðina, fólkið hafði blotnað og komið í stakk af frosti“.

Jeg ætla ekki að lesa lengra, en pósturinn skrifar miklu rækilegar um þetta alt. Er enginn vafi á, að það er mikil þörf fyrir ferðafólk að geta hvílt sig þarna. Þekkja bæði jeg og aðrir póstinn að því, að segja ekki meira en það, sem hann getur staðið við. Jeg get bætt því við seinast, að þarna í Grænumýrartungu býr ungur maður óvenjulega duglegur, sem ef honum endist heilsa mun hýsa staðinn myndarlega, ef ástæður leyfa. En hann er efnalaus og getur ekki reist húsið án opinbers styrks. Jeg verð að vænta þess, að þingið veiti honum hann, því að hjer er ekki farið fram á annað en það, sem svo ákaflega oft hefir verið veitt til annara undir svipuðum kringumstæðum. Og hjer er ekki farið fram á áframhaldandi styrk, heldur eina litla fjárhæð í eitt skifti fyrir öll. Læt jeg svo útrætt um þetta og mun yfirleitt ekki ræða um aðrar brtt., hvorki frá einstökum þm. nje hv. minni hl. fjvn. (BJ). Það mun hv. frsm. (ÞórJ) gera fullkomlega. En alveg af sjerstöku tilefni vil jeg þó víkja að einni tíll. hv. minni hl. fjvn.

Það er till. um það að stofna nú aftur sendiherraembættið í Kaupmannahöfn. Jeg skal geta þess, að jeg hefði ekki minst á þetta mál nú, ef hv. þm. Dala. (BJ) hefði einn látið falla orð í þessa átt. Þá hefði jeg ekki gert ráð fyrir, að að baki till. stæði svo öflugur flokkur, að andsvara þyrfti við, en hinsvegar er það vitanlegt, að þetta hefir alla tíð verið eitt af aðaláhugamálum hv. þm. Dala. (BJ). En það, sem gerir að jeg tek nú til máls um þetta, er það, að hæstv. forsrh. (JM) hafði svo sterk og óvenjulega ákveðin ummæli um þetta. Þykir mjer því skylt að segja nokkur orð, þar sem jeg í fyrra bar fram frv. um afnám þessa embættis. Náði það frv. að vísu ekki fram að ganga, en hitt var samþykt, að fella niður fjárveiting til þessa, og þar með gert það að verkum, að nú er enginn íslenskur sendiherra í Kaupmannahöfn. Hæstv. forsrh. (JM) tók svo til orða, að hann væri mjög þakklátur flm. (BJ) fyrir þessa till. og lýsti því tvisvar yfir, að hann væri alveg sammála hv. þm. Dala. (BJ) um þetta mál og liti svo á, að þetta væri einhver besta og þarfasta fjárveitingin, sem þingið gæti veitt. Þar sem þessi orð koma frá hæstv. forsrh. (JM), sem á að baki sjer fjölmennasta flokkinn í þessari háttv. þd., þá geri jeg ráð fyrir, án þess þó að jeg viti það, að nú eigi aftur að stofna þetta embætti. Jeg ætla mjer ekki nú að fara að rökræða málið; það hefi jeg áður gert til þrautar, en jeg vil lýsa því yfir, að jeg er enn ósnúinn í þessu máli og stend fyllilega við þau ummæli, sem jeg hefi áður um það haft. Þess vegna get jeg ekki fallist á þessa till. hv. minni hl. fjvn. (BJ), en verð að leggja eindregið á móti því, að hún verði samþykt. Jeg vil aðeins segja eitt í sambandi við orð hv. þm. Dala. (BJ) um þetta. Hann sagði, að þegar hann gegndi sendiherrastöðu erlendis, þá hefði sá maður, er nú gegnir þessu embætti í Kaupmannahöfn, Jón Krabbe, verið sá eini maður, sem hann hefði getað treyst til fullnustu. Er þá ekki vel fyrir sjeð, er slíkur maður gegnir þessu starfi? Jeg ber líka fult traust til þessa manns, og er því ánægður með að trúa honum fyrir þessum störfum áfram, meðan svo stendur á hjer heima, að alt verður að spara, sem hægt er. En í þessu sambandi vil jeg beina einni fyrirspurn til hæstv. fjrh. (JÞ), því að hann var mjer algerlega sammála í fyrra, að vísu ekki um þá að afnema embættið, heldur hitt, að fell niður fjárveitinguna. Nú vil jeg bein þeirri spurningu til hæstv. fjrh. (JÞ) hvort hann líti nú orðið sömu augum málið og hæstv. forsrh. (JM), eða með öðrum orðum, hvort öll hæstv. stjórn lít sömu augum á þessa till. hv. þm. Dal. (BJ) og hæstv. forsrh. (JM). Jeg skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð nú en það get jeg sagt, að ef þetta hefði verið framh. 1. umr. fjárlaganna, þá hefði jeg farið um það fleiri orðum en jeg við gera við þessa umr. Jeg vonast aðeins eftir að hæstv. fjrh. (JÞ) fái færi til að svara nú spurningu minni.

Þá er það aðeins eitt atriði enn. Jeg skrapp út áðan og misti því af kafla ú ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), en er jeg heyrð á mál hans aftur, þá heyrðist mjer hann vera að gefa út ávísanir á varasjóð lands verslunarinnar og láta hylla undir þá möguleika, að þessar og þessar framkvæmdir mætti gera, ef landsverslunin væri lögð niður. Jeg veit nú ekki til, að varasjóður landsverslunarinnar sje handbær, og hæstv. fjrh. (JÞ) er vitanlegi kunnugt, að það er ekki útrætt mál, hvor það eigi að leggja landsverslunina niður en það má vera, að hæstv. fjrh. (JÞ) vit betur um þetta en jeg. En jeg verð að segja það, að mjer finst það mjög undarlegt, ef hæstv. fjrh. (JÞ), sem heldur stundum mjög fast á — það játa jeg — fje landsins og vill spara sem mest allar fjárveitingar úr ríkissjóði, — mjer kemur það mjög kynlega fyrir, segi jeg, ef hann er nú að gefa undir fótinn, að auka megi framkvæmdirnar með því að leggja niður þá stofnun, sem aflar mikilla og vissra tekna í landssjóð. Finst mjer, að skjóti nokkuð skökku við að gefa út slíkar ávísanir úr sæti hæstv. fjrh. (JÞ).