17.04.1925
Neðri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. (Klemens Jónsson):

Þetta frv. er upphaflega stjfrv. og hafði fjhn. þessarar deildar það til meðferðar á öndverðu þingi. Gerði fjhn. þá breytingu á því, að tímabinda það við 1926, en í upphafi var það ótímabundið. Og út úr þessari hv. deild fór það með þessari breytingu, að gildi laganna var bundið við árslok 1926. Hv. Ed. hefir nú lengt þetta um eitt ár, eða til 1927, og hefir frv. þannig breytt legið nú til athugunar hjá fjhn. Þó að nefndin hafi ekki sent út framhaldsnál., hefir henni hinsvegar ekki fundist ástæða til að lofa því ekki fram að ganga eins og það er, og leggur meiri hl. því til, að frv. Verði samþykt óbreytt, eða í því formi, sem það er nú.

Jeg skal játa, að fyrir mjer er þetta ekkert kappsmál, hvort gildi laganna sje bundið við 1926 eða 1927, enda mun það vera álit meiri hl., að engin líkindi sjeu til þess, að ríkissjóður geti verið án þessara tekna næstu tvö árin, eins mikið og hann þarf að greiða af skuldum sínum, og þess vegna viðurhlutamikið að neita um þetta nú.

Í byrjun fundarins var útbýtt brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um að færa frv. í sama horf og það var, er það fór hjeðan. Nefndin hefir ekki haft tíma til að taka ákvörðun þar uni, en þar sem meiri hl. hefir komið saman um að leggja það til að samþykkja frv. óbreytt, þá leiðir þar af, að hann muni ekki fallast á brtt. á þskj. 352.