17.04.1925
Neðri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Jón Baldvinsson:

Mjer virðist, þegar litið er á brtt. þær, sem komið hafa fram við þetta litla frv., að það sje skoðun hv. þm. yfirleitt, að þetta eigi ekki að verða fastur skattur, þó að stjórnin vilji svo vera láta. Þessi hv. deild gekk svo frá frv., að skattur þessi ætti ekki að gilda lengur en til ársloka 1926, vegna þess að meiri hl. þdm. gat ekki fallist á að láta lögin gilda til 1. apríl 1926. Þótti það of lítið svigrúm fyrir næsta Alþingi að athuga lögin.

Nú vona jeg, að hv. deild sje sama sinnis og áður og álíti sjálfsagt, að þetta mál verði tekið til frekari athugunar á næsta þingi.

Upphaflega var skattur þessi settur vegna verðfalls íslensku krónunnar. Og þegar sterlingspundið er komið niður í 25 krónur, sem vonandi verður ekki langt að bíða, þá er skattur þessi rangur, hvað þá ef pundið heldur áfram að falla.

Mjer finst eðlilegast að smálækka tollinn, eftir því sem sterlingspundið fellur, t. d. að næsta ár yrði hann 15% og fjelli svo alveg niður. Mjer virðist þetta rjettara, því skattur þessi er of hár, eins og nú er komið, en hinsvegar þykir mjer sennilegt, að þm. fallist ekki á, að ríkissjóður megi við að missa hann nú þegar, eða á næsta ári, að öllu leyti. Þess vegna er eðlilegast, að skatturinn fari smálækkandi.

En sje það ætlunin, að þetta eigi að verða fastur skattur, þá hefir háttv. Ed. gert sitt til þess, þar sem hún bindur gildi laganna við árslok 1927. En eins og jeg hefi þegar tekið fram, þá finst mjer sjálfsagt, að næsta þing taki þetta til athugunar. Þess vegna hefi jeg nú á síðustu stundu borið fram brtt. á þskj. 352, um að færa frv. aftur í sama horf og þessi hv. deild afgreiddi það. Að jeg kom ekki fyr með brtt. þessa, stafaði af því, að jeg gat engan veginn búist við, að hv. fjhn. hefði snúist svo í málinu, eins og skilja mátti á ræðu hv. 2. þm. Rang. (KIJ). Hv. fjhn. Ed. var og samþykk frv. eins og þaS kom hjeðan og rjeði til, að það yrði samþykt óbreytt. En það var hæstv. fjrh. (JÞ), sem þröngvaði hv. Ed. til þess að framlengja gildi laganna um eitt ár. Jeg segi, að hann hafi þröngvað deildinni, því að hjer hreyfði hann hinu sama, en það var ekki tekið til greina, enda var honum bent á, að það væri næsta þing, sem ákveða œtti um, hvort lögunum skyldi framlengt eða ekki. En skyldi nú nœsta þing fallast á að fella skatt þennan niður, þá er hægra um vik fyrir. það, ef lögin eru bundin við árslok 1926. Hitt er að festa skattinn, að binda hann með lögum til 1927. En vitanlega veit hæstv. fjrh., hvað hann er að gera, þegar hann vill hamra í gegn að framlengja lögin til ársloka 1927. Fyrir honum vakir ekkert annað en að halda tollinum út kjörtímabilið. Hann vonast eftir að halda þessum virðingarsess, er hann hefir hlotið, að minsta kosti til næstu kosninga, og vill því halda þessum tolli þangað til.

En eins og jeg hefi margtekið fram, þá tel jeg rjett og sjálfsagt, að næsta þing taki þetta mál upp og geri þær breytingar, er nauðsynlegar þykja, en skjóti því ekki á lengri frest.

Að svo mæltu orðlengi jeg ekki frekar um málið, en bæti því við, að jeg á bágt með að trúa því, að svo margir hv. þdm. hafi snúist í máli þessu, að frv. nái samþykki eins og það er nú.