17.04.1925
Neðri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Jón Baldvinsson:

Nokkuð af þeim vörum, sem gengisviðaukinn hvílir á, eru einmitt nauðsynjavörur. Þess vegna er það ekki rjett, eins og hæstv. fjrh. vildi nú gefa í skyn, að það væri eingöngu á óþarfavarningi, sem hann hvíldi. (Fjrh. JÞ: Jeg sagði það ekki). Jeg hefi ekki hreyft því á þessu þingi að afnema hina föstu tolla á nauðsynjavörunum; það eru bráðabirgðatollarnir, gengisviðaukinn og verðtollurinn, sem á að byrja á og sjálfsagt er að ljetta af þjóðinni sem fyrst að einhverju leyti, eða helst með öllu. Jeg tel líka rjett að ljetta tollum af nauðsynjavörum, og ekki mun vanta mitt atkv. til þess, þó jeg þykist vita, að það muni bíða enn um stund að afnema gamla tolla, sem staðið hafa svo lengi, að þjóðin er farin að venjast þeim og menn hættir að taka eftir, hvað þungir þeir eru í raun og veru og órjettlátir.

En þessi bráðabirgðaskattur, gengisviðaukinn, á engan rjett á sjer. Eða á að halda honum, þótt t. d. sterlingspundið komist niður í 18 kr. og íslenska krónan komist í fullvirði móts við gull!

Að lokum vil jeg aðeins skjóta því fram, að jeg hefi ekki trú á því, að byrjað verði að leggja til að afnema vörutollinn á undan ýmsum bráðabirgðatollum. Vitanlega mun jeg ekki verða því mótfallinn, en býst alls ekki við, að svo verði.