04.03.1925
Efri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg þarf ekki að vera langorður að þessu sinni, þar sem hæstv. atvrh. (MG) hefir þegar andmælt flestu því hjá hv. 2. þm. S.-M. (IP), sem andmæla þurfti. Satt að segja kom mjer á óvart margt í aðstöðu hv. minni hl. til þessa máls. Jeg man ekki til, að neitt það hafi fram komið við umræður um málið í nefndinni, sem gefið gæti háttv. 2. þm. S.-M. (IP) átyllu til að ætla, að meiri hlutanum væri það mest áhugamál að stofna sem glæsilegast embætti, en hirti á hinn bóginn minna um nytsemi þess eða starfið, sem væntanlegum sendimanni væri œtlað að vinna. Í nál. meiri hl. er beinlínis lögð áhersla á það, að sendimaðurinn geti haft sem besta aðstöðu, til þess að hann geti látið sem mest gott af sjer leiða í stöðu sinni. Þykist jeg vita, að hv. þm. (IP) muni líka við nánari íhugun unna meiri hlutanum sannmælis í þessu efni. Fyrir okkur öllum, og hv. minni hl. efalaust líka, vakti ekkert nema það að koma þessu máli í það horf, að sem mests árangurs mætti af því vœnta.

En hv. minni hl. er Spánn þyrnir í augum vegna ágreiningsmáls, sem verið hefir milli þess ríkis og Íslands, en það er alveg óþarft og ástœðulaust að setja þau ágreiningsatriði í samband við þetta mál, eins og hæstv. atvrh. (MG) hefir bent á. Hinsvegar hafa ekki ósjaldan þær skoðanir verið látnar uppi, beinlínis eða óbeinlínis, að ekki væri mikill vandi að losna við markaðinn á Spáni, oss að skaðlausu. Vjer gætum með því að senda einn eða tvo menn eitthvað út í lönd útvegað alt í einu markað fyrir íslenskan fisk. Jeg tek það fram, að jeg hefi ekki heyrt hv. 2. þm. S.-M. (IP) halda fram þessari skoðun, sem jeg er satt að segja hissa á, að nokkurn tíma skuli hafa komið fram. Það tekur lengri tíma og er meiri erfiðleikum bundið að breyta þannig til um markað en menn alment gera sjer grein fyrir. Jeg held því, að best sje að fara varlega í það að óska, að fiskmarkaður vor flytjist frá Spáni. Enn sem komið er höfum vjer mest saman við Spán og Ítalíu að sælda hvað þetta snertir, og þá er bráðustu þörfina mest að meta. Því er ætlast til, að fulltrúi vor gæti hagsmuna Íslendinga í báðum þessum löndum.

Það er auðvitað svo, að flestar þjóðir neyta fiskjar, en ekki nema fáar, sem neyta hans eins og vjer tilreiðum hann. Kaffanegrar í Afríku borða t. d. fisk, en einkum ósaltaðan hertan. Einkennilegt mætti því virðast að fara t. d. að senda fulltrúa þangað fyrir land, sem eins og vort framleiðir eingöngu saltaðan fisk, en ganga fram hjá vorum gömlu og reyndu markaðsstöðum.

Vjer erum heldur ekki einir um markaðinn í Miðjarðarhafslöndunum. Englendingar, Norðmenn og New-Foundlendingar keppa þar við okkur. Það getur því ekki talist ónauðsynlegt, þótt vjer höfum einn búsettan mann þar suður frá til að gæta hagsmuna vorra.

Hv. þm. (IP) taldi, að ef frv. yrði samþykt, þá myndi það tefja fyrir því, að markaðurinn flyttist frá Spáni. Það tel jeg vel farið. Jeg skil ekki þá menn, sem í alvöru óska, að þessi elsti og stærsti markaður fyrir íslenskan fisk glatist, eða að Spánverjar á nokkurn hátt dragi sig í hlje. — Hv. þm. (IP) varð tíðrætt um þá tíma, þegar þjóðin öll stóð á öndinni út af viðskiftum Spánar og Íslands. Það er alveg rjett, að þjóðin var áhyggjufull og hafði ástæðu til að vera það, því það var þá ágreiningur milli landanna, sem annar höfuðatvinnuvegur vor gat átt á hættu að bíða stórfelt tjón af. En miklu áhyggjufyllri hygg jeg, að þjóðin, og ef til vill hv. þm. (IP), hefði verið nú, hefðu þau mál ekki skipast og ísl. fiskur því verið sama sem útilokaður frá Spánarmarkaðinum. — Það, sem nú liggur fyrir, er það að halda sem best í vora gömlu markaði, reyna að rýmka þá og, ef hægt er, að útvega nýja. Slíkt er gömul og heilbrigð kaupmannaregla.

Það var engin fjarstæða, þótt jeg segði, að vjer hefðum fáum hæfum mönnum á að skipa til þessa starfa. Þó hægt sje að benda á einn eða tvo menn, sem kunni spanska tungu, þá sannar það ekkert um aðra hæfileika þeirra í þessa átt. Það er margt fleira en málakunnátta, þó góð sje og nauðsynleg, sem sendimaðurinn þarf að hafa til að bera, ef hann á að koma ár sinni Vel fyrir borð.

Hv. atvrh. (MG) mintist á skýrslurnar, og er jeg honum samdóma um það, að í mörgum tilfellum muni nauðsyn bera til, að vinsað sje úr þeim áður en þœr sjeu birtar almenningi. Það getur líka haft áhrif í þá átt að gera skýrslugjafann varkárari í því að segja frá öllu, sem hann kemst á snoðir um, en hann má til að láta vita um alt, sem hann veit, að hefir áhrif á sölu fiskjarins. En að öðru leyti finst mjer mjög æskilegt, að skýrslurnar verði birtar jafnóðum og þær koma.

Jeg held, að hv. þm. (IP) geri of mikið úr því djúpi, sem hann kveður vera á milli skoðana okkar í þessu máli, þegar það er skoðað ofan í kjölinn. Báðum kemur okkur saman um nauðsynina á því að hafa sendimann á Spáni, og aðalatriðið sjálfsagt hjá báðum, að árangur verði sem mestur af starfi hans.

Meiri hlutinn hyggur, að þessu verði heppilegast náð með því að samþykkja frv. óbreytt.