04.03.1925
Efri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg hafði nú tæplega búist við, að hv. frsm. minni hl. (IP) yrði svona harðorður í garð okkar meirihlutamanna í mótmælum sínum, eins og raun ber vitni. Hann er að kvarta undan því, að við sig sje talað eins og barn í þessu máli. Þetta er því undarlegra, sem liggur við að næsta mikils barnaskapar gæti í skrafi hans öllu, — eða hvað er það annað en barnaskapur að berja það blákalt fram, að meiri hl. vilji „tryggja það helsi, er Spánarsamningarnir lögðu á þjóðina“, með því að ráða til að samþykkja frv. (IP: Þetta er nú útúrsnúningur). Það er ekki til neins fyrir hv. þm. að mótmæla þessu; jeg skrifaði þessi barnalegu orð hans um leið og þau flutu af vörum hans. En hann hefir ef til vill ekki ætlað að segja þetta, og leiðrjettir það þá vonandi. Það er fjarri því, að hjer sje um nokkurt helsi að ræða, sem lagt sje á þjóðina; hjer er aðeins um praktiskar ástæður að tala, sem snerta hagsmuni Íslands og fiskmarkað okkar á Spáni, og þetta veit hv. 2. þm. S.-M. (IP) mætavel, þó hann — ja, jeg hafði nú rjett að segja nefnt barnaskap aftur — haldi öðru fram.

Það getur verið gott að vera hæfilega tortrygginn á stundum, en það er lítt sæmandi fulltrúum þjóðarinnar að láta tortyggnina hlaupa með sig í gönur.

Það er næsta líklegt, að hjer á landi sje enginn sá, er ekki vildi vera laus við Spánarsamningana landsins vegna, væri þess nokkur kostur. Það voru engin svik við bannlögin, að við gengum inn á þá skuldbindingu Spánverja að flytja ljettu vínin inn í landið. Þingið sá, að þessi atvinnuvegur þjóðarinnar þoldi ekki tollstríð við Spánverja. Og til þess að bjarga honum og landinu var undanþágan gefin.

Og þó að við höfum búsettan mann þar syðra, þá er það vegna þess, að landið hefir þar svo stórra hagsmuna að gæta, en alls ekki á neinn hátt til þess að tryggja Spánarsamningana eða viðhalda þeim. Annars finst mjer það óþarfi að bendla ákveðinn mann við þessa væntanlegu stöðu, eins og gert hefir verið. Það er ekkert undarlegt, þó að til þeirra sje leitað í þessu efni, sem betur vita. Þess vegna var það, að nefndin kvaddi Gunnar Egilson konsúl á fund sinn til skrafs og ráðagerðar. Þetta veit hv. 2. þm. S.-M. (IP) mætavel. Nefndin var ekki að ráða þennan mann sem fulltrúa á Spáni, þó að hún talaði við hann um fyrirkomulag þessara mála utanlands og markaðshorfur þar syðra.

Hinsvegar finst mjer, að þessi tortrygni komi úr hörðustu átt, þegar þess er gætt, að í nál. minni hl. stendur, að utanferðir Gunnars „virðast hafa haft allmikla þýðingu og gefið góðan árangur“, enda er hvergi vikið að því í nál., að maður þessi hafi ekki staðið vel í stöðu sinni, heldur þvert á móti viðurkennir hv. minni hl., „að sendimaður þessi hafi unnið fisksölunni gagn og geti gert það framvegis“

Það er ekki rjett fyrir hv. þingmann, þegar um svona mikið hagsmunamál þjóðarinnar er að ræða, að láta bannlagahugsjónir eða óþarfa tortryggni leiða sig í gönur, afleiðingin verður sú, að hann með því móti, þó óviljandi kunni að vera, skaðar rjettan málstað.