06.03.1925
Efri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Jónas Jónsson:

Jeg vildi leyfa mjer að mæla nokkur orð fyrir þeirri brtt. við frv., sem fyrir liggur, sem jeg flyt nú við 3. umr. í henni felst ekki mikil breyting, en varúðarráðstöfun.

Viðvíkjandi fyrri liðnum er það að segja, að mjer hefir skilist á hæstv. atvrh. (MG) við 2. umr., að hann mundi ekki veita embættið manni, sem væri í þjónustu Spánar. En allur er varinn góður, þar sem einn af þeim mönnum, sem helst koma til greina, mun nú vera í þjónustu Spánverja. En fulltrúi Íslendinga á Spáni má alls ekki vera um leið háður öðru ríki.

Viðvíkjandi síðari liðnum vil jeg taka það fram, að þegar ríkið hafði áður fulltrúa í Genúa — sællar minningar — varð töluverð óánægja hjer meðal útgerðarmanna; maðurinn, sem sendur var, væri ekki jafnóháður öllum fiskseljendum. Endirinn varð sá, að ræðismenskan var lögð niður. Þó mikið fje væri veitt til þess, fór alt út um þúfur. Það var jafnvel ástæða til að halda, að þetta hafi verið „diplomatiskur“ ósigur fyrir ríkið. Hefir það aldrei verið útskýrt að fullu af hæstv. forsrh., hvers vegna við fengum ekki að hafa ræðismann í Genúa, hvort það var Dönum að kenna eða að einhverju leyti íslensku stjórninni.

Í till. er ekki farið fram á annað en það, að maðurinn, sem veitt verður embættið, eigi ekki að vera í þjónustu annars ríkis eða skuldugur íslenska ríkinu. En það hefir komið fyrir, að landið hefir haft í þjónustu sinni sem fulltrúa erlendis mann, sem var ríkinu stórskuldugur. Þetta er velsæmisbrot og má ekki koma fyrir aftur.