06.03.1925
Efri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er rjett, sem hv. flm. brtt. (JJ) tók fram, að jeg sagði við 2. umr., út af því, að Gunnar Egilson var nefndur sem væntanlegur sendimaður, að fái hann embættið, verður hann að hætta við að vera spanskur konsúll hjer. Það liggur og í hlutarins eðli, að um leið og maðurinn er búsettur á Spáni getur hann ekki verið spanskur konsúll á Íslandi. Jeg held, að ekki sje nein hætta á, að hann færi að starfa fyrir önnur ríki, t. d. Danmörku, Svíþjóð eða Noreg, og því sje fyrri hluti brtt. með öllu óþarfur, enda verður aðalefni þessa hluta till. sennilega tekið upp í erindisbrjef ráðunautsins eða skipunarbrjef. Vitaskuld á hann að starfa eingöngu að okkar málefnum, enda kemur annað ekki til mála.

Svo er hitt atriðið, að sendimaðurinn skuli vera fullkomlega óháður ríkinu. Jeg skil ekki, hvers vegna það er svo ósköp hættulegt, þó maðurinn skuldi ríkinu eða ríkisstofnunum. Jeg hefði betur skilið ástæðuna til þessa ákvæðis, hefði það hljóðað um skuldir við prívatmenn, því að það eru engar líkur til, að ríkið misnoti aðstöðu sína, en það gætu einstakir menn gert.

Annars er best fyrir hv. 5. landsk. (JJ) að sýna meiri hreinskilni en hann nú gerir í þessum umræðum, en fyrst hann vill ekki vera hreinskilinn, þá verð jeg að skýra nánar, hvað hann á við með brtt. sinni. Hann veit, að sá maður, Gunnar Egilson, sem flestir telja standa nærri því að fá þessa stöðu, skuldar landsverslun síðan hann var sendimaður í Ameríku, og mjer er kunnugt um, að hann hefir samið um afborgun á þessari skuld við landsverslun, þannig, að hann borgi 1 þús. kr. á ári. Þetta vill hv. 5. landsk. (JJ) láta varða því, að þessi maður megi ekki fá stöðuna, og til þess er síðari hluti brtt. fram borinn, og er engin ástæða til að fara kringum þann sannleika eins og köttur í kringum heitan graut, þótt hv. 5. landsk. geri það. En jeg sje ekki, að þessi skuldaskifti sjeu nein bönd á manninn eða blettur. Annars vil jeg geta þess, að það er óráðið, hvort hann fær embættið og hvort hann sækir um það. En hann stendur vitanlega flestum mönnum nær að fá það, ef hann sækir um það. Það er ómögulegt að skoða manninn óhæfan til þessa starfs vegna þessarar skuldar, sem hann er að afborga. Jeg sje því ekki, að brtr. eigi þann rjett á sjer, að hana beri að samþykkja.

Þá mintist hv. þm. á sendiferðina til Genúa hjer um árið. Sú sendiferð var gerð eftir ákvörðun þingsins. En ef háttv. þm. (JJ) hefir ekki fengið nægar skýringar hjá hæstv. forsrh. (JM) um utanríkismálin, þá ætla jeg mjer ekki þá dul að koma honum í skilning um það mál.