06.03.1925
Efri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 5. landsk. (JJ) misskildi mig dálítið út af fyrri hluta brtt. Það er rjett, að jeg hefi ekkert við hann að athuga, ef hann væri borinn undir atkv. út af fyrir sig, en þar sem hv. þm. (JJ) mun ætlast til, að till. sje borin upp í einu lagi og jeg er alveg á móti síðari hluta hennar, hlýt jeg að vera á móti henni í heild, enda mun fyrri parturinn tekinn upp í erindisbrjef eða skipunarbrjef sendimannsins.

Hv. þm. (JJ) kvað Gunnar Egilson hafa verið nefndan við 2. umr. í sambandi við þetta embætti. Það gerði hv. 2. þm. S.-M. (IP), en jeg ekki.

Hitt er auðvitað mjer og öðrum ljóst, að hann stendur nærri því að fá embættið, ef hann vill það, sökum þess að hann er búinn að fara slíkar ferðir margsinnis og er manna kunnugastur þessum málum; og jeg geri ennfremur ráð fyrir því, að bankarnir, sem við höfum í ráðum um þetta, kjósi hann framyfir aðra.

Mjer skilst á hv. 5. landsk. (JJ), að hann álíti Gunnar Egilson óheiðarlegan mann. (JJ: Hvernig eru fjárreiður þessar!). Jú, maðurinn er enn í skuld, sem kom þannig til, að honum var of mikið útborgað meðan hann var í Ameríku, af því að laun hans voru ekki ákveðin fyrirfram. Jeg skil því ekki, að hv. 5. landsk. hafi leyfi til að bera slíkar sakir á þennan mann sem hann hefir gert hjer.

Hv. 5. landsk. þykir jeg hafa komist að góðum samningum við landsverslunarforstjórann fyrir Gunnar Egilson, en jeg vil minna hann á, að í þeim samningum var jeg málafærslumaður landsverslunarinnar, en ekki Gunnars Egilsonar, svo að ef hv. þm. (JJ) þykir vel samið af hálfu Gunrars, er rjett fyrir hann að finna að því við landsverslunarforstjórann, sem samþykti þessa samninga. Annars er það náttúrlega rjett hjá hv. þm. (JJ), að jeg er duglegur og góður samningamaður, og jeg skal gjarnan reyna að hjálpa honum síðar, ef hann kemst í þrot og á örðugt með að ráðstafa skuldum sínum.

Háttv. þm. kallar mig altaf fjrh. (JJ: Það er svo frægt). Það er sjálfsagt af því, að það er ávalt tungunni tamast, sem hjartanu er kærast. Hann hefir sjálfsagt verið mjög ánægður með fjármálastjórn mína, enda ekki ástæða til annars, því það var vel á haldið, að landið jók ekki skuldir sínar árin 1920 og 1921 nema um tæpa 1/2 milj. kr., en næstu 2 árin, 1922 og 1923, sem voru miklu betri ár, ukust þær um margar milj. kr. Jeg á því skilið lof hv. þm. (JJ).