06.03.1925
Efri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Einar Árnason:

Mjer virðist umræðurnar um þetta frv. hafi nú verið alleinkennilegar. Það hefir komið fram nokkuð glögt, að ýms ákvæði frv. sýnist eiga að miða við einstakan mann. Það hefir verið talað persónulega um einn mann. Jeg þekki þennan mann ekki neitt og hafði enga hugmynd um, að hann skuldaði landsverslun, fyr en nú. Það skiftir mig líka ákaflega litlu, hvort þessi maður skuldar, og yfirleitt hvort hann er til eða ekki. En þegar um lagasetning er að ræða, sem tryggja á hagsmuni landsins og þjóðarheildarinnar, er sjálfsagt, að hagsmunir einstaklingsins verði að víkja. Hvað brtt. viðvíkur, þá er í henni tryggingarákvæði, og mun jeg hiklaust greiða henni atkvæði. Þeir, sem gegna opinberum embættum, eiga að vera svo sjálfstæðir og óháðir sem kostur er á. Fjárhagslegt sjálfstæði hlýtur altaf að verða grundvöllur skoðanasjálfstæðis og framkvæmdasjálfstæðs.