06.03.1925
Efri deild: 24. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Frv. er alls ekki miðað við ákveðinn mann, og það er alveg ástæðulaust að blanda þessum manni inn í umr. Það er auðvitað gott og nauðsynlegt, að menn sjeu óháðir. En ef út í það er farið og allir kallaðir öðrum háðir, sem skulda, þá erum við nú víst allir meira og minna háðir. Jeg er sannfærður um, að það er rjett, eins og líka hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) tók fram, að fjárhagslegt sjálfstæði er nauðsynlegt í þessu sem öðru, en ef þeir einir eiga að teljast fjárhagslega sjálfstæðir, er hvergi skulda, hygg jeg, að þeir muni þá ekki vera margir, sem fyrirfinnast slíkir.

Að síðustu vil jeg endurtaka það, að brtt. hv. 5. landsk. (JJ) er aðeins fram komin til þess að útiloka frá starfi þessu ákveðinn mann, sem honum er illa við, en ef allir ættu að vera útilokaðir, sem einhverjum skulda eitthvað, þá gengju margir frá, og það er vitaskuld mjög heimskulegt að álíta, að verra sje í þessu efni að skulda ríkinu eða ríkisstofnunum en einstökum mönnum.