28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. samgmn. (Sveinn Ólafsson):

Nokkrir þm. hafa vikið að áliti samgmn. á þskj. 242, og einkum á þann veg, að setja út á tillögur hennar. Þessi ummæli komu einkum fram frá hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) og nú síðast frá tveim nefndarmönnum, sem eigi eru henni sammála og fyrirvara gerðu.

Áður en jeg svara þessum aðfinslum, vildi jeg segja nokkur orð um samgöngur á sjó, eða strandferðirnar yfirleitt, að gefnu tilefni. Í nál. er ekki að þessu vikið, nema um flóabáta og fjárframlagið til Esju. Um Esjuferðirnar að öðru leyti ekkert talað.

Það er öllum kunnugt, að afturför hefir orðið mikil í strandferðum síðustu árin. Frá því fyrir aldamót og fram til stríðsbyrjunar komu strandferðaskip við á sæmilegum höfnum umhverfis landið með hálfsmánaðar millibili. Nú í seinni tíð er slíks enginn kostur, þótt reynt hafi verið að bæta úr skák með fjárveitingum til flóabáta á erfiðustu stöðunum.

Þegar á það er litið, að viðkomur skipa voru svona tíðar á því tímabili, sem jeg nefndi, þá er ekki furða, þótt þeim hafi brugðið illa við, sem nú eiga ekki kost á viðkomum eða póstflutningi nema á 5–6 vikna fresti. Afleiðingarnar eru líka augljósar. Fólkið streymir úr sveitunum til kaupstaðanna, vegna þess, að það unir eigi einangruninni og nýtur sín hvorki andlega eða efnalega hennar vegna.

Jeg þekki ekkert mál, sem ber eins oft á góma í hjeruðunum einangruðu eins og samgöngumálin. Þar heyrast sífeldar kvartanir og sífeldar óskir um endurbættar samgöngur. Jeg hefi að vísu oft heyrt því fleygt hjer athugalítið af þeim, sem við góðar samgöngur búa, að fólk hefði annað þarfara að gera að sumrinu en að vera að ferðast landshornanna á milli með strandferðaskipum. Með þessu reyna margir að sannfæra sjálfa sig og aðra um það, að ekki sje þörf á bættum samgöngum. En sannfæringarkraftur þessara manna nær engum tökum á fólkinu. Það flýr sveitirnar alt að einu, vegna einangrunarinnar.

Um fólksstrauminn úr sveitunum til sjávar er talað eins og böl, og það er hann í öllu tilliti, ef rjett er á litið. En jeg sje ekkert ráð líklegra til að aftra landauðn sumra sveitanna en að koma þeim með bættum samgöngum inn í straum viðskiftanna og samstarfsins.

Mjer flaug þetta í hug í gær, þegar hv. þm. Mýra. og Borgf. (PÞ og PO) voru að finna að þeim till. samgmn., að skip það, sem undanfarið hefir annast ferðir í Borgarnes, ætti að taka einnig að sjer nokkrar ferðir á næsta flóa, t. d. Breiðafjörð, og tengja saman alt svæðið frá Látrabjargi að Reykjanesi. Borgfirðingar hafa undanfarið átt við vikulegar ferðir að búa, og þessi andstaða þessara tveggja hv. þm. bendir einmitt á það, hve nauðsynlegt og æskilegt sje að hafa svo tíðar ferðir. Þeir óttast, að ferðunum í Borgarnes fækki, ef Suðurland annast einnig ferðir í Breiðafjörð, og því finst þeim varhugavert að aðhyllast till. nefndarinnar.

Út af þessu vil jeg benda á, að leiðin frá Reykjavík upp í Borgarnes er ekki nema ca. 28 sjómílur, eða vökusigling fyrir sæmilega hraðskreið skip. Það virðist því vera hægðarleikur að halda uppi vikulegum ferðum milli þessara staða, enda þótt skipið annist einnig ferðir á Breiðafjörð. Leiðin vestur til Búðardals mun vera 120 sjómílur og til Króksfjarðarness 140–150 sjómílur. Þessi leið er því ekki nema 4–5 vökusiglingar. Ef gert er ráð fyrir, að leiðin fram og aftur sje 300 sjómílur og að komið verði við á helstu höfnum, mundi ferðin taka 3–4 sólarhringa. Ferðir til Króksfjarðarness og Búðardals þyrftu sennilega ekki að vera mjög margar, og að öllu athuguðu finst mjer, að skipinu sje alls ekki ofætlun að fara þessar ferðir vestur, eins þótt það á hverri viku færi eina ferð til Borgarness. En auðvitað verður að hafa nýtilegt skip til þeirra ferða. Ef gott skip fæst, gætu þessar ferðir orðið ódýrar og hagkvæmar, ef áætlun er gerð með hvorntveggja flóann fyrir augum, svo að ekki reki sig hver áætlunin á aðra.

Hv. þm. Borgf. (PO) taldi, að ekki myndi vera heppilegt, að sama skip annaðist ferðir á báðum flóum. Benti hann til þess, að Suðurland hefði ekki treyst sjer til að taka við ferðum á Breiðafirði nú nýlega, er reynt var að semja um þær.

Jeg held, að það hafi hvergi komið fram, að Suðurland hafi ekki treyst sjer til að annast ferðirnar. Hitt kom fram, að áætlun, sem búið var að birta um Borgarnesferðir, hlaut að haggast við ferðir til Breiðafjarðar, af því, að hvorttveggja var ekki fyrir augum haft í upphafi. Jeg efa ekki, að úr þessu mætti bæta með því að semja áætlun í einu lagi.

Hv. þm. Borgf. (PO) lýsti nú reyndar yfir því, að hann teldi þessa breytingu æskilega, ef hún reyndist hagkvæm. Jeg veit, að hún verður það. Fólk, sem býr við báða flóa, fær betri ferðir og betra tækifæri til að kynnast og eiga margháttuð viðskifti, og hagsmunirnir af því eru ómetanlegir. Auk þess mundi á þennan hátt ráðið heppilega fram úr Breiðafjarðarferðum, sem áður hefir eigi tekist.

Hv. sami þm. fann að till. nefndarinnar um skiftingu á smábátastyrknum, einkum till. um veitingu til Hvalfjarðar-, Rauðasands- og Lagarfljótsbátanna. Jeg get ekki sjeð, að till. nefndarinnar í þessu efni sje ósanngjarnleg. Samanburður á milli Hvalfjarðarbáts og Lagarfljótsbátsins á tæplega við. Þótt færra fólk búi við Lagarfljót en Hvalfjörð, verður að gæta þess, að þetta fólk á við langtum meiri samgönguörðugleika að etja. Áður en hægt er að nota bátinn á Lagarfljóti, verður að flytja varning allan um 35 km. á landi. (PO: Eru þá engir landflutningar frá Hvalfirði?). Og auk þess eru fyrir mörgum langir landflutningar, er bátnum sleppir. Landflutningar eru auðvitað við Hvalfjörð líka, en miklu minni, og leiðin sjálf hjeðan inn í Hvalfjörð lítið lengri en sá spölur, sem flutt verður eftir Lagarfljóti. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta.

Háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) mintist á till. samgmn. og taldi rjettast að fresta þeim til 3. umr. Að vísu skiftir það litlu máli, hvort þeim verður frestað, en þó er gott að sjá við væntanlega atkvgr., hvers má vænta um brtt., er kunna að koma fram síðar. Þá mintist og hv. frsm. (ÞórJ) á, að það heyrði í rauninni undir fjvn. að fara með þessi mál. Það geta þó orðið skiftar skoðanir um það, og mætti þá eins hugsa sjer, að hún tæki við öllum málum, sem fjárhaginn snerta. Venjan hefir verið sú, að láta sjerstaka nefnd fást við mál eins og þessi, til að ljetta störfum af fjvn. En hvað sem um það er, munu till. samgmn. koma undir atkv. að þessu sinni.