16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Bjarni Jónsson:

Jeg mundi ekki hafa viljað þreyta hv. deild með því að tala um þetta mál, ef jeg þyrfti ekki að leiðrjetta misminni, sem mjer varð um daginn, þegar jeg talaði um sendiherrann, að hann hefði farið til Spánar í samningserindum. Það var ári fyr, 1921, sem afstýrt var aukaþingi, sem hefði leitt af því, hefði tollurinn á Spáni komist á. En það var ekki sendiherrann, sem var þar staddur fyrir Íslands hönd, heldur var það Gunnar Egilson. Koma því þær 7 milj. kr., sem spöruðust í tolli, á 1921, en ekki 1922.

Auðvitað hefir minn útreikningur það sönnunargildi, þótt annar maður hafi átt þarna í hlut, að sýna, hversu það er oss nauðsynlegt að hafa sendimenn erlendis. Auðvitað voru með Spánarsamningum á hverju ári sparaðar 7–10 milj. kr., miðað við það, hefði tollurinn komist á.

Þetta misminni mitt vildi jeg aðeins leiðrjetta, til þess að menn haldi ekki, að mjer hafi verið þetta ókunnugt. Enda hefi jeg skrifað í „Andvöku“ áður um þessa sendiferð Gunnars Egilsonar. Annars hefi jeg ætíð verið fylgjandi því, að Ísland hefði sendimann í Miðjarðarhafslöndunum. En jeg hefi líka haldið hinu fást fram, og geri enn, að samkv. sambandslögunum, 7. gr. 3. lið, eigi að vera sendimaður erlendis til þess að annast sjerstaka samninga og önnur störf. En hann á að vera eftir eðli þeirra starfa stjórnmálasendimaður eða „diplomat“. Ef það er sendiherra, sem hefir slík erindi með höndum, á hann hvarvetna greiðari aðgang og þjóðirnar meta hann meira heldur en sendimann frá einhverju fyrirtæki, hlutafjelagi, banka eða þvílíkum stofnunum. Og jeg skil ekki, hvers vegna stjórnin hefir látið sjer koma í hug að senda mann í þessi lönd með öðrum hætti en þessum. Þegar við vorum að semja 7. gr., var einmitt gert ráð fyrir slíkum tilfellum. Jeg þykist vita, að menn segi, að maðurinn þurfi að vera meira en um stundarsakir og geti því ekki heyrt undir þennan lið. En það er misskilningur. Hann getur þurft að vera einn tímann á Spáni, Ítalíu og svo Grikklandi, ef menn kunna að meta markaðinn þar. Þess vegna getur hann verið altaf í Miðjarðarhafslöndunum, og þó um stundarsakir.

Á þetta er bent til þess að sýna, hvernig á að nota 7. gr., einmitt þennan lið hennar. En í stað þess að gera það, gerir stjórnin út mann, sem er hvorki fugl nje fiskur. En af því að jeg mun í fyrirspurn minni til utanríkisráðherrans koma inn á þetta, rek jeg það ekki lengur nú; en jeg ákæri hæstv. stjórn og Alþingi fyrir ranga meðferð á 7. gr. sambandslaganna.

Einn háttv. þm. sagði, að þessi maður ætti að vera atvinnuerindreki, en ekki eins og sendiherrann í Kaupmannahöfn hefir verið. Hann var líka atvinnuerindreki. Hann fór til Spánar og gerði samninga um atvinnumál; hann fór til Noregs og gerði samninga um verslunarviðskifti. Yfirleitt eru allir þessir sendimenn einkum atvinnuerindrekar. Það er ekki á hverju ári, sem sendiherrar þurfa að semja um stjórnarmál. Auðvitað hafa þeir fleiri störf með höndum; og það er aðalstarf allra sendimanna að vera atvinnuerindrekar. Svo þetta sker ekki neitt úr hjer.

En auk þessarar miklu vanrækslu á 7., gr. sambandslaganna er líka annað atriði í þessu sambandi, sem er allfurðulegt. Það er furðulegt, að það skuli koma fyrir, að frv. sje lagt fram um það að stofna opinbert embætti, þar sem ríkissjóður eigi að greiða 1/3 launa, en svo eigi tvær stofnanir í landinu að greiða hina 2/3. Það er þó hóti skárra með Landsbankann, af því að ríkið á bankann og á rjett á þessu, ef það vill heldur taka fjeð úr þeim vasa heldur en ríkissjóðs vasa. En það er hálfundarlegt, þegar er nefndur banki, sem er hlutafjelag og löggjafarvaldið hefir ekki neinn rjett til að skipa á þennan hátt frekar en hverjum einum manni í landinu. (Atvrh. MG: Hann hefir boðið þetta fram). Það mætti því búast eins við, að á næsta ári kæmu lög um það, að þetta og þetta embætti skuli stofna, og borgi ríkissjóður 1/10 launa, en 9 útgerðarmenn hver sinn hlut, eða þá 9 bændur.

Hæstv. atvrh. tók fram í og sagði, að bankinn hefði boðið þetta fram. Getur verið, að hæstv. stjórn viti, að þetta verður ekki gert ónýtt; en aðferðin og útlitið á pappírnum og það, sem í sjálfu sjer er farið fram á, er jafnandstyggilegt fyrir því. Ríkið er að láta einstaka menn og stofnanir borga kostnað við starfsmannahald, sem eingöngu á að hvíla á þjóðfjelaginu í heild. Því þetta embœtti, sem um er að ræða, er til gagns öllum þegnum ríkisins. Og ágóði er enginn af þessu, því það mætti vafalaust finna aðrar leiðir til þess að hafa þetta upp á bankanum. Það væri þó skárra að leggja á sjerstakan sendimannaskatt og láta svo heita, að ríkið launaði sínum mönnum. Líka mætti auka útflutningstollinn. Þeir voru nú að segja það að gamni sínu, að hvað sem fyrir kæmi, væri það altaf fangaráðið að hækka útflutningsgjald. Það mætti þó hafa einhver önnur ráð til þess að borga sendimönnum en að ákveða með lögum, að sjerstakar stofnanir taki þær byrðar á sig, hvort sem þeim kynni að líka betur eða ver. Ágóðinn af því er enginn, en skömmin mikil.

Þetta segi jeg ekki af því, að jeg ætli að leggjast á móti frv. stjórnarinnar. Jeg skal segja hv. deild, af hverju jeg greiði atkv. með frv., þó að jeg álíti það illa úr garði gert. Það er af því, að jeg hefi enga von um að geta nokkurntíma sannfært háttv. þm. um það, sem rjett er í þessu máli. Það er nefnilega svo einfalt, að þeir koma víst ekki auga á það nú fyrst um sinn.