16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. þm. Dala. (BJ) þarf jeg litlu að svara. Hann var óánægður yfir því, að það er ekki sendiherra, sem á að senda. En það þarf ekki annað en að benda á það, að bankarnir eiga að launa manninn að 2/3, og það er ein ástæðan fyrir því, að maðurinn getur ekki verið sendiherra. En mjer kemur það allundarlega fyrir, að hann, sem er í yfirstjórn Íslandsbanka, skuli ekki vita, að bankinn bauð þetta fjárframlag. Það er undarlegt að liggja stjórninni á hálsi fyrir að vilja þiggja það tilboð. Einmitt af því að annar bankinn bauð þetta fram, þá hefir stjórnin álitið, að hinn bankinn mundi með sanngirni verða krafinn um það sama, þar sem starfið miðar báðum bönkunum til hags.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) kvartaði um það, að ekki hefði heyrst um neinn árangur ferðar þessa manns í hitteðfyrra. Það er svo um slíkar ferðir, að það er ekki hægt að sýna neinn beinan árangur, en hann getur verið mikill fyrir því. Og auðsœtt er, að það er sönnun fyrir því, að Íslandsbanki hefir í öllu falli litið svo á, að sendiferðin hafi gert gagn, að hann á ný vill leggja fje til slíkrar starfsemi framvegis. Að öðrum kosti hefði hann ekki boðist til þess.

Hv. þm. álítur það hart fyrir stjórnina að bera fram frv., sem gengur út á að stofna nýtt lögfest starf. En því hefir aldrei verið lýst yfir af Íhaldsflokknum, að ekki mætti stofna þörf embætti. Þetta er heldur ekki annað en það, sem þingið ákvað í fyrra, að senda mann; því í fjárlögum 1925 eru veittar 10 þús. kr., gegn tvöfaldri upphæð annarsstaðar frá, nefnilega frá bönkunum. Hjer er því ekkert nýtt á ferðinni. En til þess að tryggja, að hægt væri að fá hæfan mann í þetta starf, þá er ákveðið, að hann geti fengið nokkurskonar veitingu eða skipun í starfið, en að það verði ekki hlaupastarf eins og hefir verið.

Jeg skal gjarnan athuga þá till. háttv. þm. (JBald), að dagblöðin fái útdrátt úr skýrslunum; en jeg get ekkert ábyrgst um það, hvort þau vilji birta slíka útdrætti.

Háttv. þm. kvað of nærri gengið bönkunum með því að ákveða þeim þessi útgjöld. Jeg spyr: Var þetta ekki ákveðið í fyrra, þegar fje var veitt í þessu skyni? (JBald: Jú, en af frjálsum vilja). Frjálsum vilja! Það liggur ekkert fyrir um það. Það er heldur ekki sagt, að Landsbankinn láti ekki fjeð af frjálsum vilja, þótt hann óski heldur að vera laus við að greiða það.

Háttv. þm. sagði, að það mætti ekki grípa inn í stofnanir ríkisins. Það er dálítið undarlegt. Þessi háttv. þm. vill koma öllu undir ríkisrekstur, en svo má ríkið ekki hafa afskifti af störfum stofnananna. (JBald: Þetta er misskilningur. Jeg sagði, að það mætti ekki grípa inn í þeirra daglegu störf). Nei, það er ekki misskilningur; hv. þm. sagði, að það væri óviðkunnanlegt að ákveða bönkunum þetta gjald. Háttv. þm. kvaðst vera ósamþykkur því, sem hæstv. fjrh. sagði um þetta efni, en í reyndinni er hann því samþykkur. Því það tilheyrir ekki daglegum framkvæmdum, þótt látin sje ákveðin fúlga til ákveðins manns á ákveðnum stað í ákveðnum tilgangi. En það er víst meining þessa háttv. þm. að reisa ríkisstofnanir, sem svo ráði sjer algerlega sjálfar, og ríkið hafi þar ekkert að segja.

Háttv. þm. álítur kostnaðinn geta orðið 60–80 þús. kr. Jeg geri ráð fyrir honum miklu minni. Það má ekki gera ráð fyrir tiltölulega eins miklum kostnaði eins og við stuttar ferðir, og er margoft búið að skýra það. Jeg veit vel, að háttv. þm. skilur, hvernig á þessu stendur, þó hann látist ekki skilja það.

Það er mjög óviðeigandi að kasta því á þann mann, sem sendur var til Spánar 1921, að hann hafi unnið ógagn, en ekkert gagn. Jeg er sannfærður um, að hann vann þjóðinni vel. Það eru líka til skjallegar sannanir fyrir því, að hann vann mjög mikið gagn.