16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Björn Líndal:

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) þóttist geta leitt út úr orðum mínum, að jeg treysti Alþingi illa. Jeg skal játa, að jeg treysti Alþingi illa til þess að láta vera með að breyta því í ár, sem gert var á síðasta þingi, en aftur á móti treysti jeg því mjög vel til þess að umturna öllu, sem það hefir áður nýlega samþykt. Mín reynsla er sú, að þingið sje ekki við eina fjölina felt í nokkru máli. En ef stofna á slíkt embætti sem sendimannsembætti á Spáni, og til þess er ætlast, að góður maður verði í það skipaður, þá verður hann að vera óháður öllum veðrabreytingum hjer á þingi. Það má ginna mann með fögrum loforðum í ár, en færa launin síðan niður þegar á næsta þingi. En góður sendimaður má ekki eiga slíka hættu yfir höfði sjer. Það eru engin illmæli um Alþingi, þó að ráð sje fyrir því gert, að slíkt geti komið fyrir. Þingsaga síðustu ára sýnir, að við öllu má búast. Og það sýnir líka till., sem fram hefir komið í máli þessu á yfirstandandi þingi og var flutt af manni, sem verður að álíta einn aðalforingja annars stærsta þingflokksins. Sú till. er á þskj. 140 og hljóðar svo:

„Fulltrúinn má ekki vera í þjónustu annars ríkis. Hann skal og vera fullkomlega óháður fjárhagslega ríkinu og ríkisstofnunum.“

Nei, menn þurfa ekki að verða hissa á neinu, þegar þeir hafa lesið þessa tillögu. Ef þessi till. hefði verið samþykt, væri á einskis manns færi, nema stóreignamanna, að taka við þessu embætti. T. d. gætu fáir menn, sem við atvinnurekstur hafa fengist síðustu árin, tekið að sjer embætti, sem þannig væri skilorðsbundið, því þeir skulda flestir meira og minna hjer í bönkunum. Enginn samvinnumaður gæti samkvæmt þessari till. tekið embættið að sjer, því að þeir eru, eins og kunnugt er, allir í stórfeldum samábyrgðum gagnvart bönkunum, einkum Landsbankanum. Og enginn almennilegur maður mundi vilja líta við embættinu, ef hann ætti á hættu, að slík vitleysa, eða jafnvel önnur verri, yrði samþykt hjer á Alþingi eftir að hann hefði tekið við starfanum. En við því mætti altaf búast, ef launakjör fulltrúans ættu að vera til umræðu á hverju þingi, og er þá mjög hœtt við, að reynt yrði að gera úr máli þessu pólitískt bitbein, en það verður að forðast sem unt er.

Hv. þm. (ÁÁ) sagði, að enda þótt till. sín yrði samþykt, gæti stjórnin samt sem áður ráðið mann til starfans fyrir hœrri laun en tekin hefðu verið upp í fjárlög, ef hún tœki hann fram yfir aðra umsækjendur, er byðust fyrir lægra kaup, og samþykki bankanna fengist til þess.

Þetta er að vísu ekki útilokað, en hitt er og vitanlegt, að stjórnin og bankarnir munu ógjarnan vilja greiða meiri laun en fjárlögin segðu til. En þó að slíkt samþykki fengist eitt ár, þá er ekki sagt, að svo yrði framvegis, og gæti þá svo farið, að sendimanninum yrði haldið í úlfakreppu suður á Spáni, því ekki er víst, að hann eigi hægt um vik að komast heim eftir að hann er kominn suður, enda má jafnframt gera ráð fyrir, að hann eigi þá að litlu að hverfa hjer heima, þar sem hann verður að kasta frá sjer atvinnu sinni hjer um leið og hann leggur í suðurförina.

Ennfremur liggur opið fyrir að gera embættið að pólitískum bitlingi, ef þingið á að fjalla um launin á hverju ári. Er þá alls ekki óhugsandi, að einhver byðist til að gegna því fyrir tiltölulega sáralitla þóknun, vegna þess að hann œtti að baki sjer öflugan pólitískan flokk, sem væri fær um að hækka launin stórlega þegar á næsta þingi.

En við megum ekki ganga svo frá stofnun embættisins, að það geti orðið að leiksoppi pólitískra spekúlanta á Alþingi, og þess vegna er jeg á móti brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ).