28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1926

Björn Líndal:

Mjer þykir rjett að geta þess hjer, að jeg aðhyllist fyllilega stefnu hæstv. stjórnar í fjármálum, sem sje þá, að leggja alla áherslu á það að losa ríkið við lausaskuldir þess og að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaus. En þó að jeg tjái mig fylgjandi þessu, þá er jeg þó ekki svo stefnufastur, að jeg víki ekki út af brautinni í lífsnauðsyn. Ef jeg sje hóp af ungu fólki berjast við dauðann og jeg veit, að unt er að bjarga því að meira eða minna leyti með fjárframlögum, þá vil jeg víkja frá stefnunni og rjetta hjálparhönd. Jeg get tekið undir það með hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að ríkið muni litlu, hvort greitt er 75 þús. kr. meira eða minna af skuldum þess á einu tilteknu ári, þegar hinsvegar er um það að ræða að bjarga æskulýð landsins frá heilsutjóni og dauða fyrir örlög fram, með byggingu heilsuhælis á Norðurlandi.

Mjer líkaði það miður, er hæstv. fjrh. (JÞ) vildi setja þetta lífsnauðsynjamál í samband við varasjóð landsverslunar. Með því er stofnað til þess, að þetta mál verði gert að pólitísku flokksmáli, en það má það ekki verða. Mál, sem snertir líf og heilsu fjölda ungra og uppvaxandi manna í landinu, má allra mála síst verða pólitískt flokksmál. Auk þess er varasjóður landsverslunar ekki í handraða, og getur orðið dráttur á því, að hann verði það. En þetta mál þolir enga bið. Það er ljóst á áhuganum og fórnfýsinni nyrðra, hverjum augum þeir líta á nauðsyn þessa máls, sem kunnugastir eru.

Ástandið í sjúkrahúsi Akureyrar er í þessu tilliti orðið alveg ófært. Seinast þegar jeg vissi voru þar 42 berklaveikir sjúklingar af 58, sem í sjúkrahúsinu voru. Þetta er miklu meira en sæmilegt rúm er til fyrir. Stundum verður að láta sjúklinga liggja í hinu svokallaða sóttvarnarhúsi, sem er svo ljelegt, að þar hríðar inn og lekur, og á göngum sjúkrahússins og í forstofu þess verða sjúklingar að liggja. Svo eru þrengslin þarna mikil, sem stafa af aðsókn berklaveiks fólks. Hræðsla þeirra, sem sjúkir eru af öðru en berklum, fer dagvaxandi, og er það síst að undra. Menn vita það, að veikluðum mönnum stendur mest hætta af berklasmitun. En þarna verða menn með lungnabólgu, og menn, sem gerðir hafa verið miklir uppskurðir á, að liggja innan um berklaveika menn. Er hin mesta hætta á því, að svo kunni að fara, að enginn vilji láta leggja sig inn í slíkt sjúkrahús meðan hann fær nokkru um það ráðið, hvað við hann er gert.

Háttv. fjvn. gat ekki mælt með þessari fjárveitingu af sömu ástæðu og hæstv. fjrh. (JÞ). En auk þess ber hún fyrir sig álit eins læknis, eina læknisins á Norðurlandi, er ekki hefir sjeð ástæðu til þess að mæla með þessari nauðsynlegu stofnun. Landlæknir var upphaflega áhugalítill fyrir þessu máli. En nú er hann orðinn mjög einbeittur með málinu, eftir að hafa kynt sjer það rækilega. Sjer hann nú manna best hina brýnu nauðsyn þess.

Kenning þeirra manna, sem eru mótfallnir byggingu slíks hælis, sem hjer er um að ræða, er harla undarleg og athugunarverð. Eftir henni eiga hjeraðssjúkraskýlin að vera berklasjúklingahæli fyrst og fremst. En auk þess eiga skýlin að taka á móti öllum öðrum sjúklingum, að svo miklu leyti, sem rúm leyfir. Þar á þá að blanda saman öllum sjúklingum, hvort sem þeir hafa berkla, difteritis eða taugaveiki, eða aðra jafnsmitandi sjúkdóma. Þar sem sjúkrahúsin eru jafnlítil og ófullkomin og þau eru, þá virðist hjer vofa yfir sú stórhætta, að þessir sjúklingar smiti hver annan, svo að þeim geti riðið að fullu. Þessi kenning skýtur mjög skökku við það, sem mjer hefir verið kent um slík mál, og samrýmist illa við anda og undirstöðu berklavarnalaganna, sem fyrst og fremst er einangrun þeirra sjúklinga, er berkla hafa, svo að öðrum stafi ekki hætta af. Hjer stefnir öfuga leið. Í almennum sjúkraskýlum getur stafað stórhætta af berklasjúklingum, auk þess sem þeim sjálfum er jafnframt stofnað í þá hættu að smitast af öðrum hættulegum sjúkdómum.

Berklahæli eiga að vera í hreinu sveitalofti. Sjúkraskýlin eru flest í smákaupstöðum, fullum af göturyki og óvistlegum til útiveru. Ennfremur stafar meiri sýkingarhætta af þeim þar. En berklaveikum mönnum mun sennilega ganga illa að skilja, hvers vegna þeir sjeu fluttir á þá staði, sem jafnvel mest sýkingarhætta stafar af þeim. í þessu sambandi vil jeg ennþá minnast á eitt atriði, sem ekki má gleyma. Jeg bið háttv. þm. að misskilja ekki orð mín, og allra síst á þann veg, að í þeim felist aðdróttun til þess góða læknis, sem lagt hefir á móti þessu máli. Eins og kunnugt er, taka læknar dagpeninga af sjúklingum í sjúkraskýlum. Almennast mun vera, að þeir taki 50 aura á dag af hverjum sjúklingi. Það getur því verið freisting fyrir lækna að reyna að draga sem flesta sjúklinga að sínu sjúkrahúsi, og jafnvel til þess að halda þeim þar lengur heldur en nauðsyn er á, þegar ríkissjóður borgar, því að hann á jafnan formælendur færri en þeir einstaklingar, sem gjöld eiga að lúka. Berklaveikir menn mega allra sjúklinga síst vera nokkrum manni eða stofnun gróðalind.

Jeg endurtek það, að jeg er hjer ekki með aðdróttanir í garð nokkurs læknis, en þeir eru menn eins og við hinir, og sennilega ekki óeigingjarnari yfirleitt. Og svo mikið þykist jeg geta sagt, án þess að ofmælt sje, að ekki hafa læknar breyst til batnaðar hvað snertir fjárkröfur og greiðvikni við þá miklu launahækkun, sem þeir fengu fyrir nokkrum árum, sem var svo mikil, að þá má nú telja einna hæst launaða af öllum embættismönnum landsins.

Mjer þykir leitt að geta hvorki þakkað hæstv. fjrh. (JÞ) nje hv. fjvn. afskifti þeirra af þessu máli, þótt það sje allrar virðingar vert, að hæstv. fjrh. hefir þó viðurkent nauðsynina á heilsuhæli norðanlands. Aftur á móti er mjer það sjerstök ánægja að votta ýmsum háttv. þdm. þakkir fyrir ágætan og einlægan stuðning við þetta lífsnauðsynjamál. Vil jeg þar til nefna sjerstaklega hv. þm. Dala. (BJ) fyrir hans till. í málinu, um 50 þús. kr. fjárveitingu til hælisins. Auðvitað er þessi upphæð miklu betri en engin. Það mætti byrja með henni, en sennilega mundi hún þó tefja fyrir því, að hælið yrði fullgert, hjá því ef hærri upphæð yrði veitt strax. Fyrsta fúlgan, sem eftir þeirri till. yrði veitt, kæmi þá seinna að notum. En þetta er mjög athugavert. Allur dráttur á byggingu hælisins kostar áreiðanlega fleiri eða færri mannslíf, líf manna á besta aldri. Hann getur kostað mannslíf svo tugum skiftir. Og hvert þeirra getur verið meira virði en 75 þús. kr. fyrir þjóðina, þótt aðeins sje litið á verðgildi mannsins í gulli. En sá verðmælir hefir aldrei verið löggiltur af vitrustu og bestu mönnum nokkurrar þjóðar. Þeir munu ætíð meta líf og heilsu manna og ýms önnur gæði meira en gull.