16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki vera margorður, aðeins gera grein fyrir atkvæði mínu með tilliti til þeirra athugasemda, sem jeg gerði við 1. umr., og þess, er vænta má í þessu máli eftir því, sem þessar umræður hafa leitt í ljós.

Með brtt. á þskj. 329 er svo ákveðið, að laun fulltrúans skuli vera 12 þús. kr. En þarna er aðeins átt við nokkurn hluta þeirra. Með þessu er því ekki frekar ákveðið en þótt engar tölur lægju fyrir. Launin geta hlaupið upp svo og svo mikið, þótt þessi brtt. yrði samþykt; væri því að mínu viti á engan hátt bætt við ákveðnum ákvæðum í frv. (ÁÁ: Þingið á að halda aftur af). Ójá. Það má vera, að það geri það. En þar sem stöðu þessari er þannig háttað, að hún verður að vera samningsbundin hvað launin snertir, þá virðist auðsætt að fela þá samninga stjórninni; að ákveða upphæð í þessu skyni, sem fyrirsjáanlega er of lítil, virðist ekki til neins. Þessi samningagerð er ekki nema lítill þáttur úr framkvæmdarvaldi því, sem þingið óhjákvæmilega verður að fela stjórninni.

Samkvæmt brtt. á þskj. 329 er gert ráð fyrir, að fulltrúann skuli skipa eftir till. þriggja aðilja. Ef svo væri alment ákveðið í löggjöfinni, að ýmsir aðiljar hefðu tillögurjett um veitingu hinna ýmsu sýslana, þá væri ekkert um þessa brtt. að segja; en eins og hjer stendur á, virðist hún alveg óþörf. Þá ættu þeir, sem búa eiga við aðra embættismenn, t. d. sýslumenn, að fá að skipa þá.

Jeg lít svo á, að bankarnir og Fiskifjelagið megi hlíta vel við sinn hlut, þar sem þeim stofnunum er ætlaður rjettur til þess að gera tillögur. Hvernig ætti líka stjórnin að fara að, ef hún væri skyldug að lögum að hlíta till. þessara stofnana, en þær kæmu sjer ekki saman?

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) skal jeg taka það fram, að þær virðast ekki vel samrýmanlegar frv., og geta því tæplega verið vel fallnar til samþyktar.

Þá hefir verið bent á, að rjett væri, að hvor banki borgaði nokkuð. Annar hefir nú þegar boðist til þess, og þegar þess er gætt, hve mikið bankarnir eiga undir þessu starfi, þá er það ekki ófyrirsynju, þótt þeir tækju þátt í þessu. Og þótt jeg sæi það ekki í aths. frv., þá þykist jeg mega fullyrða, að það hefir verið borið undir stjórn Landsbankans.

Þá kem jeg að skýrslunum. Jeg get ekki verið sammála hœstv. atvrh. (MG) um það, að vafasamt væri, hvort blöð fengjust til þess að taka það úr skýrslum þessa manns, sem nauðsynlegast væri og stjórnin teldi að birta mætti. Það ætti að koma í vikublöðunum. Hin eru í fárra höndum og koma seint.

Jeg mun því, í trausti til hæstv. stjórnar, greiða frv. atkv., en ekki brtt. Þær eru til engra bóta. Jeg vænti þess, að launaupphæðin fari ekki fram úr því, sem hæstv. atvrh. (MG) drap á.