16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumalaráðherra (MG):

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) skal jeg svara því, að hann misskilur alveg, hvað daglegur rekstur er, ef hann heldur, að það sje að blanda sjer í daglegan rekstur Landsbankans að skylda hann til að leggja fram fje til fulltrúans á Spáni. Hjer á þinginu hefir engin till. komið fram um að blanda sjer í daglegan rekstur bankans, enda væri það rangt.

Um umsóknir um starfið hefi jeg lýst yfir því, að því verður slegið upp, en frestur getur ekki orðið langur.

Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) skal jeg svara fáu. Hann gaf í skyn, að verið væri að binda fyrir augu þingsins, en það er hin mesta fjarstæða. Hann er að reyna að villa þinginu sýn. Það er alt og sumt. Og þegar verið er að tala um það, að ef vanti mann þarna suður eftir, þá sje um vanrækslu að ræða af stjórnarinnar hálfu, þá er það heldur ekki rjett. Það eru rúmir tveir mánuðir síðan þetta frv. var lagt fram, og það hefir verið reynt að flýta afgreiðslu þess, en hv. þm. (ÁÁ) meðal annara hefir dregið málið eftir megni. Veit hann best sjálfur um ástæður sínar fyrir því. Svo er og það, að ilt eða ómögulegt er að fá nokkurn mann, sem vilji fara án þess að hann viti, hvort starfið á að vera til frambúðar, enda er, eins og hv. þm. (ÁÁ) veit, miklu dýrara hlutfallslega að senda mann þannig heldur en til langframa. Og þegar jeg talaði um langar umr., þá átti jeg ekki aðeins við umr. um þetta mál, heldur umr. nú yfirleitt. Því að það veit jeg, að hv. þm. (ÁÁ) bæði sjer og skilur, að þegar hv. þm. tolla ekki í sætum sínum og ekki helmingur eða jafnvel þriðjungur þeirra sjest í þingsalnum, þá kemur það af því einu, að umr. eru alt of langar og málin þvæld svo, að þm. verða leiðir og leita burtu. Get jeg ekki annað en vorkent þeim það.