16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. þm. Str. (TrÞ) var að gera ráð fyrir ósamkomulagi milli mín og hæstv. atvrh. (MG) út af ákvæðum frv. þessa um þátttöku Landsbankans í launum mannsins. Notaði hann máli sínu til skýringar vísu, sem var í algeru samræmi við smekkvísi og sæmdartilfinningu hv. þm. (TrÞ). En það fór nú ekki betur en svo, að hrútarnir fóru að stangast í hans eigin höfði. Hann lýsti því sem sje yfir, að hann í „principinu“ væri sammála hæstv. atvrh., en í þessu atriði samt fylgjandi mjer, sem hann gerði ráð fyrir, að væri á gagnstæðri skoðun. Jeg veit nú ekki, hvernig hrútar geta betur stangast en hv. þm. í þessu efni stangast við sjálfan sig eftir öll sín undangengin orð. En hvað þetta mál snertir, sem hjer um ræðir, er rjett að geta þess, að jeg er um það alveg sammála hæstv. atvrh. (MG). Jeg hefi altaf í umr. um afstöðu löggjafarvaldsins til Landsbankans tekið það fram, að löggjafarvaldið ætti að löggefa um starfsemi bankans sjálfs, en aftur á móti mætti löggjafarvaldið ekki leggja á bankann byrðar, sem væru starfi hans óviðkomandi, nje þær, sem ætla mætti, að spiltu áliti hans út á við. Hjer lít jeg svo á, að verið sje að löggefa um starfsemi bankans sjálfs, enda hefir stjórn Landsbankans hvað eftir annað farið þess á leit við landsstjórnina, að sendimaður yrði látinn fara til Miðjarðarhafslandanna, og boðist til að taka þátt í kostnaðinum, sem af för hans leiddi, því hún telur það hag fyrir bankann, að svo sje gert. Hjer er því ekki um annað að ræða en það að koma meiri festu á þessa ráðstöfun, sem er í þágu bankans og bankastjórnin hefir sjálf hvað eftir annað óskað, að gerð yrði. Það eina, sem greinir á um, er það, að bankastjórnin vill ekki binda þetta eins mikið fyrir framtíðinna og gert er í frv. En þegar slíkur ágreiningur verður, er ekki um það að villast, hvor aðilinn á úr að skera. Það á löggjafarvaldið að gera. Það á að ráða, hve laust eða fast skipulag skuli vera á þessu máli, sem landsstjórn og bankastjórn telja báðar jafnnauðsynlegt. Því er það vafalaust, að það eru langar leiðir frá því, að hagur Landsbankans sje fyrir borð borinn í máli þessu. Það er stórkostlegt hagsmunamál fyrir bankana, eins og Íslandsbanki líka skilur. Og það er nauðsynlegt að koma föstu skipulagi og sniði á þetta, svo að hæfur maður fáist til að vinna það verkefni, sem hjer liggur fyrir. Hv. þm. Str. (TrÞ) getur því hvorki talað um ósamlyndi ráðherranna í þessu máli nje um ósamræmi hjá mjer, þó jeg haldi því fram, eins og allar stjórnir hafa gert, að Landsbankinn eigi að njóta verndar og stuðnings löggjafarvaldsins til þess að vinna að sínum verkefnum.