28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg get tekið undir margt, sem síðasti hv. ræðum. (BL) sagði. En þess vil jeg geta, að mjer þótti hann sveigja nógu mikið að læknastjett þessa lands í ræðu sinni, þótt hann að vísu varaði menn við því, að misskilja orð sín. Enn var annað atriði í ræðu hv. þm. (BL), sem jeg verð að mótmœla fyrir mitt leyti. Hann kvaðst fallast algerlega á stefnu þá í fjármálum, sem bæði hv. fjrh. og hv. fjvn. hafa borið hjer fram. Jeg verð að átelja þá stefnu, að ætla að láta allar framkvæmdir sitja á hakanum til þess að geta á næstu þremur árum greitt allar lausar skuldir ríkisins. Jeg tók svo eftir af ræðu hæstv. fjrh. í gær, að til mundi vera sjóður til þess arna, og þá skal jeg ekki hvetja til þess að taka lán til greiðslu á þessum lausu skuldum. Annars er það sjálfsögð leið í þessu máli að taka lán og binda skuldirnar samningi um 20–30 ára greiðslu. Hitt er ófœra, að ætla að greiða þessar skuldir af árstekjum ríkissjóðs, ef hætta verður svo við allar framkvæmdir.

Hv. þm. Ak. (BL) talaði um, að talsvert af ágóða þessa árs hlyti að fara til Flóaáveitunnar. Þetta getur vel verið. En jeg held, að ef dæma á eftir þeirri reynslu, sem fengin er af Skeiðaáveitunni, þá vœri ekki miklu slept, þó að hún yrði að þoka í svipinn fyrir öðru nauðsynlegra.

Hitt tel jeg viturlegt, að leggja varasjóðs landsverslunarinnar í þetta. Það er í samræmi við það, sem jeg hefi haldið fram, að ekki ætti að teppa fje frá nauðsynlegum framkvæmdum, eins og gert er með því að láta landið vera að burðast með landsverslunina, og taka þá líka atvinnu frá mönnum, sem þeir geta stundað eins vel eða betur. Með því að hætta að binda þannig fje sitt í óþarfafyrirtæki, getur ríkið sjeð landsmönnum fyrir líknarstofnunum og sjúkrahúsum, sem eru þjóðinni bein lífsnauðsyn. Þar sem jeg talaði um lántöku til að borga lausaskuldirnar, þá var mjer ljóst, að það var þrautalending. Vissi jeg ekki þá um neina sjóði, sem hægt væri að greiða þetta með. En þar sem svo er, þá er það auðvitað betra en að taka ný lán.

En þá menn, sem vilja borga lausaskuldirnar af tekjuafgangi næstu þriggja ára og stöðva allar framkvœmdir á meðan, vildi jeg mega spyrja einnar spurningar: Hvers vegna eru þeir að baksa við að koma upp lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, ef slík óhamingja stafar af lántökum, sem þeir virðast halda? Eða gera þeir það í þeim tilgangi að skaða bændur? Það sama gildir um þá og um ríkið og þess framkvæmdir. Bóndinn tekur lán til að rækta jörð sína, og ef til vill til þess að auka bústofn sinn, og œtlast til, að það gefi sjer arð. Ríkið byggir sjúkrahús á Norðurlandi og græðir margfalt það fje, er til þess fór. En nú man jeg það, að hæstv. fjrh. sagði, að sjúkrahúsbyggingar og önnur slík fyrirtæki væru ekki arðberandi. Það er ekki nýtt að heyra slíku haldið fram. En jeg vil segja, að ekki þarf mörg mannslíf til að borga þjóðinni 75–100 þús. kr. Kemur þar margt til greina, sem ekki verður raunar metið til peninga. Jeg á þar t. d. við sorgir aðstandenda, er þeir missa vini og ættingja, og allar þœr vonir, sem við þá eru tengdar, og á jeg þar við allan ættlegg mannsins, sem er mörgum sinnum dýrmætari en allur ríkissjóður Íslands á hverjum tíma, þó að ekki sje nema um einn mann að ræða. Nei. Það er áreiðanlega miklu gróðavœnlegra en nokkuð annað að leggja fje til þess að vernda heilsu og líf landsins barna. Líknarstofnanirnar eru miklu dýrmætari en svo, að með tölum verði talið. Sparnaðarstefnunni í þeim efnum get jeg ekki verið þektur fyrir að fylgja.

Jeg tel ekki þörf að eyða fleirum orðum að þessu, þar sem jeg veit, að margir háttv. þm. eru sömu skoðunar og jeg í þessu máli, og hv. þm. Ak. (BL) lýsti ítarlega nauðsyn þess, og eins hv. 2. þm. Reykv. (JBald) í gær. En jeg hefi ekki viljað láta hjá líða að mótmæla þeirri stefnu í fjármálum, sem jeg áðan mintist á. Það er aðeins ein stefna í fjármálum, sem á að eiga sjer stað, og hún er sú, að verja fje landsins viturlega. Þar til heyrir líka að taka lán til fyrirtækja, er bera þjóðinni arð, ef ekki er hægt að koma þeim upp með öðru móti. Sem fulltrúi þjóðarinnar hefir enginn þm. leyfi til að fylgja annari stefnu. Og það er lítið vit í að fresta þeim fyrirtækjum, sem fyr eða siðar verður að framkvæma. Það er ekki sjeð, að betur ári fyrir ríkissjóð á komandi árum.

Þá þarf jeg enn að munnhöggvast við hv. frsm. meiri hl. (ÞórJ) um nokkur atriði. Hann talaði um Vesturlandsveginn og bar vegamálastjórann fyrir því, að Dalasýsla gæti varla komið til greina á næstu 7 árum. Jeg hjelt nú sannast að segja, að við mættum vel hafa einhverjar skoðanir sjálfir og þyrftum ekki að endurtaka alt, sem vegamálastjórinn og aðrir undirmenn okkar segja. Jeg er líka þess fullviss, að miklu meira verður unnið á næstu 7 árum en hann og aðra grunar nú, jafnvel þó að þingið verði eins skipað og nú er það, að jeg ekki tali um, ef breytt yrði til batnaðar.

Hv. frsm. (ÞórJ) virtist vilja leggja á móti þessari litlu fjárhæð til eigenda mb. Svans, sem lent hafa í stórum skuldum út af rekstri á alþjóðlegu fyrirtæki, og hljóta nú jafnvel ámæli fyrir. Skal það tekið fram, að ef um sök er að ræða, þá hvílir hún ekki á þeim, sem við skuldirnar eru bundnir. Það væri því að hengja bakarann í stað smiðsins, að láta þá gjalda slíks. Hinsvegar er jeg þakklátur hæstv. atvrh. (MG) fyrir það, sem hann sagði. Þá vil jeg vona, að þó þessi fjárveiting verði feld, þá spilli það ekki fyrir því, að einhver lægri upphæð geti komið til greina við 3. umr. Hefði jeg verið fús að hverfa frá þessari till. minni, ef nefndin hefði getað orðið mjer samferða um einhverja lægri upphæð. Tel jeg sanngjarnt, að Alþingi veiti 8000 kr. og sýslan hitt.

Ýmislegt fleira væri ástæða til að minnast á. Hv. frsm. (ÞórJ) vildi gera lítið úr því gagni, sem væri að vitunum hjer við land. Því til sönnunar gat hann um gamlan danskan vita, sem oss hlotnaðist sú æra að flytja hingað, þegar hann var orðinn óhæfur til notkunar í Damnörku. Jeg veit ekki, hvað satt er í þessu, en hitt er mjer ljóst, að eigi slíkt sjer víðar stað, þá er það ómerkilegri stjórn vitamálanna að kenna, og kemur þá til kasta hæstv. stjórnar að bæta úr því ólagi og athuga, hvernig logar á þessum vitum. En líklegt þykir mjer, að eitthvað týri á þeim, því annars myndu varla verða tekin vitagjöld af erlendum skipum.

Hv. frsm. (ÞórJ), og eins hv. þm. Str. (TrÞ) í gœr, fóru inn á annað mál, allsendis að óþörfu, sem sje sendiherraembættið í Kaupmannahöfn. Hv. frsm. (ÞórJ) sagði, að ekki myndi vera mikil ástæða til að óttast, að það mál gengi fram, meðan jeg stæði einn um það. En hvernig getur nokkrum þm. dottið í hug slík fjarstæða, þar sem hjer eiga sæti á þingi 23 sjálfstæðisflokksmenn, og auk þess fleiri, er fylgja þeim að málum. Trúi jeg ekki öðru en þeir standi saman, allir sem einn maður, þegar svo stórt sjálfstæðismál sem þetta er öðrumegin. Enda væri sjerstök þjóðarhneysa, ef það væri felt. Hv. þm. Str. (TrÞ) stendur raunar betur að vígi í þessu máli en sumir aðrir, enda kvaðst hann standa við alt, sem hann hefði áður sagt í sambandi við það. Hann hefir talið embættið óþarft og vill ekkert með það hafa þess vegna, og er meira skoðanasamræmi í því en hjá þeim mönnum, er lögðu niður embættið í fyrra af eintómum sparnaðarástæðum, og höfðu um leið á orði að lagfæra það, er betur áraði. En hvers á að bíða? Það er algengt, að þegar eitt ríki sýnir öðru þá ókurteisi að kveðja heim þá sendimenn sína, sem skipa jafnhá embætti og sendimenn hins ríkisins í því ríki, þá gerir það ríkið, er fyrir þeirri ókurteisi verður, fyrirspurn um, hvernig slíka framkomu eigi að skilja. Eru menn hjer nú að bíða eftir því að fá slíkt framan í sig? Fjárhagnum kemur þetta ekki við, þar sem það er játað, að þetta væri hið mesta gróðafyrirtæki fyrir landið. Hinsvegar erum vjer ekki þeim efnum búnir, að vjer megum við því að fara á mis við miljónaágóða, sem af þessu embætti mætti hljótast. — Hv. frsm. (ÞórJ) kvað ekkert nýtt hafa komið fram í þessu máli síðan í fyrra, er raskaði skoðun þingsins á því, og er það satt. Það er frá upphafi vitað og sannað í hvívetna, hve embættið er nauðsynlegt, m. ö. o. alt, sem fram hefir komið, ósannar skoðun þingsins, því að hún er röng. Það er viðurkent um allan heim.

Það er raunar ekki undarlegt, þó að menn, sem aldrei hafa um mál þessi hugsað, hafi komist að rangri niðurstöðu í þeim. En ámælisvert er það hjá þeim mönnum, sem þráfaldlega hafa í starfi sínu rekið sig á nauðsyn þessa máls, að þeir skuli ekki hafa skýrt fyrir flokksmönnum sínum þýðingu þess. Hæstvirtri stjórn og þeim öðrum, er hjer sitja og verið hafa í ráðherraembætti, hlýtur t. d. að vera það ljóst, hve þetta embætti er áríðandi. Annars efa jeg ekki, að málið gangi fram. Hv. þm. þurfa aðeins að fá staðbetri þekkingu í þessum efnum, og þá munu þeir strax fá áhuga fyrir því, svo sem vera ber. Og það er mjer ljóst, að í framtíðinni mun ljóma yfir þeim flokkum og þeim þm., er ljá þessu máli fylgi sitt, og mun það verða þeim stuðningur í framtíðinni, en hinum til falls, er setja sig upp á móti því. Og þó að þjóðin hafi löngum verið andvaralítil um sín sjálfstæðismál, þá má nú sjá ýms merki þess, að þjóðin sje nú í svefnrofunum.

Þá vil jeg líka fela hinu háa Alþingi þetta mál og treysti því til að koma því í rjett og sjálfsagt horf.