18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg vil geta þess, að sjútvn. hefir ekki haft tækifæri til þess að bera sig saman um þær brtt., sem hjer eru nú fram komnar, og get jeg því ekki með fullri vissu sagt neitt um þær fyrir hennar hönd. Það mætti ef til vill líta svo á, að það hafi verið vangá af nefndinni að gera ekki till. í líka átt og till. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á þskj. 350, en það stafar eingöngu af því, að nefndin taldi sjálfsagt, að það yrði áskilið við manninn. Það er svo sjálfsagður hlutur, að hann gegni ekki slíkum störfum, enda kom það fram við 2. umr., er talað var um launin, að það er ekki ætlast til þess, að hann hafi neitt annað starf en þetta. Jeg fyrir mitt leyti — og jeg hygg jeg tali þar um leið fyrir hönd meiri hluta sjútvn. — geri mig vel ánægðan með yfirlýsingu hæstv. atvrh. (MG), að þetta verði sett í erindisbrjef eða skipunarbrjef fulltrúans.

Um till. hv. 1. þm. Árn. (MT) er það að segja, að jeg sje ekki ástæðu til að áskilja neitt um fortíð mannsins, hvort hann hafi haft með höndum störf fyrir útlend ríki eða ekki. Það er nærri mjer að líta svo á, að það sje fremur meðmæli með honum en hitt.