18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Sveinn Ólafsson:

Hæstv. atvrh. mæltist til þess, að jeg tæki aftur till. á þskj. 350; sagðist þó vera efni hennar samþykkur. Kvað hann efni hennar geta komist að í erindisbrjefi fulltrúans og bauð að sjá um það, að skilyrðin yrðu þar sett. Hafði hann það eitt móti till., að breyting frv. tefði málið, sem þá þyrfti að fara aftur til hv. Ed.

Fljótt á litið virðist ekki miklu skifta, hvort skilyrðin komast að í lögum eða erindisbrjefi. En dálítið meira er utan um það að taka brtt. aftur heldur en ennþá er fram komið við umr. þessa. Því a. m. k. er um leið kipt burtu annari till., sem nú liggur fyrir og er brtt, við mína till. Þetta gerir mjer erfiðara að taka till. aftur en ella.

Jeg gæti að vísu látið mjer lynda, að sama efni yrði tekið upp í erindisbrjef fulltrúans og felst í till. minni, en þó sje jeg, að styrkara er og betra að hafa ákvæðið í lögunum sjálfum. Lögin eru í allra höndum og allir eiga á því kost að kynna sjer efni þeirra, en svo er ekki um samninginn við væntanlegan fulltrúa, eða erindisbrjef hans.

Þess vegna gildir ekki alveg einu, hvort ákvæðið er tekið upp í lögin eða aðeins í erindisbrjefið.

Og enn kemur eitt til greina. Þótt jeg taki brtt. aftur, þá tel jeg alveg víst, að einhver hv. þm. muni taka hana upp, og myndi jeg þá finna mig knúðan til að greiða henni atkv., því jeg er sannfærður um, að ákvæðinu er betur komið í lögunum en erindisbrjefinu einu.

Að því er töfina snertir, sem verða mundi á afgreiðslu málsins, ef brtt. mín verður samþykt, þá fæ jeg ekki sjeð, að hún þurfi að verða lengri en til næsta mánudags eða þriðjudags, og er þá ærinn tími til stefnu.

Jeg geri mjer sem sje alls ekki í hugarlund, að háttv. Ed. muni amast við þessari breytingu, ef þessi hv. deild vill samþykkja hana.

Út frá þessum aths. verður svar mitt við tilmælum hæstv. atvrh. (MG) á þá leið, að jeg treysti mjer ekki til að taka till. aftur.