28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1926

Klemens Jónsson:

Í ræðu minni í fyrradag gekk jeg af ásettu ráði framhjá einum lið, er samgmn. vill hækka, XX. lið á þskj. 235. Nál. frá henni var þá ekki komið fram og þess vegna átti frsm. (SvÓ) eftir að tala fyrir brtt. Nú hefir hann lýst skoðun nefndarinnar í þessu efni, og vil jeg því víkja að þeirri brtt. og ýmsu fleiru í nál. hv. samgmn.

Á öndverðu þingi, þá er samgmn. tók til athugunar hvernig ætti að úthluta styrk til flóabáta, var henni það strax ljóst, að upphæðin, sem til þessara ferða var ætluð í ár og næsta ár, var alt of lág, og að vitanlegt væri, að hana yrði að hækka vegna brýnnar þarfar víðsvegar um land. Og þegar farið var að athuga strandferðir Esju, þá var það augljóst, að ekki tjáði að senda hana fulla af farþegum og farmi inn á viðsjálar hafnir, t. d. inn í Hvammsfjörð, og varð því að leita um aðrar ferðir til hafnanna þar. Við það vanst líka það, að Esja gat þá komið við á fleiri höfnum og oftar en áður hafði verið. Tók nefndin þetta til ráðs í samráði við hæstv. stjórn, að taka Esju út úr þessum ferðum, en fá í staðinn eitthvert annað skip, og var þá helst talað um annaðhvort Suðurland eða Svan, og varð það ofan á í ár, og er umsamin borgun fyrir ferðirnar kr. 14900. Að sameina Suðurlandsferðir um Faxaflóa og Breiðafjörð sýnist ekki jafnfráleitt og margur hyggur. Þess vegna hefir það verið látið í ljós í nál., að æskilegt væri, að stjórnin gæti komið á slíkri sameiningu framvegis. Nú, sje það ekki hægt, er ekkert við því að segja. Annars skal jeg taka það fram, að ferðir Suðurlands eru einhverjar hinar dýrustu ferðir hjer, en það er ekki hægt að komast að betri kostum hjá fjelaginu. Er enginn efi á því, að Suðurlandi er best borgað af öllum þeim flóabátum, sem styrktir eru af ríkissjóði, en ferðir þess hljóta líka að koma að góðu gagni.

Það hafa sjerstaklega tveir háttv. þm. kvartað yfir því, að tillag til báta í þeirra kjördæmum væri of lágt, til Hornafjarðarbátsins og Hvalfjarðarbátsins. Jeg skal fúslega viðurkenna, að þessir hv. þm. hafi rjett að mæla. Að því er snertir Hvalfjarðarbátinn, þá er ekki nema um 200–300 kr. að ræða, og jeg álít, að hæstv. samgöngumálaráðherra (MG) hafi fullkomlega á valdi sínu að bæta úr því. Jeg get lýst því yfir, að jeg álít stjórnina ekki svo rígbundna hvað snertir þessa bátastyrksupphæð, og hæstv. samgöngumálaráðherra skal vera alveg vítalaus af minni hendi, þó að hann fari eitthvað fram úr áætlun. Sama er að segja um Hornafjarðarbátinn, að jeg tel upphæðina til hans í allra besta lagi, eða jafnvel óhæfilega lága. Jeg þarf ekki að lýsa því, hvernig til hagar þar; það hefir hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) fullkomlega gert. En mjer var það ljóst í nefndinni, að hjer væri alt of lágt tiltekið. En eins og jeg hefi tekið fram, álít jeg, að hæstv. samgöngumálaráðherra hafi, ef á þarf að halda, heimild til að bæta úr þessu og fara fram úr áætlun, eftir því sem brýn nauðsyn ber til. Þetta var það, sem jeg ætlaði að minnast á út af ummælum háttv. þm.

Hvað snertir útgjöld til Árnes-, Rangárvalla- og V.-Skaftafellssýslna, þá er tiltekið í nál., að ætlast sje til að verja 19–20 þús. kr. til þeirra. Þar stendur : „Virðist sem ekki megi gera ráð fyrir minni upphæð til þessara flutninga en 19–20 þús. krónum“. Jeg bið hæstv. samgöngumálaráðherra að taka vel eftir því, að þetta er ákveðið svona dálítið rúmt. Nefndin hefir þó nefnt 19200 kr. Mætti varla gera ráð fyrir minna en 19500 kr., sem skiftist þannig, að Skaftfellingar fengi 15 þús., en 1200 kr. til Rangárbáts. Þá eru 3 þús. kr. til Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga, til þess að þeir geti fengið skip einu sinni á ári beina leið frá útlöndum til 5–6 staða á þessu svœði, og skipið gefið öll hin sömu kjör og önnur skip, sem koma beint frá útlöndum. Það hafa komist á samningar við Eimskipafjelagið um að útvega skipið á næstkomandi vori, og væntanlega verður það eftirleiðis, og skipi upp vörum á þessum stöðum með því móti að fá 3 þús. kr. fyrir þá áhættu, sem kann að leiða af því, að það verði lengur að losa en gert er ráð fyrir í farmsamningnum við skipið. Allir vita, hvernig hagar til fyrir suðurströndinni, og það er mjög hæpið, að skipið geti staðið á áætlun, þvert á móti getur því legast lengi. Hver dagur kostar 500–600 kr., og sjá þá allir, hvað einar 3 þús. kr. hafa að segja fyrir áhættuna. Eimskipafjelagið hefir samt brugðist þarna vel við. Þar við bætist um samgöngur á þessu svæði, að vjelbátur hefir annast ferðir til Vestmannaeyja og upp á Sanda, að nokkru leiti í sambandi við Skaftfelling. Til þessa hygg jeg að veittar hafi verið á yfirstandandi ári 1500 kr. Og jeg geri alls ekki ráð fyrir, að þrátt fyrir það, þó að skip komi á þessa 6 staði eina ferð, verði hægt að œtla þeim bát minna. Jeg vænti þess vegna, að hæstv. samgöngumálaráðherra taki þessar bendingar mínar til athugunar.

Hv. þm. S.-Þ. (IngB) mintist á Eyjafjarðarbátinn og talaði sjerstaklega um það, að hann áliti, að sá bátur ætti að ganga helst norður á Húsavík og vestur á Haganesvík. En það er alls ekki tilætlunin, að báturinn gangi svo langt. eins og líka styrkupphæðin sýnir. Það er ekki unt, að báturinn haldi uppi ferðum til þessara staða jafnframt því að annast ferðir um Eyjafjörð og til Grímseyjar. Jeg er heldur ekkert viss um, eins og samgöngum er háttað þar nyrðra, að Esja kemur við á flestum höfnum í hverri einustu ferð, að það sje svo mikil þörf á þessu. En ekki þar fyrir, svo framarlega sem hægt væri að fá bátinn stöku sinnum til Húsavíkur og Haganesvíkur fyrir sanngjarna borgun, tel jeg hæstv. ráðherra heimilt að láta þá upphæð af hendi.

Háttv. frsm. (ÞórJ) óskaði þess, að atkvgr. um þennan lið yrði frestað til 3. umr. Og það er rjett athugað hjá honum, að svo hefir verið undanfarið. En úr því nál. kom í tæka tíð og hv. þm. hafa kynt sjer það, þá sje jeg ekki ástæðu til að fresta atkvgr., og það því fremur sem búast má við, að fram komi einhverjar breytingar.

Jeg vil benda á það, að samgöngumálanefnd er alveg sjerstæð nefnd, algerlega hliðstæð nefnd við fjvn. í þessum efnum. Hann gat þess, hv. frsm. fjvn., að í rauninni ætti þetta málefni, samgöngumálin, að heyra undir fjvn. Þetta er nú gamalt misklíðarefni milli fjvn. og samgmn. Það er alkunnugt, að fjárlaganefndin, sem svo var kölluð í gamla daga, hafði allar fjárveitingar á hendi. En nokkru fyrir aldamótin skeði það, að nokkrir ungir og framgjarnir þingmenn vildu komast í fjárlaganefnd, en komust ekki. Hvað tóku þeir til bragðs? Þeir koma með till. um að skipa sjerstaka samgöngumálanefnd. Og þeim tókst að hamra þetta gegnum þingið. Sú nefnd átti þá eftir þeirra meiningu hvorki meira nje minna en að semja allar till. um samgöngur landsins. Fjárlaganefndinni eða fjárveitinganefndinni var ekkert um þessa nefnd gefið og leit hana hornauga. Þó er nú svo komið, að samgmn. er orðin ein af fastanefndum þingsins. Annars get jeg verið hv. frsm. sammála um það, að eiginlega er þessi nefnd hvorki fugl nje fiskur; henni er hvergi skipað neitt fast verksvið í þingsköpum og eftir þeirri praksis, sem er komin á, þá hefir hún eiginlega eingöngu C-lið 13. gr. fjárlagafrv. til meðferðar. Í raun og veru ætti hún að hafa með hönd um öll vegamál, símamál og vitamál, Annars er þetta atriði, sem ástæða er til að athuga, sem sje, að rýmka skuli valdsvið samgmn. eða þá að afnema hana með öllu. Hitt er engin meining, að hún eigi að vera til þess eins að athuga og gera till. um samgöngur fram með strönd um landsins.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), sem talaði svo vel fyrir sínum vegum, tók fram um leið, að suðurhluti Faxaflóa væri algerlega afskiftur að því er snertir bátastyrk og skipsferðir. Þetta er satt. Esja á aldrei að koma við í Keflavík eftir áætlun. Hinsvegar var það upplýst í samgmn., að Esja er reiðubúin að koma við í Keflavík hvert skifti og sjerstök ástæða er til; t. d. til þess að taka verkamenn, sem leita til Austurlandsins á vorin, og skila þeim aftur á haustin. Sje um einhvern farm að ræða, er hún reiðubúin að skreppa inn, því að eins og við vitum, er ekki um neinn verulegan krók að ræða. Að þessu athuguðu held jeg, að hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) þurfi ekki svo mjög að kvarta, en annars fór hann ekki með neinar öfgar og skýrði rjett frá.

Hv. þm. Dala. er að vísu ekki inni í hv. deild, en oft er í holti heyrandi nær, og mun hann að líkindum heyra orð mín. Hann gerði mjer þann sjerstaka heiður að skora á mig að vera með fjárveitingu til sendiherra. Hann hefir þá sjálfsagt ekki talið mig meðal þessara 23, sem hann segist vera alveg viss um að greiði till. atkv. Enda er það ekki von. Jeg skal játa, að jeg var upphaflega á móti því, að þetta embætti væri stofnað, og það var aðallega vegna þess geysimikla kostnaðar, sem það hefði í för með sjer. Hv. þm. Dala. lítur miklu smærri augum á peningana heldur en jeg geri; það skal jeg viðurkenna. Mjer þykir sú upphæð, sem hann fer fram á, mjög há, og jeg tel, að hún gæti gert mjög mikið gagn á annan hátt, t. d. ef henni væri varið til vegagerða, brúabygginga, síma o. s. frv. Það mætti talsvert mikið framkvæma á ári hverju fyrir þessa upphæð. Samt skal jeg játa það, að úr því einu sinni var leitt í lög að hafa sendiherra, þá er það satt að segja hálfleiðinlegt að geta ekki haldið áfram að hafa hann. Þó að þetta sje nú þannig, og jafnvel þó að hv. þm. Dala. (BJ) talaði eins vel og fallega og hann gerði fyrir þessu máli í gær, — því að jeg get ekki annað en gefið honum bestu „kompliment“ fyrir það, hvað vel honum sagðist, — þá hefi jeg samt sem áður ekki lofað honum að greiða atkv. með tillagi til sendiherrans. Jeg hefi heldur ekki orðið var við neina óánægju hjá okkar bræðraþjóð, Dönum, út af því, að sendiherralaust er þar nú. Ef þeim þætti mjög mikið fyrir því, að sendiherrann væri dreginn til baka, eins og hjer á landi er látið í veðri vaka, þá mundu þeir láta það í ljós á einhvern hátt. En jeg hefi aldrei orðið var við neitt slíkt. Auðvitað getur verið, að utanríkisráðherrann danski hafi sagt eitthvað við hæstv. forsrh. (JM) í þessa átt; en það veit jeg ekki. En það eina, sem mjer er kunnugt í málinu, er það, að jeg hefi ekki alls fyrir löngu lesið ritgerð, sem prófessor við háskólann í Kaupmannahöfn hefir skrifað, maður, sem kunnur er af afskiftum sínum af íslenskum málefnum. Hann ljet í ljós óánægju yfir því, hvað Danir kostuðu miklu til sendiherra hjer uppi, og sagði, að þeir ættu að taka Íslendinga til fyrirmyndar í þessu efni og komast af með minna fje til þessara mála. Þetta er það eina, sem jeg hefi heyrt úr því horni. Það virðist því óhætt að staðhæfa, að enn sem komið er hefir ekki komið fram nein veruleg óánægja hjá Dönum. Hinsvegar tek jeg það fram, að svo framarlega sem danska stjórnin ljeti í ljós óánægju yfir sendiherraleysi, þá mundi jeg ekki sjá mjer annað fært en að greiða atkv. með upphæð í þessu skyni, en sennilega binda mig við eitthvað lægri upphæð en þessa.

Að endingu vil jeg taka undir með öllum þeim, sem hafa talað um sendiherrann hjer á þingi, að hann reyndist okkur besti maður. Og jeg ímynda mjer, að það eigi ekki alllítinn þátt í því, að ýmsir hallast að skoðun hv. þm. Dala. (BJ).