28.02.1925
Efri deild: 19. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Sigurður Eggerz:

Jeg vil leyfa mjer að minna á, að þegar fjárlögin voru hjer til umræðu síðast, þá mintist jeg m. a. á meðferðina á dr. Alexander Jóhannessyni. Skaut jeg þá til hæstv. forsrh. þeirri ósk, að stjórnin leitaðist við að gera ráðstafanir til þess að leiðrjetta það ranglæti, sem sá maður hefði orðið fyrir. Með frv. þessu sýnir hæstv. stjórn, að hún hefir tekið ósk mína til greina; og þakka jeg henni hjer með fyrir það.

Það eru tvær hliðar á þessu máli. Þessi maður hefir sýnt mikinn dugnað í vísindagrein sinni. Hann hefir unnið sjer traust og álit meðkennara sinna, og þeir telja hnekki fyrir háskólann að missa hann. Þessi maður hafði fulla ástæðu til að ætla, að hann fengi að halda þessari fjárveitingu og gæti helgað vísindunum starf sitt. Í fyrsta lagi er því með frv. þessu bætt úr ranglæti. En það er ekki aðalatriðið. Með því að stofna þetta embætti er verið að lyfta undir háskólann á því sviði, sem hann helst getur vakið á sjer eftirtekt út á við. Jeg vil leyfa mjer að benda á, að þegar Sigurður Nordal fjekk launaviðbót á síðasta þingi, þá var það af því að þingið áleit, að háskólinn mætti ekki við því að missa jafnágætan mann, heldur væri nauðsynlegt, að hann hjeldi áfram starfi sínu, m. a. til þess, að erlendir menn yrðu varir við, að þessi hlið háskólans væri rækt sem best. Með stofnun þessa embættis er það treyst enn betur, að ekki verði vanrækt kensla í íslenskri tungu, og mun jeg því fylgja málinu fast. Það væri blátt áfram móðgun við heilbrigða skynsemi að halda ekki uppi kenslu í tungunni. Eða hvað á sú þjóð að gera með háskóla, sem ekki hefir ráð á að láta kenna þar sína eigin tungu? Mjer finst, að allir ættu að geta verið sammála um þetta, hvaða flokki sem þeir tilheyra.

Því verður ekki neitað, að síðasta þing lagðist á móti þessu máli, bæði í hv. Nd. og hjer. En hv. 5. landsk. (JJ) þarf ekki að furða sig á því. Jeg er þess fullviss, að ýms þau mál, sem menn úr Sjálfstæðisflokknum hafa haldið fram, eiga eftir að sigra. Þau hljóta að sigra.

Hvað halda menn t. d., að langt verði þangað til einróma krafa kemur um það, að aftur verði skipaður sendiherra í Kaupmannahöfn? Þegar við verðum þess fullkomlega varir, að Danir eru farnir að líta niður á okkur fyrir að kippa til baka. þessu embætti, þá munu menn sjá sóma sinn í að kippa þessu í lag. Og fleira mætti nefna. Sparnaðurinn á hæstarjetti t. d. er ekki orðinn mikill ennþá. Þar sitja ennþá 5 menn, og þeir munu sitja þar næsta ár og væntanlega þangað til okkar stefna sigrar og lögunum verður breytt aftur. Sú krafa verður svo sterk, að ekki munu margir þora að mæla á móti.

Jeg vil leyfa mjer að átelja háttv. 5. landsk. (JJ) fyrir það, hvernig hann talaði um háttv. þm. Dala. (BJ), að fylgi hans við stjórnina væri undir þessu máli komið. Jeg tel það mikið ranglæti gagnvart hv. þm. (BJ) að gera honum þær getsakir, að hann láti fylgi sitt við stjórnina vera komið undir þessu eina máli. Mjer finst ástæða til þess að taka þetta fram, af því að háttv. þm. Dala. er hjer ekki viðstaddur.

Skal jeg svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en mun veita frv. óbilugt fylgi mitt.