28.02.1925
Efri deild: 19. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Jónas Jónsson:

Jeg vildi mæla fáein orð út af ræðu hv. 1. landsk. (SE). Jeg skal taka fram strax, að hann hefir ekki snúist í þessu máli. Hann hefir altaf verið stuðningsmaður þessa embættis, svo að það er ekkert athugavert við hans framkomu, og það má telja hann meiri mann fyrir það, að hann snýst ekki. En samkv. þeirri röksemdaleiðslu verða þeir þá að teljast minni menn, sem snúast um sjálfa sig.

Að A. J. hafi orðið fyrir ranglæti, finst mjer dálítið slæm hugsunarfræði. Það hefir ekki verið reynt að hrekja mína sögulegu skýrslu, enda er það ekki hægt, því að hún er rjett. Það, sem verður uppi á teningnum, er þá þetta, að þingið hefir veitt manninum atvinnu í nokkur ár. Sá, sem er í þakklætisskuld, er A. J., en ekki brauðveitandinn. Það hlýtur hv. 1. landsk. að sjá. Alt málið frá byrjun sýnir ljóslega, að starfið er búið til fyrir manninn. Það er byrjað með þýsku, svo gotnesku og þá íslenskri málfræði. Svo kemur þetta vanalega. Það er talið, að landið sje orðið bundið fyrir hjálpina. Má í þessu sambandi minna á mál Árna Theódórs Pjeturssonar. Það lítur því út fyrir, að allir, sem skifta við ríkissjóðinn, fái kröfur á hendur honum. Þá sagði hv. 1. landsk. (SE) ennfremur, að undarlegt væri, að ekkert ætti að gera til þess að halda uppi kenslu í íslenskri tungu við háskólann. En jeg leyfi mjer að mótmæla þessu, því jeg veit ekki betur en þeir mætu menn dr. Sigurður Nordal og dr. Páll E. Ólason geri það. Er því með öllu óverðskuldað að gera lítið úr því starfi þeirra, þar sem líka þetta eru og mjög ágætir rithöfundar, sem á þann hátt verða líka almenningi að notum. Þá vil jeg beina því til hæstv. forsrh. (JM), hvort ekki væri hugsanleg leið, ef kenna þyrfti málfræði við háskólann fram yfir það, sem þessir tveir prófessorar geta komist yfir að kenna, að fá til þess vel hæfa menn í tímakenslu, og greiða þeim vel fyrir, t. d. 10 kr. um tímann. Er síst skortur slíkra manna hjer, sem vel væru hæfir til að taka þessa kenslu að sjer, og má þar til nefna t. d. Einar Jónsson o. fl. Ef háskólinn væri prívatstofnun, myndi hann heldur gera þetta en stofna með öllu óþarft embætti, eins og hjer er verið að fara fram á að gera.

Þá kom allmikill vígamóður í háttv. 1. landsk. (SE), þegar hann mintist á Sendiherrann. Jeg get vel skilið, að háttv. þm. brosi gleiðu brosi, ef þingið næsta ár jetur jafngreiðlega ofan í sig allar gerðir sínar í því máli í fyrra eins og háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh) virðist gera í þessu. Sendi það aftur sendiherra til Kaupmannahafnar, og jafnvel fleiri landa, er það á kostnað þeirra, sem snúast. Jeg frábið mjer slíkan heiður.

Þá var háttv. þm. hróðugur yfir því, að ekkert væri ennþá farið að sparast við breytingu þá, sem gerð var á hæstarjettarlögunum í fyrra. En eftir hinu góða samkomulagi, sem var milli mín og hæstv. forsrh. (JM) í því máli, vænti jeg, að þess verði ekki langt að bíða, að hann framkvæmi þann sparnað, er þau lög fara fram á. Og eins og háttv. 1. landsk. mun standa ósnúinn í sendiherramálinu eftir daginn í dag, eins mun jeg standa óbreyttur við hlið hæstv. forsrh. meðan hann er að koma þeim breytingum á; og það þótt nokkur ár þurfi til þess.

Þá var þessi sami háttv. þm. að taka upp fyrir háttv. þm. Dala. (BJ). En þess gerðist engin þörf, því að jeg talaði um þann háttv. þm. með hæfilegri virðingu. Og er það niðrun, þó jeg segði, að hann, til þess að koma áhugamáli sínu fram, hefði ef til vill lagt síðasta lóðið á vogarskálarnar með stjórnarstuðninginn og í staðinn fengið von um embætti þetta handa skjólstæðing sínum! Hvernig í ósköpunum er hægt að telja þetta meiðyrði? (BJ: Það er ekki venja að vera að tala í aðrar deildir). Aðrar deildir eiga að þegja hjer.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. Rang. (EP). En þar sem hann er veikur nú, mun jeg geyma til 2. umr. þessa máls sumt af því, sem jeg annars hefði drepið á. Háttv. þm. neitaði ekki, að hann hefði verið með í að fella sjálfsagt sparnaðarfrv. hjer í fyrra. En í stað þess að þiggja hjálp mína til þess að bera slíkt frv. fram nú, bauð hann fram hjálp sína til þess að svíkja ótvíræðan samning, sem þingið gerði við Sigurð Nordal í fyrra. Þetta er drengileg framkoma.

Hæstv. forsrh. (JM) vil jeg spyrja þess, hvernig það verði samrýmt, að telja það svik við dr. Alexander Jóhannesson, að þingið í fyrra veitti ekki fje til þess, að hann kendi við háskólann, þegar hans var ekki lengur þörf, en kalla það ekki svik, sem jeg sje, að hæstv. stjórn hefir látið sjer sæma í fjárlagafrv. því, er hún hefir nú lagt fyrir þingið, en það er að lækka upphæð þá, sem þingið í fyrra ákvað Sigurði Nordal, sem beinlínis var miðuð við það, að hann yrði hjer kyr og afsalaði sjer góðri stöðu, er honum var boðin erlendis. Þessu er hæstv. stjórn til með að breyta og skoðar sig ekkert siðferðilega bundna að standa við þetta loforð þingsins, þó hjer væri beinlínis um lífstíðarákvörðun að ræða fyrir prófessor Nordal.

Þá kem jeg að háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh). Jeg sá með gleði, að sú kenning, sem jeg hefi haldið fram um tilorðning þessa frv., fjekk þar góðan stuðning; því að háttv. þm. skýrði þá stefnubreyting, sem hjá honum hefir orðið í þessu máli frá því í fyrra, á þann hátt, að hann hefði vonast eftir, að ef dr. Sigurður Nordal yrði flæmdur frá háskólanum, þá myndi dr. Alexander Jóhannesson fá embætti hans. En jeg býst nú við, að á því hefði getað orðið bið, því að ennþá hefir dr. A. J. ekki gert þau afrek í bókmentasögu, að vænta hefði mátt, að honum hefði verið veitt þetta embætti, eða hann verið þess maklegur. Það sýnir sig því, að háttv. þm. Seyðf. hefir skoðað þetta „business“ frá upphafi, því ef hann hefði ekki gert það, þá hefði fjárveitingin til íslenskukenslu við háskólann verið látin standa í von um að hægt yrði að fá mann í stað Nordals. Jeg er því þakklátur þessum hv. þm. fyrir hreinskilnina, því að hann hefir látið það uppskátt, sem aðrir hafa vakað fir og vonast eftir.

Vænti jeg svo, að dagskrá mín verði samþykt.