28.02.1925
Efri deild: 19. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Jónas Jónsson:

Jeg vil, af því að jeg má aðeins tala stutt, enda á því síðasta. Ef fjvn. og fyrverandi stjórnir hafa lofað dr. Alexander einhverju, þá eru þeir menn persónulega skyldir til þess að standa við það, en ekki þingið. Ef þingið hefir ætlast til, að þetta yrði fast embætti, þá hefði það búið það til.

Hæstv. forsrh. (JM) vildi halda því fram, að engin kensla yrði í málfræði, ef dr. Alexander færi, og mælti í því sambandi orð, sem erfitt verður fyrir hann að standa við, svo sem það, að dr. Sigurður Nordal kunni ekki málfræði. Jeg hygg, að honum muni reynast erfitt að standa við slíkar niðrandi aðdróttanir. Björn M. Ólsen var líka mikilsvirtur lærdómsmaður í íslenskum fræðum, en hann kendi enga málfræði þau árin, sem hann var við háskólann, heldur eingöngu bókmentafræði. Gekk það vel og virtist ekki ástæða til að breyta um. Jeg vil líka, úr því hæstv. forsrh. (JM) fór út í þetta, benda á ritgerð eina um fegurð kvenna, sem dr. Alexander hefir látið í tímaritið Eddu, og vildi jeg gjarnan, að hann fengi umsögn lærðra málfræðinga erlendis um hana. Greinin hefir blátt áfram gert manninn hlægilegan meðal erlendra vísindamanna. Hefði jeg hlífst við að minnast á þetta, ef hæstv. forsrh. (JM) hefði ekki farið ósæmilegum orðum um miklu hæfari mann. Það er hægt að telja ekkert íslensku nema málfræði, nje engan íslenskan málfræðing annan en dr. Alexander.

Hvernig gekk það á 15., 16. og 17. öld? Þá voru engir lærðir málfræðingar, og lifðu bókmentirnar þó, enda eru þær líf og sál málsins.