28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1926

Ingólfur Bjarnarson:

Það var aðeins örstutt skýring, sem jeg vildi koma fram með. Jeg skildi háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) svo, sem það hefði verið öll fjvn. á móti X. brtt. á þskj. 235, til byggingar heilsuhælis í Eyjafirði. Jeg hefi máske misskilið háttv. frsm., en til þess að taka af öll tvímæli um mína afstöðu til þessa máls, kvaddi jeg mjer hljóðs. Þegar þessi brtt. kom til umræðu í nefndinni, ljet jeg í ljós, að jeg gæti ekki greitt atkvæði á móti henni, og þannig skildi jeg afstöðu fleiri hv. nefndarmanna, og áleit því, að nefndin hefði óbundnar hendur um það mál. Þegar um jafnmikið hjálpráð er að ræða gegn einu okkar mesta þjóðarböli, sem bygging þessa heilsuhælis er í mínum augum, og samhliða kemur fram sá áhugi og fórnfýsi fyrir framgangi málsins frá einstaklingum og heilum hjeruðum, er hv. þm. Ak. (BL) hefir skýrt svo vel og ljóst, þá finst mjer, að ríkinu beri skylda til að styrkja slíkt þjóðarvelferðarmál með ríflegum fjárframlögum, enda þótt það sje viðurkent, að spara þurfi margt vegna fjárhags ríkisins. Jeg mun því greiða þessari brtt. mitt atkvæði og mæli hið besta fram með henni. Mál þetta hefir verið skýrt svo vel, bæði af háttv. þm. Ak. og öðrum, að jeg sje ekki ástæðu til að bæta þar við, og vona enda að þess þurfi ekki við.

Þá vildi jeg aðeins segja örfá orð út af ummælum háttv. 2. þm. Kang. (KIJ), að það hefði ekki verið meining samgmn., að Eyjafjarðarbáturinn gengi til Haganesvíkur og Húsavíkur. Mín orð hnigu eingöngu að því að þakka nefndinni fyrir þá tillögu sína í nál., að Eyjafjarðarbáturinn sje látinn ganga til Flateyjar, því að það stendur berum orðum í nál. samgmn., að báturinn skuli fara ferðir milli Haganesvíkur og Flateyjar. Ljet jeg í ljós, að þetta fyrirkomulag bætti dálítið úr þeim samgönguvandræðum, sem Flateyingar eiga nú við að búa, sem nú eru ætlaðar einar 3 viðkomur Esju á þessu ári, en eins og jeg tók fram í gær, verður þá fyrst fult gagn að þessum ferðum Eyjafjarðarbátsins, ef hann verður látinn fara alla leið til Húsavíkur við og við, sem jeg vænti fastlega, að komið verði á.