27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg skal ekki vera langorð, en af því að svo stendur á, að nafn mitt stendur undir nál. meiri hl. mentmn., þykir mjer hlýða að segja örfá orð.

Vil jeg þá byrja á því að lesa upp nokkur orð úr nál. sama meiri hl. sömu nefndar um frv. til laga um breyting á lögum nr. 35, frá 3. apríl 1909, um stofnun háskóla.

Þar segir svo m. a. (með leyfi hæstv. forseta):

„Í sambandi við tillögurjett háskólans yfirleitt vill meiri hl. taka fram, að honum virðist, að það ætti að vera föst regla, að engin embætti yrðu stofnuð við háskólann nema eftir beinni kröfu frá honum.“

Nú stendur einmitt svo á hjer, að bein krafa hefir komið fram frá heimspekideildinni um, að þetta umrædda embætti verði stofnað, og því er meiri hl. mentmn. í algeru samræmi við skoðanir sínar og afstöðu til málsins í fyrra, þegar hann leggur nú til, að embættið verði stofnað.

Jeg lít svo á, að kenslan í íslensku í háskóladeildinni sje hjegómi einber, ef málfræðikennarann í íslensku vantar. Dr. Alexander hefir nú haft þessa kenslu á hendi undanfarin ár og kent 4 stundir á viku. Hefir hann hagað stundunum þannig, að hann hefir látið eina ganga til málfræðikenslu, eina til fornnorrænu og í tvær stundir hefir hann kent gotnesku og samanburðarmálfræði. Eins og drepið hefir verið á hjer í umr., hefir hann og leyst mikil ritstörf af hendi. Hann hefir samið frumnorræna málfræði, sem komið hefir út bæði á íslensku og þýsku. Eins hefir hann ritað mjög merka ritgerð um rúnaristur og fornt rím. Og nú síðast hefir hann gefið út bók, sem nefnist íslensk tunga í fornöld, og er í tveim bindum. Er hún, eftir því sem fróðir menn segja, bygð á áliti merkustu manna um þau mál, og liggur þar ærið starf til grundvallar. Hefir dr. Alexander orðið að fara yfir allar þær ritgerðir, sem birst hafa um þetta efni frá því um 1900 og þar til bókin kom út 1922–’23. Ýmsar þær ritgerðir, sem bókin byggir á, finnast ekki hjer á landi, og varð því höfundur að fara utan 1922–’23 til þess að kynna sjer þær. Ekki er það mitt meðfæri að dæma um slíkt rit, en fróðir menn í þeim greinum segja, að það sje einkar vel af hendi leyst, og víst er um það, að stúdentar fá þar gott og glögt yfirlit yfir þær bækur og ritgerðir, er um þessi mál fjalla.

Málfræði dr. Alexanders er nú notuð við kensluna í háskólanum í íslenskri tungu, en áður en hún kom út varð að nota til þess þýska bók; og var þá gott, að einhverjir skildu þýsku hjer á landi.

Hvorugur hinna kennaranna í deildinni, hvorki dr. Páll Eggert Ólason nje dr. Sigurður Nordal geta tekið nje vilja taka að sjer þá kenslu, sem dr. Alexander hefir á hendi. Mega menn gjarnan spyrja dr. Sigurð Nordal að því, hvort hann telji ekki fulla þörf á því, að þessi umræddi kenslustóll sje stofnaður. Hygg jeg, að þeir muni fá góð og greið svör.

Við umr. 1924 vorum við, sem nú erum í meiri hl. mentmn., hv. minni hl. (JJ) fyllilega samhent, þegar verið var að tryggja hina miklu og góðu starfskrafta Sigurðar Nordals háskóla vorum. En þá datt okkur ekki í hug, að viðlit væri að leggja á hann þetta kenslustarf í viðbót, við það, sem hann hefir. Jeg held, að mig minni það rjett, að þetta hafi komið til tals í nefndinni og að öllum nefndarmönnum hafi komið fyllilega saman um, að ófært væri að hlaða þessu á hann og tefja hann þannig frá vísindastarfsemi sinni.

Háttv. minni hl. (JJ) var að ræða um, að nægja myndi að hafa tímakenslu í þessari grein. En hv. 1. landsk. (SE) hefir nú hrakið það svo vel, hve ógerlegt og ófært væri að halda uppi kenslu í íslenskri tungu við háskólann með tímakenslu einni, að jeg treysti mjer ekki að bæta þar neinu við.

Hv. 1. landsk. (SE) benti ennfremur á, hve nauðsynleg kenslan í íslenskri tungu væri, þar sem það væri einmitt sú vísindagreinin, sem líklegust þætti til þess að láta hinn litla og unga háskóla vorn skara fram úr öðrum háskólum á einhverju sviði. Þegar af þessu er full ástæða til þess að leggja fram sem. mest fje og krafta til þessarar deildar, ef það gæti orðið til þess, að háskóli vor hlyti þar af hróður meðal annara mentastofnana heimsins. Þess vegna get jeg aldrei orðið til þess að leggja stein í götu þess, að íslensk tunga, saga og málfræði verði til þess að varpa ljóma yfir háskóla vorn.

Annað og meira vildi jeg ekki segja en það, sem jeg nú hefi sagt, að jeg hefi í engu breytt skoðun síðan jeg taldi það æskilegt; já, lán fyrir háskóla vorn, ef hægt væri að tengja próf. Sigurð Nordal sem fastast við hann. Vona líka, að á því verði engin breyting frá því, sem nú er. En jeg vildi og taka fram, að mentmn. þessarar hv. deildar í fyrra fanst ógerlegt að demba á hann þessari kenslu, sem hjer um ræðir. En ef svo á ekki að fara, að það verði gert, sje jeg ekki, að komist verði hjá að stofna kennarastól í þessum greinum, eins og stjfrv. það, sem hjer liggur fyrir, fer fram á.