31.03.1925
Efri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Forsætisráðherra (JM); Jeg hafði ekki ætlað mjer að tala langt mál við þessa umr.; mjer finst það vera svo ógnarlega þýðingarlítið að vera stöðugt að tyggja upp hið sama aftur og aftur. Mjer dettur ekki í hug, að hv. frsm. minni hl. (JJ) leggi svo mikið kapp á að vera á móti frv. af öðru en því, að honum sje fremur í nöp við manninn, sem gert er ráð fyrir, að fyrstur fái embættið, því að málefninu getur hann ekki haft neitt á móti. (JJ:

Jeg þekki manninn ekki neitt). Jeg skal ekki trúa því, að hv. þm. (JJ), sem oft kemur með háar kröfur um ýmislegt til mentamála, geti verið á móti þessu máli, er ekki skiftir miklu í fjármálum landsins, og skil jeg ekki í því, að það komi málinu neitt við, hvort jeg er í ósamræmi við fleiri eða færri af mínum flokksmönnum, því ef jeg álít málið rjett, hefi jeg leyfi til þess að bera það fram. Allur vaðall hv. þm. (JJ) um það, hverjir af þingflokkunum hafi staðið með eða á móti frv. — þegar hann var að telja þá upp á þinginu 1921 — er óþarfur. Jeg skal þá leyfa mjer að benda hv. þm. (JJ) á það, að á þinginu 1921 var meiri hl. Framsóknarmanna með frv., en meiri hl. Íhaldsmanna á móti því, svo að hv. þm. (JJ) er þá í fullkominni andstöðu við sína flokksmenn frá þeim tíma. (JJ: Jeg var ekki á þinginu þá). Jeg vil ekki einu sinni trúa því, að hv. þm. (JJ) skipi þeim að greiða atkv. eins og honum sýnist í svona máli. (JJ: Jeg hefi ekki sagt það). Hv. þm. (JJ) sagði: „Jeg var ekki á þingi þá.“ En jeg vildi ekki gera mínum flokksbræðrum svo mikla minkun, eins og háttv. þm. (JJ) hefir gert sínum, með slíkum dylgjum.

Háttv. 5. landsk. (JJ) talaði um frv. það, er hæstv. fjrh. (JÞ) flutti í fyrra um háskólann. Hvað stendur þá þar? Hæstv. ráðherra vill hafa kennara í íslenskri tungu við háskólann, þegar til þess er hægt að fá hæfan mann. Og nú höfum við einmitt hæfan mann.

Það þýðir ekki neitt fyrir hv. 5. landsk. (JJ) að vera að tala um það, að maður þessi hafi lagt sjerstaklega stund á þýsku og gotnesku, en ekki íslensku. Þar er einmitt grundvöllurinn fenginn til samanburðar við rannsókn íslenskrar tungu. Því að þegar dr. Alexander hafði lokið prófi í þýskunni, snýr hann sjer að íslenskri málfræði og rannsókn sögu íslenskrar tungu. Jeg er því sannfærður um, að hv. 5. landsk. (JJ) stendur einn uppi með þá skoðun, að dr. A. J. sje ekki sjerfræðingur í íslenskri málfræði og sögu íslenskrar tungu.

Þá fór þessi háttv. þm. ennþá að tala um tímakensluna. Sýnir allur hans vaðall um hana, að þekking háttv. þm. er ekkert nema á yfirborðinu, þegar hann getur ekki greint á milli tímakenslu og fastakenslu sjerfræðinga við háskólann. Jeg veit ekki til, að háskóli noti tímakenslu, eins og háttv. þm. vill. Hitt dettur mjer ekki í hug, að háskólakennara sje það minkun að hafa tímakenslu á hendi um stund í lægri skóla, en jeg verð að segja, að það er vandræði, að svo skuli þurfa að vera, því að vitanlega dregur slíkt frá eiginlegri vísindalegri starfsemi. Annars er hv. þm. eins og endranær að tala um ýmislegt annað en málið sjálft. Segir hann, að það sje merki á meistaranum að vaða úr einu í annað, en það sje heimskra manna að takmarka sig. Alt það, er hv. þm. hefir sagt nú um sjálft málið, er margbúið að segja áður og svara. Það, sem liggur bak við allan þennan vaðal, virðist helst vera það að reyna að sverta þennan merka mann, sem embættið vitanlega er ætlað í fyrstu. Sagan, sem hv. þm. var að segja, átti víst að vera einhver ný upplýsing í málinu. En hún sannaði bókstaflega ekki neitt.

Hvort dr. Alexander hafi í upphafi sóst eftir þessari stöðu, kemur málinu ekkert við; heldur hitt, og því hefir hv. 5. landsk. (JJ) ekki getað neitað, að 1920 bauðst honum annað starf, sem lá við borð að hann tæki. En þá kom fjvn. og vildi festa hann við háskólann. Það er vitanlega rjett, að þetta var ekki gert á formlegan hátt, en þessi háttv. þm. vill stundum láta halda slík loforð. Á þinginu 1921 fæ jeg nefnd til að bera fram frv., í samræmi við gerðir þingsins (þ. e. fjárveitinganefnda) 1920. Að jeg bar það ekki fram sjálfur, var einungis fyrir þá sök, að jeg vildi forðast símskeytakostnað, sem af því hefði leitt að fá samþykki konungs símleiðis. Mátti því skoða þetta sem stjfrv.

Jeg get nú ekki skilið, að neitt undarlegt hafi verið við það, þó jeg vildi festa með lögum það samkomulag, sem orðið var á milli fjvn., stjórnarinnar og dr. Alexanders. Heldur þvert á móti, að það hafi verið skylda hverrar stjórnar, til þess að maðurinn yrði ekki aðeins gabbaður.

Þá á þetta frv. að vera flutt fyrir þm. Dala., af því að hann hafi lagt mikla áherslu á málið og fylgt því fastlega. Þetta verð jeg að segja, að sje lítil sönnun. Er ekki hv. þm. Dala. (BJ) kunnur að því að hafa altaf fylgt og fylgja enn öllum þeim málum, sem miða að því að auka mentun, vísindi og listir? Kemur hann ekki altaf á hverju þingi með fleiri og færri till. um aukið fjárframlag til slíkra hluta? Er þá nokkuð sjerstakt, þó að hann fylgi þessu frv. nú? Jeg held ekki. Var það ekki hann, sem kom með till. um orðabókarstarfið ? Jú, háttv. þm. Dala. (BJ) fylgir öllum slíkum málum. Hann hefir aldrei hvikað frá þeirri stefnu sinni. Eða veit hv. 5. landsk. (JJ) nokkur dæmi þess, að hv. þm. Dala. hafi ekki altaf fylgt slíkum málum af krafti?

Jeg get ekki skilið, að það hafi verið nein dirfska af mjer að koma með þetta frv. nú. Því eins og jeg hefi þegar tekið fram, tel jeg það beinlínis skyldu mína, fyrst af því, að jeg tel embættið nauðsynlegt í sjálfu sjer, og rjett að það sje stofnað einmitt nú, eins og á stendur.

Háttv. þm. (JJ) nefndi tvær ritgerðir eftir dr. Alexander, um fegurð kvenna og um hljóðfræði. Þykir mjer hin fyrnefnda lítið koma þessu máli við; en máske hin síðartalda. Hvað dr. A. J. hefir skrifað um fegurð kvenna, kemur ekkert því við, hvort hann er fær um að kenna íslenska málfræði við háskólann eða ekki.

Annars get jeg ekkert fundið hlægilegt við það, þótt þess sje getið, að í íslenskum ljóðum sje talað um dökk og blá augu kvenna. Hv. þm. veit það, að í skáldskap annara þjóða er einatt talað um aðra liti augna kvenna, jafnvel græn. (JJ: Það er brot á kenningu dr. A. J.). Og í enskum bókum er oft talað um grá augu. Jeg finn því ekki, að neitt sje hlægilegt við það, þó talað sje um, hvað sje tíðast um þetta í íslenskum kveðskap.

Þá las hv. þm. upp það, sem dr. A. J. segir um áhrif ýmsra hreyfinga líkamans á röddina. Jeg fann heldur ekkert hlægilegt við það. Það voru setningar og kenningar þeirra manna, sem mest hafa fengist við að rannsaka mannsröddina.

Jeg verð því að álíta, að alt þetta fálm og allur þessi lestur háttv. þm. stafi einungis af mentunarleysi hans sjálfs í þessum efnum. Enda hefir öll framkoma hans sýnt, að þekking hans er ekki djúptæk. Ef dr. A. J. hefði sagt einhverja vitleysu í hljóðfræði eða málfræði, hefði þessi framkoma hv. þm. verið skiljanlegri. En nú er ekki um það að ræða hjer.

Jeg hafði helst ekki ætlað mjer að segja neitt við þessa umr. málsins, því jeg lít svo á, að þessar umr. sjeu hvorugum okkar til sóma. Að minsta kosti fyrirverð jeg mig fyrir að vera núna að svara í 9. sinn sömu fjarstæðunum og jeg svaraði við 1. umr.; fjarstæðum, sem ekkert koma málinu við, því að háttv. 5. landsk. (JJ) hefir aldrei farið inn á það svið að tala um bók dr. A. J. í málfræði. Hann hefir forðast það, og í stað þess að tala á þinglegan hátt um málið sjálft hefir hv. þm. verið með tóma útúrsnúninga, sem ekkert hafa komið málinu við. En það er býsna hart, þegar svona mál eru til umr., að ekki skuli vera hægt að fá þingmenn til að tala um málið sjálft.