31.03.1925
Efri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg get verið mjög ánægður með ræðu hæstv. forsrh. (JM), því að hann gat með engu móti hrakið þau rök, sem jeg lagði fram í málinu. Var ræða hans því ekkert annað en alment góðlátlegt spjall. Jeg get vel skilið, að hæstv. ráðherra sje ekki vel ánægður með ýmsar gerðir þessa þings og hversu það hefir tekið á stjórninni. En hverjum er þar öðrum um að kenna en hæstv. stjórn sjálfri? Hver getur kannske annar en hún sjálf gert að því, þó hún beri fram svo vitlaus frumvörp, að jafnvel hennar nánustu fylgifiskar keppast við að drepa þau? Hverjir bera ábyrgð á vali forsetanna aðrir en hún sjálf og hennar fylgifiskar? Og er það ekki henni að kenna, hversu málin koma illa undirbúin fyrir þingið? Ef málin kæmu vel undirbúin, væri alt öðru máli að gegna.

Annars get jeg verið sammála hæstv. ráðherra um, að það sje ekki gott, ef þingið stendur 4 mánuði. En það er engum öðrum um að kenna en hæstv. stjórn sjálfri, þegar hún kemur fram með frv., sem taka fleiri daga af tíma þingsins þegar við fyrstu umr., sem hún sjálf vill einu sinni ekki að gangi fram, eins og er um frv. um herinn.

Jeg leyfi mjer því að vísa aftur til föðurhúsanna þeim aðfinslum, sem hún hefir beint bæði til mín og annara, en sem hún á beinlínis sjálf.

Dæmi þess er aðstoðarlæknirinn á Ísafirði með sín 1400 brennivínsresept. Þessum manni vill hæstv. fjrh. Íhaldsins (JÞ) borga hærri laun heldur en þingið samþykti í fyrra. Er þá líklega tilgangur hans sá, að þingið borgi stóra upphæð til þessa manns framvegis vegna þeirrar lækkunar, sem á launum hans varð á þingi 1919. En ef hæstv. fjrh. (JÞ) vill hækka laun drykkjulæknis á Ísafirði, sem ljet úti nokkrar tunnur af „sprútti“ til lækninga, og ef þingið telur sjer leyfilegt að ganga inn á slíkt, þá vil jeg og samflokksmenn mínir hafa leyfi til þess að mótmæla því, að stofnað sje nýtt embætti með 7 þús. kr. launum þvert ofan í yfirlýstan vilja Alþingis. Það nægir mjer. Hæstv. forsrh. (JM) má gjarnan hælast um vanmátt okkar til þess að koma í veg fyrir þetta. Jeg öfunda hann ekkert af því. Hæstv. ráðherra (JM) var að drótta því að mjer, að jeg væri á móti frv. af persónulegu hatri. Hæstv. ráðherra hefir þó orðið að viðurkenna, að flokksmenn hans ýmsir fylgdu mínum málstað í þessu atriði í fyrra, og nú er a. m. k. háttv. 1. þm. Rang. (EP) á móti frv. Á þingmálafundum á Rangárvöllum í haust var þetta talið eitt af lakari málum. Og það er aðeins til þess að bjarga hæstv. stjórn, að fylgismenn hennar láta til leiðast nú að fylgja frv. Mjer virðist afstaða háttv. 1. þm. Rang. í þessu máli skárri en sumra flokksbræðra hans. Mjer þykir ekki óviðeigandi, að bann kemur nú um 11. stundu í víngarðinn til þess að stuðla að því með atkv. sínu, að sparnaðartill. hæstv. fjrh. (JÞ) frá í fyrra sje ekki drepin nú.

Jeg hefi ekki talað um það, að kenslan í íslenskri málfræði væri ljeleg. Það er viðurkent, að hún hafi verið sæmileg. En hún var a. m. k. jafngóð meðan Björn M. Olsen hafði hana á hendi án dr. A. J. Þessu hefir ekki verið mótmælt, hvorki af hæstv. forsrh. (JM) nje öðrum, að unt muni vera að halda þessari kenslu uppi á fremur ódýran hátt. Ef ekki þykir viðeigandi að kalla slíkt tímakenslu, af því hún stendur í sambandi við háskólann, þá má mín vegna nefna hana öðru nafni, þó jeg fyrir mitt leyti geti alls ekki álitið tímakenslu neitt svívirðilega.

Hæstv. forsrh. sagði, að jeg hefði hjer verið að lítilsvirða merkan mann. Þetta er rangt. Jeg las hjer upp fáein orð úr viðurkendum tímaritum. Annað var hið merka bókmentarit Edda. Það mun hafa gefið hæstv. forsætisráðherra (JM) hugmyndina í þessa ágætu setningu um hin grænu augun. Hitt var Skírnir, með hinum stórmerku vísindauppgötvunum Sievers um mannsröddina. Ræða hæstv. forsrh. gaf mjer fulla heimild til þess að minnast á þessi vísindi. En í hina röndina er þetta ef til vill eini árangurinn af fjárveitingu þingsins 1915, að hæstv. forsrh. (JM) hafi á þessu lært ræðumenskuna. Styrkist jeg í þeirri skoðun af hinu makalausa fylgi hæstv. forsrh. við þetta mál alt í gegn. Mun hann hafa lært þær fettur og brettur, sem lýst er í þessari fyrnefndu vísindagrein. Þá mun hæstv. forsrh. ekki neita því, að þetta er ein grein hljóðfræði, sem liggur mjög nærri því, sem þessum manni ber að kenna. Það var því alls ekki óviðeigandi, þó að jeg læsi hjer upp örfá orð, sem sýndu þessi vísindi. Jeg kippi mjer ekkert upp við það, þó hæstv. forsrh. telji mig ekki eins greindan eins og þennan mann, sem gert hefir vísindalegar uppgötvanir bæði hjer og erlendis, og sem hann sjálfur stendur í þakklætisskuld við vegna sinna frábæru ræðumannshæfileika. En hitt er rangt hjá hæstv. forsrh., er hann kallar mig vaða elg, þegar jeg vitna til orða merkra manna í ræðu minni. Ef hann veit ekki slíkt áður, þá ræð jeg honum til að lesa ræður eftir Gladstone eða Macaulay, og mun hann þá sjá, að það var siður þessara ágætu mælskumanna að krydda ræður sínar með fróðlegum dæmum. Það getur enginn neitað gildi slíkra dæma annar en sá, sem aldrei hefir kynt sjer brúklegar ræður, því síður haldið þær sjálfur. Það er beinn skortur á mentun að geta ekki brugðið slíku fyrir sig. Hæstv. forsrh. verður að játa, að jeg hefi ekki vaðið hjer neinn elg, nema hann vilji halda því fram um ræður allra góðra ræðumanna, að þær sjeu vaðall.

Hæstv. forsrh. sagði, að jeg hefði stundum talað um loforð frá þinginu í þessu sambandi, en stundum neitað því. Jeg hefi altaf tekið það fram, að jeg skoða fjárlagagr. alls ekki varanlega samþykt. En hitt veit hæstv. forsrh., að ef fjárlögin eiga að vera bindandi í þessu falli, þá eru þau það vitanlega í mörgum öðrum. Það dugir ekki frekar að „svíkja“ aðra. Jeg álít, að skoðun hæstv. forsrh., sú, að samþyktin frá 1921 sje ekki lagalega bindandi, sje rjett. En hann tekur ekki þá rjettu afleiðingu af þessu og vill nú telja samþyktina bindandi.

Þá freistaðist hæstv. forsrh. til þess að segja setningu eins og þessa: Jeg er ekki dómamálaráðherra —: jeg var ekki á þingi þá! — Hann var að drótta því að mjer, að jeg hefði snúist í málinu. Jeg spyr: Hvor hefir snúist oftar, hann eða jeg? Jeg hefi altaf verið á móti þessu máli, og jeg heyri því ekki undir flokk þeirra snúningslipru. Jeg hefi heldur ekki notið neins gagns af þeirri mentastarfsemi, sem þingið efndi til 1915.