31.03.1925
Efri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Eggert Pálsson:

Mjer virtist hv. 5. landsk. (JJ) nokkuð kampakátur yfir því, að jeg hefði greitt atkv. á móti frv. þessu við 2. umr. og gera sjer vonir um, að jeg muni nú úr þessu fara að þiggja víngarðsþjónustu hjá honum. Jeg lái hv. þm. ekki, þó hann gleddist yfir því að fá einn í viðbót við flokk sinn, því ekki mun af veita. En það er nú samt sem áður ofboð hætt við því, að gleði hans yfir mjer verði harla stopul og hann finni sig á ýmsan hátt vonsvikinn. Hvað snertir ágiskun hans um það, hvað því valdi, að jeg greiddi þannig atkv. í þessu máli sem jeg gerði, þá sannast þar hið fornkveðna: „Sá fer oft vilt, sem geta skal.“ Hv. þm. setti atkvgr. mína í samband við það, að Rangæingar væru á móti stofnun þessa umrædda embættis. Jeg get sagt hv. þm. (JJ) það, að þó svo væri, að þeir væru þessu umrædda embætti mótfallnir — sem jeg veit ekkert um, því þetta mál kom ekkert til orða á þingmálafundum í haust, eins og hv. þm. hjelt fram —, þá mundi jeg samt hafa greitt atkvæði eftir minni sannfæringu og engu öðru. Jeg hefi fyr gert það, og kjósendur mínir látið sjer vel líka, enda þótt þeir hafi haft aðra skoðun en jeg í einstökum málum. Það hefir aðeins leitt til þess, að jeg hefi fengið orð fyrir það að vera fastur fyrir í skoðunum, og vænti jeg, að svo verði áfram. Hinsvegar þótt þetta mál hafi aldrei verið borið upp á neinum þingmálafundi í Rangárvallasýslu til samþyktar, þá er það satt, að einn af frambjóðendunum við síðustu kosningar, núverandi 2. þm. Rang. (KIJ), gat þess, að hann væri á móti þessu embætti. Og mun það vera það, sem hv. 5. landsk. á við. En það sannar engan veginn, hvernig meiri hl. Rangæinga hefir litið eða kann að líta á þetta mál.

Jeg er nú vitanlega alls ekki skyldugur til að standa hv. þm. (JJ) reikningsskap á því, á hverju jeg byggi atkvgr. mína í þessu máli. Jeg get samt lýst því, þó jeg geri það alls ekki vegna hans. Jeg geri það vegna annara hv. þdm., en ekki hans. Jeg álít þingið skuldbundið til þess að sjá dr. Alexander Jóhannessyni fyrir sómasamlegum styrk til að kenna áfram við háskólann, samkvæmt gefnu loforði fjárveitingavaldsins. Þó það sje ef til vill ekki lagalega bindandi loforð, þá er það þó siðferðilega bindandi. En jeg álít það nægja, ef þingið veitir styrkinn í fjárlögum eins og verið hefir hingað til. (JJ: Hvers vegna var hv. þm. á móti því í fyrra?). Í fyrra lá málið þannig fyrir, að maður þessi virtist ekki kæra sig um að halda styrknum. Og þegar svo var komið, þá var það ekki lengur bindandi að veita honum hann. Nú æskir hann aftur á móti eftir því að fá að halda styrknum áfram, og þá álít jeg, að þingið sje skyldugt til þess að veita honum hann. Og geri þingið það, taki það nú aftur upp í fjárlög styrkinn til þessa manns, þá hefir það int af hendi sína skyldu, og frekara sýnist mjer, að ekki þurfi við. En þótt jeg telji þannig rjett, að loforð landsstjórnar og fjvn. sjeu efnd, þá er jeg á móti því að gera þessa kenslu að föstu embætti. Því var það, að jeg greiddi atkv. á móti frv. við 2. umr. Það býst jeg við að gera áfram, enda þótt jeg hafi ekki fundið í orðum háttv. 5. landsk. nein rök á móti þessu frv. Jeg get þvert á móti játað það, að allur vaðall hv. 5. landsk. (JJ) hefir sett mig í nokkurn vafa, meiri en áður, um það, hvort jeg gerði rjett í því að vera á móti frumvarpinu.