31.03.1925
Efri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skal ekki deila um það, hverjum það sje að kenna, að þingið gengur svona seint. En mjer þykir það leiðinlegt, að hv. 5. landsk. skyldi finna ástæðu til þess að brjóta þá allsherjarreglu, sem hingað til hefir þótt skylt að halda hjer í þinginu, að skýra ekki frá því, sem gerist í nefndum, og allra síst á þann hátt, sem hv. þm. (JJ) gerði nú. Hann segir, að fylgismenn stjórnarinnar í Nd. geri þetta og þetta og segi þetta og þetta á nefndarfundum. Það hefir jafnan þótt einstök ósvinna að segja frá slíku. Og svo er það ekki einu sinni satt, sem hann segir. En þó það væri satt, þá er það ósæmilegt að skýra svona frá, og þegar þm. leyfir sjer slíkt, þá tel jeg, að nokkuð langt sje gengið. Hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að jeg hefði játað, að sá samningur, sem gerður var af fjvn. 1921 og ekki hefir verið mótmælt, sje ekki löglega bindandi. Jeg sagði og segi enn, að hann sje siðferðilega bindandi og siðferðileg skylda þingsins að standa við hann. Hv. þm. (JJ) má reyna að gera eins lítið úr þessu og hann frekast getur.

Þá talaði hv. þm. (JJ) um prentun þingtíðindanna. Það skaðar mig ekki, þó hann tali um þetta, því í þessu máli hefi jeg ætíð verið í fullu samræmi við sjálfan mig. En auðvitað var það rangt hjá þm., að ekki ætti að prenta atkvgr. í þinginu.

Þá þóknaðist hv. þm. (JJ) að draga inn í umr. aðstoðarlækninn á Ísafirði. Mjer virðist heldur ósmekklegt af hv. þm. að ráðast á hann eins og hann gerði í þessu sambandi. Hann hefir gert það áður í öðru sambandi, sem var skiljanlegra, en hjer gafst engin ástæða til slíks. Jeg vil mótmæla því, að rjett sje að tala um alla heima og geima, hvaða málefni sem fyrir liggur.

Hv. þm. (JJ) kann ekki að greina málefnin hvort frá öðru. Í 10 ræðum hefir hann altaf verið að taka upp hið sama, með miklum málalengingum, og verð jeg að segja, að jeg skil ekki slíka framkomu.

Jeg hefi aldrei haldið því fram, að ekkert vit væri í kenningum Sieverts, en hitt duldist engum, að hv. þm. (JJ) reyndi að lítilsvirða þann mæta mann. En honum tókst það ekki, heldur sýndi það sig enn einu sinni greinilega, að hann veit ekki sjálfur, hvað hann fer með.

Þá var sami hv. þm. (JJ) að tala um ræðumensku mína og sagði, að jeg væri enginn ræðumaður. Jeg veit það vel, að jeg er enginn ræðumaður, en hv. þm. (JJ) er það ekki heldur. Hann er ekki neitt verri maður fyrir því, en það hefir hvorugur okkar öðrum neitt að segja í því efni. Hvorugur er ræðumaður, og ekki neitt í áttina að vera það.

Þá mintist háttv. þm. (JJ) á það, að hæstv. fjrh. hefði í fyrra verið að tala um sparnað, vegna þess að ríkið væri í fjárhagsþröng. Nú skal jeg segja honum, hvað einn af hans flokksmönnum sagði í háttv. Nd. í gær, einn helsti sparnaðarmaðurinn. Hann sagði, að það gerði ekkert til þótt fjárlögin væru samþykt með milj. króna tekjuhalla. (JJ: Áætlunin er svo lág). En sje nú ekkert athugavert við að afgreiða fjárlög með 1/2 milj. kr. tekjuhalla, hvaða vit er þá í því að vera að tala svo mikið um þessar fáu þúsundir króna, sem hjer er um að gera!

Jeg skil ekki háttv. 5. landsk. (JJ), er hann segist gleðjast af því, að hv. 1. þm. Rang. (EP), sem hann telur hinn eina rjettláta af Íhaldsflokknum hjer, bæti ráð sitt. Jeg skil ekki, hvernig hv. 5. landsk. gleðst af því, að rjettlátur bæti ráð sitt, nje hvers vegna rjettlátur þarf að bæta ráð sitt.