01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Bjarni Jónsson:

Jeg vil ekki rekja sögu málsins lengra fram en til þess, er heimspekideild háskólans skoraði einróma á kenslumálastjórnina nú í vetur að leggja fyrir þingið frv. til laga um kennara í íslenskri málfræði og að fylgja því fram til sigurs. Deildinni er full nauðsyn á þessu, því að það er langsamlega of mikið starf fyrir einn mann að kenna bæði bókmentir og sjálfa tunguna. Menn vitna þó til þess, að Björn heitinn Ólsen hafi kent hvorttveggja. En þess er að gæta, að þetta var í upphafi háskólans og að þá var engum ætlað að ganga undir fullnaðarraun í þessum fræðum. Nú er þetta á annan veg. Nú stunda allmargir þetta nám á hverju ári og ganga undir meistararaun í íslenskum fræðum. Auk þessa alls segir Sigurður mjer, að menn hafi nálega allir valið sjerfræði sína í bókmentum og málfræði, en enginn í sögu. Ef svo verður framvegis, sem líklegt er, og ef menn vilja eigi verða við þörf og bón háskólans um þetta kennarastarf, þá lendir það á stúdentunum með þeim hætti, að þeir fá aðeins eins manns kenslu í fjórum fimtungum náms síns. Hefir því Sigurður háskólakennari Jóhannesson ærinn starfa þar við kensluna. Ef hann ætti og að bæta hinum kenslustarfanum á sig, þá væri honum ætlað tveggja manna verk. Og þó meira en það. Menn halda sjálfsagt margir, að menn komi fullskapaðir vísindamenn frá prófborðinu og sjeu jafnsnjallir í öllum greinum fræði sinnar. Þessu er þó farið á alt annan veg. Margir eru þó þá komnir út á vísindabrautina í einkanámsgrein sinni eða sjergrein, og er þá vel, ef þeir geta framvegis gefið sig sem mest við henni. Í hinum öðrum greinum fræði sinnar hafa þeir auðvitað fengið næga undirstöðu til þess að byggja vísindastarfsemi, ef svo snýst. Nú er bókmentafræðin sjergrein Sigurðar og þar liggur vísindastarfsemi hans hingað til. En ef nú á að heimta af honum kenslu í málvísindum að auki, þá kostar það hann eigi aðeins kenslustundafjöldann, heldur og erfitt, tímafrekt og umfangsmikið vísindastarf. Hlyti það því að dreifa kröftum hans. — Í fyrra og í ár hefir þingið sýnt, að það metur þennan vísindamann svo mikils og starf hans í sjergrein þeirri, sem hann hefir lagt stund á, að það hefir veitt honum sjerstakt fje til ritstarfa, auðvitað um sjergrein hans. En því mundi víkja undarlega við, ef það vildi samtímis svifta hann tíma og tækifæri til þeirrar vinnu, sem það vill þó greiða honum fje fyrir. Það gerir þingið þó, ef það vill eigi setja þetta embætti á fót. Auk þessa verður kenslan ónóg, ef einn maður á að annast hana, hversu góður sem hann er, enda væri þar með lagður óyfirstíganlegur Þrándur í Götu hans á vísindabraut hans. En það var jafnan höfuðtilgangur vor í háskólamálinu, að hann yrði sá viti í íslenskum fræðum, er lýsti víða um heim. Ef vjer gerum það ekki, þá verður háskólinn dýrt kák og ekki annað, en í stað virðingar annara þjóða og vísindaauðs og þjóðargagns og gleði kemur fyrirlitning og meðaumkun annara þjóða, blygðun í hug sjálfra vor fyrir kákið, og auðnuleysi á allan hátt.

Það er því ekki að undra, þótt heimspekideildin vilji reyna að halda þessu máli í rjettu horfi og biðji um næga kenslukrafta. Það er því eigi að undra, þótt bæði sögukennarinn, Páll Eggert Ólason, og einkum Sigurður Jóhannesson Nordal leggi mikla áherslu á, að þetta mál gangi fram. — Og enginn getur annað sagt en að stjórnin hafi gert skyldu sína, er hún varð við ósk háskólans um þetta.

Það eitt sætir undrum, að mál þetta hefir mætt mótspyrnu í hv. Alþingi.

Jeg vil biðja menn að taka eftir því, að þetta frv. kveður ekkert á um það, hver eigi að fá þetta embætti. Það gegnir því hinni mestu furðu, að umr. í hv. Ed. snerust um tiltekinn mann, dr. Alexander Jóhannesson, og þó er það ennþá fáránlegra, að gersamlega hlutlaus vísindamaður verður fyrir óvingjarnlegum árásum af þingmönnum.

En úr því umræðunum hefir verið snúið svo, þá er mjer skylt að gefa hv. deild skýrslu um þennan mann, meðfram einnig af því, að jeg tel hann sjálfsagðan í þetta embætti. Jeg þekki nákvæmlega allan námsferil og vísindaferil þessa manns og get fullvissað hv. þm. um, að alt frá því er hann kom í 1. bekk lærðaskólans og fram á þennan dag hefir nám hans og vísindastarf borið vott um framúrskarandi ástundun og dugnað. Og verk þau, er hann hefir þegar samið og gefið út, bera þess ljósan vott, að hann er nú orðinn fullþroska vísindamaður af besta tægi. Hann hefir lagt einstaklega mikla alúð við málfræði, og skal nú vikið að því með nokkrum orðum. Vona jeg, að hv. deild taki mjer það ekki illa upp, því að jeg fæ sjaldan tækifæri til þess á Alþingi að minnast á mína eigin fræðigrein, sakir þess, að mjer er meinað að dansa með utan um þann gullkálf, sem nefndur er af hv. þm. grískudósent.

Þess er þá fyrst að geta, að tunga þjóðarinnar er höfuðnámsgrein í háskólum hvers einasta ríkis. Jafnframt verð jeg að geta þess, að málfræðin hefir tekið geysimiklum framförum á síðasta mannsaldri, svo að vart má þekkja, að það sje sama vísindagreinin. Nú er lögð svo mikil rækt við hljóðfræði, að jafnvel Ólafur hvítaskáld mætti vera ánægður. Og auk þess er nú blásið lifandi anda í nasir málfræðinnar, að ættir málanna eru raktar saman eftir hljóðlögmálum og sett saman frummál forfeðra allra frændþjóða þeirra, er kallaðar eru indgeirmenskar þjóðir. Og eigi síður með hinu, að lifnaðarhættir þessara þjóða og saga löngu fyrir alla söguöld eru rakin eftir sömu hljóðlögmálum. Tunga vor, íslenskan, er grein á geirmenska málastofninum, sem og gotneska, engilsaxneska, forriháþýska og fornsaxneska og fornnorræna. En frumtunga Geirmanna er systir latneskunnar, hellenskunnar, keltneskunnar, slafneskunnar og sanskrittungunnar. Því fleiri þessara tungna, sem málfræðingurinn kann, því betur er hann settur. Þá er einkum mikils vert að kunna þær tungur, sem eru nákomnastar þeirri, sem rannsaka á í hv. Ed. var það talin höfuðástæða á móti dr. Alexander, að íslenska hefði eigi verið prófgrein hans, heldur þýska. En þar sem um það er að ræða að rekja sögu íslenskrar tungu, hljóðbreytingar hennar og skyldleika við frændmál hennar, þá er þetta miklu fremur kostur en ókostur. Því að eimnitt þess vegna stendur hann betur að vígi en íslenskufrœðingar gera að jafnaði. Hann las til meistaraprófs í Danmörku gotnesku, fornháþýsku og fornsaxnesku, auk miðháþýsku og miðlágþýsku, og undir doktorspróf sitt í Halle bætti hann við sig engilsaxnesku. Til þess að skýra nauðsyn þess að þekkja þessi skyldu mál, má geta þess, að í máli voru eru um þúsund orð úr skyldum málum, og eru nokkur hundruð þeirra úr lágþýsku. Nú yrði eigi sýnt fram á, hvenær og eftir hverjum lögum þessi orð hafa verið tekin, ef málfræðingurinn þekti ekki öll þessi fornu frændmál tungu vorrar. Nú hefir Alexander meðal annars byrjað á rannsókn um uppruna íslenskra orða, og er þar á nógu verkefni að taka, því að þau íslensk orð skifta mörgum þúsundum, sem enn er ókunnugt um uppruna þeirra. Veit jeg ekki af neinum manni færari til þessa. Í hollenskum og þýskum tímaritum hefir hann birt skýringar á ýmsum orðum, t. d. ábrystir = á(a)-brydd-tir, af broddi, en brydd-tir varð brystir af hljóðsprenging milli samhljóðenda.

Hann gaf út fyrir fjórum árum frumnorræna málfræði, sem hlotið hefir góða dóma hjá sjerfræðingum víða um heim, og hefir hún þegar verið gefin út á þýsku. En höfuðverk hans er „íslensk tunga í fornöld“. Þar hefir hann nýtt og mikilsvert skipulag á samning slíkra rita. Hann hefir sett íslenskuna í samhand við forngeirmensku málin (gotnesku, engilsaxnesku, fornháþýsku og fornsaxnesku) og skýrt allar breytingar orðmynda og hljóða með samanburði við þær systurtungur, og hefir enginn gert þetta áður, þeirra er hafa ritað um íslenska tungu hingað til, annar en hann. Þessum mikla kosti bókarinnar sem kenslubókar hafa einmitt erlendir menn veitt athygli og hafa óskað, að bókin yrði gefin út á erlendum tungum, enda mun ensk útgáfa vera í undirbúningi. Höf. hefir tekist á þennan hátt að rekja hvert hljóð málsins og hverja beygingarmynd til frummáls geirmenskra þjóða, sem talað var löngu fyrir Krists burð. Þetta frummál sýnir hann hvarvetna í bókinni, en það er sem menn vita sett saman eftir samanburði hinna skyldu mála. Hefir Alexander auðgað þetta gervimál um fjölda orða með samanburði þessara fimm höfuðflokka eftir aðferðum helstu málfræðinga nútímans. Hefir hann og stuðst við alt það, er ritað hefir verið um þessi efni síðustu 20 árin, og farið yfir 300 rit um þetta efni, notað það, sem hann fann þar gott, en deilt á þá höf., er hann taldi fara með rangt mál. Hann hefir í bók þessari rakið sögu tungu vorrar um 3000 ára skeið, eða frá því 1500 f. Kr., og auk þess rakið fram til indgeirmensku, til máls frumþjóðarinnar.

Jeg mun að lokum nefna nokkur dæmi, er sýna, að Alexander er glöggur og sjálfstæður vísindamaður á sínu sviði. Höf. hefir fundið sjerstakt lögmál, er skýrir breytingar á tvíhljóðum í íslensku: Tvíhljóð missir síðari hlutann, ef áherslan var ofurljett í setningu: lauðr varð löður, t. d. sjávarlöður; Gunnlaugr varð Gunnlögur í framburði. Lögmál þetta nær yfir öll tvíhljóð: ai, ei, eu, og kemur þetta fram í endingum orða og í miðsamstöfum sagna. Alexander hefir af þessu og öðru komist að þeirri niðurstöðu, að framburðurinn á íslensku landnámsmanna hafi verið líkari nútíðarmáli en málfræðingar hafa talið; t. d. hefir au verið borið fram öu (en ekki = á), sbr. lauðr = löður. Svíi einn, Wessén að nafni, hefir nýlega sett fram það lögmál, að stutt sjerhljóð i, e verði u undan m, eða varamyndist, t. d. erumk, upprunal. er mik, varð ermk = erumk. Með þessu lögmáli skýrir Alexander þágufall fleirtölu a-stofna og þágufall eintölu lýsingarorða o. fl. Hefir hann því aukið lögmál Wesséns.

Höf. notar 4–5 þúsund orð íslenskrar tungu til þess að skýra hljóðlögmál og beygingar, og hefir hann orðtekið og safnað úr fornu máli, einkum skáldamáli, allverulegum hluta þessara orða.

Ýmsir merkir málfræðingar hafa lokið lofsorði á þessa bók, t. d. R. C. Boer, háskólastjóri í Amsterdam, George Flom í Illinois, sem telur þessa bók eina hina merkustu málfræðibók, er hann hafi sjeð um langt skeið.

Þetta veit jeg sannast og rjettast um þennan mann og verk hans, og hygg, að því verði eigi í móti mælt. Hefi viljað gefa mönnum færi á að heyra og sjá það, sakir þeirra árása, sem gerðar hafa verið á Alexander í þinginu.

Um sjálft málið, óskir og þarfir heimspekideildar, talaði jeg í upphafi ræðu minnar og vænti þess fastlega, að háttv. deild fallist á þær og samþykki frv.