28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það hefir yfirleitt fátt komið fram í þessum umræðum, sem ástæða er til fyrir mig að gera að umtalsefni. Okkur háttv. þm. Dala. (BJ) kemur ekki saman um stefnur í fjármálum, og kom mjer það ekki á óvart. Hann lítur mjög á augnabliksþarfirnar, og er það venja hans. Jeg segi þetta ekki til að ámæla háttv. þm., því að þetta er sanngjarnt og lýsir auk þess heiðarleik og hjartagæsku hv. þm. Hinsvegar er mjer gjarnara að líta lengra fram í tímann, og þegar litið er yfir hinn umliðna tíma, þá finst mjer satt að segja þess gæta lítið á efnahagnum yfirleitt, hvort þetta eða hitt hefir verið framkvæmt 2 árum fyr eða síðar. Hitt finst mjer miklu fremur vera lítandi á eftir á, hvort yfirleitt hafi verið gert nægilega mikið að nauðsynlegum framkvæmdum á umliðnum tíma. Ef maður lítur nú segjum 20 ár fram í tímann og vill athuga, hvernig þá væri umhorfs hjá okkur, ef fremur hefði verið farið eftir stefnu hv. þm. Dala. en minni, mundi maður sjá, að sýnt hefði verið áfram sí og æ í sömu skuldasúpunni, en þó jafnframt lagt út í ýmsar framkvæmdir og reynt að sinna sem allra flestum kröfum í því efni. Dæmið er auðvelt að reikna. Það mundi ekki hafa komist til framkvæmda helmingurim af till. hv. þm. Dala. á móts við það, sem mátt hefði gera, ef minni stefnu hefð verið fylgt. Þetta stafar alt af því, að samkvæmt stefnu hv. þm. Dala. verður stöðugt að greiða vexti og afborganir af eldri skuldum og nýrri lánum, og útgjöldin vegna þessara vaxtabyrða aukast þá ár frá ári, en það fje hefði annars getað gengið til framkvæmda á ýmsum sviðum ef menn hefðu losað sig við verstu skuldirnar á fáum árum, eins og jeg hefi lagt til. Jeg held því þess vegna fram, að mín stefna sje rjett, hvað sem augnabliksþörfunum líður.

Það er aðeins ein brtt. hv. þm. Dala. sem jeg ætla að ræða að þessu sinni, þ. e um fjárveitingu til sendiherraembættisins. Þetta var felt niður í fyrra af fjárhagsástæðum. Jeg er fús að viðurkenna það, eins og jeg held, að allir aðrir geri, að fullkomnasta tilhögunin á þessum málum er að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn. Jeg er og fús á að viðurkenna það, að það geta komið upp tilfelli, þar sem það hefði hagsmunalega þýðingu fyrir okkur að hafa þar sendiherra, og væri því betra að búa ekki lengi við núverandi ástand. En jeg tek það fram, að síðan í fyrra, er breytt var til í þessu efni, hefir ekkert það komið fyrir, sem hafi bakað okkur hnekki af núverandi ástandi. Þess vegna hafði jeg á móti því að taka þessa fjárveitingu upp í stjórnarfrv. til fjárlaga. Síðan stjfrv. var samið hefir ekki heldur neitt atvik komið fyrir, sem jeg fæ sjeð, að sje þess eðlis, að hagsmunum okkar væri betur borgið, þó að við hefðum sjerstakan sendiherra í Kaupmannahöfn. en með þeirri tilhögun sem nú er.

Og þó að ofurlítið sje bjartara yfir fjárhagsástæðum ríkissjóðs eftir að niðurstaða ársins 1924 var kunn, þá fæ jeg ekki sjeð, að fjárhagsleg viðreisn landsins sje svo langt á veg komin, að rjettmætt sje að gera nú þegar breytingu á því fyrirkomulagi, sem að var horfið á síðasta þingi af sparnaðarástæðum.

Þar sem þessi fjárveiting er í rauninni veitt stjórninni sjálfri til framkvæmdar stjórnarstörfunum, er ekki við því að búast, að hún geti í sjálfu sjer haft á móti því að taka við slíkri fjárnotkunarheimild, ef þingið vill veita hana. En þó að jeg sem ráðherra gæti því tekið við þessari fjárveitingu með þökkum, þá mun jeg samt ekki í þetta sinn veita þessari till. stuðning með þingmannsatkvæði mínu, af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi lýst.

Hinsvegar vona jeg, að viðreisn fjárhagsins gangi svo greiðlega, að ekki þurfi að dragast lengi, að eðlileg skipun verði upp tekin í þessu efni, sjerstaklega ef eitthvað kemur fyrir, sem sýndi nauðsyn þess að hafa sjerstakan sendiherra í Kaupmannahöfn vegna hagsmuna þjóðarheildarinnar.