23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það var svo mikil stilling og háttprýði í ræðu og allri framkomu hv. þm. Str. (TrÞ), að jeg held það hafi varla samsvarað þeim vonum, sem venjulegt er, að tilheyrendur geri sjer til góðrar skemtunar á slíkum degi sem þessum. Jeg tel mjer því skylt að haga mjer á sama hátt, til þess að gefa eigi tilefni til meiri kyndingar en háttv. þm. Str. virtist óska eftir. Af þeim málum, sem hv. þm. Str. vjek að, ætla jeg að geyma mjer Búnaðarlánadeildina þangað til síðar, en fyrst ætla jeg að víkja nokkuð að hinum. Háttv. þm. talaði um stefnu stjórnarinnar í skattamálum. Það er ekki venja í eldhúsdagsumræðum að tala um stefnumál stjórnarinnar; miklu frekar eru það athafnir hennar og allar framkvæmdir, sem vant er að tala um; en úr því háttv. þm. fór inn á þetta, skal jeg víkja að því nokkrum orðum.

Háttv. þm. sagði, að stjórnin væri í skattamálum fylgjandi nefsköttum, og nefndi til tvö dæmi, sínu máli til sönnunar. Jeg skal nú ekki segja, við hvað er átt með nefskatti nú orðið; það er orðið allvíðtækt og óákveðið. Jeg lenti nýlega í orðakasti í Ed. við flokksbróður háttv. þm. Str., háttv. 5. landsk. þm. (JJ), og var hann ófáanlegur til að láta af því, að tollar á munaðarvörum o. fl. væru nefskattar. Það hefir nú verið aðalstefna hjá okkur frá því fyrsta, að við urðum fjárhagslega sjálfráðir í okkar málefnum, að taka sem flesta tolla af munaðarvörum og öðru því líku. En nú eiga þeir líka að heita nefskattar! Háttv. þm. Str. (TrÞ) nefndi sóknargjöldin. En það var eigi stefnumál hjá stjórninni. Frv. var borið fram samkv. tillögum milliþinganefndar, sem skipuð var samkv. þál. frá síðasta þingi og kölluð hefir verið sparnaðarnefndin. Þessi nefnd fór í frv. ekki fram á neitt annað en að þessi gjöld, sem eru orðin allgömul, yrðu hækkuð í krónutali sem svaraði lækkun á kaupmætti peninganna. Þetta er ekki annað en það, sem þótt hefir nauðsynlegt á öllum sviðum fjármálanna, að færa allar tölur í nýtt horf samkv. gildi peninganna. Hitt dæmið var meira stefnumál, þ. e. sjúkratryggingarnar. En jeg tel það illa farið að slá öðrum eins slagorðum á móti slíkum málum sem þessu, að þau megi ekki koma á dagskrá, vegna þess að þau sjeu nefskattalög. Þetta getur átt við allar tryggingar, þar sem á að greiða iðgjöld. Reglan er sú, að sá, sem trygður er, greiðir, gegn því að fá ákveðin rjettindi, ákveðið gjald. Ef um tryggingarskyldu er að ræða, greiða allir sama gjald. Nú er þetta ákaflega mikilsvert mál og framtíðarmál, að koma á skyldutryggingum, t. d. sjúkratryggingum og ef til vill fleiri tegundum trygginga. Þetta er ekki neitt sjerstakt stefnumál Íhaldsflokkanna yfir höfuð; þetta er alþjóðastefnumál, og er því ekki heppilegt, ef það á að vísa öllum slíkum málum frá, vegna þess að þetta sjeu nefskattamál. Það er með þessar tryggingar eins og öll önnur viðskifti, að sá, sem trygður er, greiðir gjald, sem talið er hæfilegt endurgjald fyrir þau rjettindi, sem hann öðlast með tryggingunni. Í þessu frv. voru nokkur sjerstök ákvæði um notkun tryggingarfjárins í byrjuninni. Þetta getur eftir eðli sínu ekki verið stefnuatriði, því að þessi ákvæði eru miðuð við núverandi ástand. Það er því ekki ástæða til þess að hafa á móti því, að allir greiði venjuleg tryggingargjöld, ef það er um notkun tryggingarfjárins, sem ágreiningurinn er. Það liggur þá nær að koma með brtt. um þau ákvæði. Jeg er á þeirri skoðun, að dómar framtíðarinnar falli á þá leið, að það hafi verið þarft verk að brjóta upp á skyldutryggingum í þessu efni.

Háttv. þm. Str. deildi á stjórnina fyrir að bera fram frv. um breytingu á tekju- og eignarskattslögunum. Það á að öllu leyti betur við að ræða þetta, þegar frv. kemur aftur til umr. hjer í deildinni, en jeg vil benda háttv. þm. Str. á það, að öll þau atriði frv., sem eru stefnuatriði, hafa háttv. samflokksmenn hans í nefndinni fallist á, en hitt, sem ágreiningur er um, eru fremur tækifærisákvarðanir. (TrÞ: Það var við þær, sem jeg átti). Og jeg verð að segja, að hafi háttv. þm. Str. átt við þær, eru það laklega valin dæmi til að lýsa stefnu stjórnarinnar. Hitt er meira stefnuatriði, að vilja hlynna sem best að atvinnufyrirtækjum í landinu, til þess að þau eflist og þroskist, að vilja heldur hjálpa þeim á veg en að sparka í þau, svo að þau fari um koll, er ilt árferði gerir aðstöðu þeirra veikari eða erfiðari. Háttv. þm. Str. finnur það upp hjá sjálfum sjer, að það sje stefna og hugsjón stjórnarinnar að sjá um, að það verði aðeins fáir menn, sem verði ríkir, hinir fátækir. Jeg efast ekki um, að það er stefna háttv. þm. Str., að sem flestir verði bjargálnamenn. Lýsi hv. þm. sjálfum sjer rjett, lýsir hann stjórninni rangt. Þegar talað er um fyrirkomulag atvinnufyrirtækja í stórum stíl, verður að gæta þess, að hlutafjelagsfyrirkomulagið er hin eina leið, sem menn ennþá hafa fundið til þess að sem flestir geti orðið þátttakendur í eignarrjetti að slíkum fyrirtækjum. Með þessu er einmitt verið að hlynna að því, að sem flestir geti orðið bjargálnamenn. Það er því enginn verulegur munur á stefnu háttv. þm. (TrÞ) og stefnu stjórnarinnar í þessu efni. Hvorirtveggja óska eftir, að efnahagurinn verði sem bestur og jafnastur.

Háttv. þm. Str. var eitthvað að rifja upp 15 ára gömul ummæli mín um íhaldsflokka yfir höfuð. Jeg hefi ekki rifjað þetta upp eða farið yfir það aftur nýlega, svo að jeg man þetta ekki sem best; en hreinskilnislega skal jeg skýra háttv. þm. Str. frá því, að hafi jeg sagt eitthvað fyrir 15 árum, sem hljóðar á annan veg en framkoma mín er nú, þá fyrirverð jeg mig alls ekki fyrir að hafa skift um skoðun á svo löngum tíma, sem síðan er liðinn, og eftir þá atburði, sem orðið hafa. Að öðru leyti mun jeg ekki ræða frekar um tekjuskattslagafrv., þar sem það er móti þingvenju að ræða slík mál á eldhúsdegi.

Næsta atriðið er veiting aðstoðarmanns sýslanarinnar í Hagstofu Íslands, og liggur það á því sviði, sem rjett er að ræða nú. Viðvíkjandi því, að jeg hafi farið ógætilega að í því að auka við starfskrafta í hagstofunni, þá vil jeg aðeins rifja upp, hvernig á stóð við síðustu áramót. Þá var það svo, að nýjustu verslunarskýrslurnar, sem til voru, voru frá 1919. Jeg veit, að fleiri en jeg hafa fundið til þess, að það verður ekki nándarnærri fult gagn að starfi hagstofunnar, hvorki fyrir löggjafarvaldið eða stjórnarvöldin, ef skýrslurnar koma eigi örar út en þetta.

Þetta á við fleira en verslunarskýrslurnar einar. Stofnunin kemur alls ekki að notum, ef þessu fer fram. Nú mæla lögin svo fyrir, að forstöðumaður hagstofu Íslands skuli vera hagfræðingur, og hafi hann auk þess aðstoðarmann sjer við hlið, er hafi háskólapróf í hagfræði. Þessum ákvæðum hafði verið fullnægt. Aðstoðarmaður hafði verið skipaður þarna, sem var hagfræðingur, fyrir 7 árum síðan, en hann kom aldrei í hagstofuna til að vinna þar nokkur störf, en sinti ávalt annarlegum störfum. Jeg sá því, að ef það ætti að krefjast þess, að hagstofan gæti int þau störf af hendi, sem hún á að hafa með höndum, og sæmilega fljótt, var eigi annað að gera en að auka starfskraftana eða lengja vinnutímann, eða hvorttveggja. Nú stóð svo á, að til var hjer ungur hagfræðikandidat, sem tilleiðanlegur var að takast þessa stöðu á hendur. Jeg tjáði því þeim manni, sem veitingu hafði fyrir stöðunni, að annaðhvort yrði hann að segja henni af sjer eða taka til vinnu í hagstofunni, því að þótt þetta hefði staðið svona í full 7 ár, gæti það ekki liðist lengur. Kaus hann heldur að láta af starfanum, og varð það að góðu samkomulagi okkar í milli, að hann var leystur frá embættinu, en því slegið lausu til umsóknar. Það komu aðeins fram tvær umsóknir. Önnur frá þessum unga hagfræðingi, sem jeg nefndi, en hin frá manni, sem hafði verið settur til að gegna aðstoðarmannsstörfunum. Jeg var ekki í vafa um það, hvernig jeg ætti að veita þessa stöðu til þess að fá nýja og nýta vinnukrafta í hagstofuna; en hvað viðvíkur þeim manni, sem settur hafði verið og háttv. þm. Str. nafngreindi hjer í dag, Pjetri Zóphóníassyni, þá var honum tilkynt, að á starfi hans í hagstofunni yrði engin breyting gerð. Þessi maður hefir alla tíð haft lögmælt byrjunarlaun aðstoðarmanns, 3500 kr. með verðstuðulsuppbót, og það er svo til ætlast, að hann haldi þeim áfram. Hjer er því ekkert tilefni til þess að vera óánægður vegna þessa starfsmanns, sem líka er alls góðs maklegur. En jafnframt þessari breytingu á starfsmannaliði hagstofunnar var vinnutíminn lengdur úr 5 stundum í 6 stundir á dag. Háttv. þm. Str. gat þess rjettilega, að fram hefði komið á síðasta þingi till. um lenging starfstímans í opinberum skrifstofum. Þetta hefir verið gert, og jeg veit ekki, hvað hv. þm. (TrÞ) meinar, er hann segir, að hjer hafi gerst tíðindi, er þverbrjóti þetta „princip“. En jeg vil minna á tíðindi, sem gerst hafa hjer á þinginu, sem brjóta algerlega í bág við stefnu síðasta þings í þessu atriði. Og það verð jeg að segja, að ef lenging vinnutímans á aðeins að ná til manna í hagstofunni og skrifstofum stjórnarráðsins, þar sem stjórnarráðstöfun ein hefir komið á slíkri breytingu, og ekki víðar, þá á jeg fyrir mitt leyti bágt með að halda fram þeirri vinnutímalengingu, sem þegar hefir verið gerð. Hjer hefir nú verið felt í þessari hv. deild frv., sem fór fram á samskonar lengingu vinnutíma opinberra starfsmanna, og engu ósanngjarnari en þá, sem nú hefir gerð verið í stjórnarráðinu og hagstofunni, og í háttv. Ed. hefir annað frv. komið fram, sem gengur í líka átt, og er útlit fyrir, að það fari sömu leið. En fari svo, þá er ástæða til að segja, að gerst hafi tíðindi, sem þverbrjóti stefnu síðasta þings í þessu máli. Hitt er rjett, að bætt var við hagstofuna nýjum starfsmanni. Jeg verð nú að segja, að fyrir mjer lá málið þannig, að annaðhvort var að gera, að reyna að gera hagstofuna færa um að vinna það verk, sem henni var frá upphafi ætlað að vinna, en stöðugt hefir safnast fyrir hjá henni sökum ónógra starfskrafta, eða þá að koma með till. um að leggja hana niður þegar, beinlínis, og láta stjórnarráðsskrifstofurnar taka við verki hennar, eins og var áður en hagstofan var stofnuð. Mjer dettur ekki í hug að neita því, að þessi maður, sem er alkunnur og jeg get vel nefnt, Pjetur Zóphóníasson, sje sjerlega „meriteraður“ maður og vandgert við hann, enda hefi jeg ekki ætlað að, gera honum rangt til, og því fer fjarri, að honum hafi verið gert rangt til með þessari ráðstöfun. En ef hv. þm. Str. finnur hvöt hjá sjer til þess að tryggja starf hans betur en nú er, þá er honum hægur hjá að koma fram með frv. um breytingu á launalögunum, þess efnis, að bæta við öðrum aðstoðarmanni í hagstofuna. Enda er fullkomlega fyrirsjáanlegt, að þar þarf fleiri starfsmenn en lögin ákveða, til þess að hagstofan geti unnið sitt lögmælta starf. En í sambandi við þessa fjölgun manna í hagstofunni vil jeg minna þessa háttv. deild á það, að jeg hefi fækkað starfsmönnum í fjármálaráðuneytinu um einn, svo í raun og veru má líta svo á, að hjer hafi verið aukið við liðið þar, sem þess var brýnni þörf, en fækkað á öðrum stað, þar sem frekar mátti. En þó vil jeg ekki segja, að þessi fækkun í fjármálaráðuneytinu geti orðið til langrar frambúðar.

Þá kom háttv. þm. (TrÞ) að gengismálinu og bankavöxtum, og ákærði stjórnina fyrir festuleysi og fyrir það að hafa alt of mikið haldið í hönd með bönkunum. Síðan hlustaði jeg vandlega eftir því, hvað stjórnin hefði vanrækt að gera, og jeg verð að segja, að jeg varð ekki var við, að háttv. þm. kæmi með eitt einasta atriði, neina ef telja skyldi það, að sterlingspund hefði lækkað nokkrum mun hægara en rjett hefði verið. En út af þessu vil jeg benda háttv. þm. á það, að samkvæmt lögum frá í fyrra var sett nefnd, kölluð gengisnefnd, sem á að ákveða gengið, en stjórninni sem slíkri ber alls ekki að grípa fram í fyrir nefndinni, enda hefir hún ekki gert það. Hinsvegar er það nú viðurkent nokkurn veginn samhljóða af gengisnefndinni, eftir á, að gengi sterlingspunds hefði mátt lækka nokkru örar og fyr en varð. En það er ekki hægt að sjá alt fyrirfram. Og þá fyrst, er maður sjer alla afkomu síðasta árs, verður þetta ljóst. Nú er þetta atriði mjög bundið við verðlag afurðanna, einkum sjávarafurða. En reynsla hefir sýnt, að fiskverð er ekki hægt að sjá fyr en í júlí–ágúst og síldarverð ekki fyr en í ágúst–september. Það er því afsakanlegt, þó að hægt væri farið í það að fella pundið þangað til gera mátti með sæmilegum líkum áætlun um verð afurðanna seinni hluta ársins.

Jeg hefi lýst því í öðru sambandi, að í október síðastl. var gerð sjerstök ráðstöfun af hálfu stjórnarinnar til þess, að gengi útlends gjaldeyris gæti haldist eins og gengisnefndin vildi vera láta. Þá var gripið til þess óvenjulega úrræðis að gefa út allmikla seðlafúlgu til þess að vörur bænda yrðu ekki fyrir verðfalli sökum gengishækkunar.

Af þeim ástæðum, sem jeg nú lýsti, verður ekki um það sagt nú, hvaða stefnu eigi að taka í þessu máli, svo vandasamt sem það er og víðtækt. En benda vil jeg á það, að eins og löggjöfin er nú, þá ber gengisnefnd að gera till. til ríkisstjórnarinnar um að festa eða hækka gengi íslensks gjaldeyris, og árið sem leið var lögð áhersla á að hækka gengið. Nú hefir gengisnefnd aðeins í einu tilfelli snúið sjer til stjórnarinnar. Það var á síðastliðnu hausti, er nefndin bað hana að senda út aðvörun til sveitarstjórna og sparisjóðsstjórna um að takmarka framkvæmdir og lántökur í því sambandi. En þá tekst ekki betur til en svo, að brjef þetta verður nú árásarefni á stjórnina, þó að hún gerði ekki annað en skýlausa skyldu sína. háttv. þm. Str. nefndi brjef þetta íhaldsbrjefið og sagði, að með því hefði átt að banna bændum allar framkvæmdir. Það er ekki rjett, að brjef þetta hafi bannað mönnum framkvæmdir. En vel má kalla það íhaldsbrjef. Stjórnin gerði skyldu sína í því að senda brjefið út, og jeg er sannfærður um það, að rjett var að gefa mönnum slíka aðvörun, þó það hafi líklega víða verið óþarft, því að viðtakendur munu sjálfir hafa sjeð, að sú varfærni, sem brjefið heimtaði, var rjett og sjálfsögð.

Jeg geri ráð fyrir því, að allir sjeu sammála um það að hækka gengi ísl. kr., en um hitt munu skiftar skoðanir, hvort hana beri að hækka upp í gullverð. Jeg býst við því, að þetta þing verði, áður en það skilur, að láta í ljós, hvaða stefnu það telur æskilegasta í þessu máli. Bæði stjórnin og gengisnefnd munu æskja þess að hafa umsögn frá þinginu að styðjast við.

Háttv. þm. Str. mintist á bankavexti í sambandi við gengismálið. Jeg geri ráð fyrir því, að þessi háttv. deild hafi svo mikinn skilning á því atriði, að ekki sje þörf á að útlista það fyrir henni, að vextir verða að vera háir, ef hækka á verðgildi peninga. Skal jeg aðeins í þessu sambandi minna á það, að Englandsbanki hækkaði nýlega forvexti sína úr 4% upp í 5%, sem er stórt stökk þar í landi, og það er viðurkent, að þetta hafi eingöngu verið gert til þess að hjálpa pundinu að því marki, sem Englendingar hafa sett sjer: að koma því í gullverð. Og það er viðurkent af fjármálamönnum, að því marki verði ekki náð án forvaxtahækkunar. — Hvað snertir bankavexti í framtíðinni, þá er það að segja, að að því leyti sem þeir stjórnast af stefnu gengisins, þá er vitanlega mikið undir því komið, hvaða stefna verður tekin í því atriði. Ef það á að koma krónunni upp í gullverð, þá er óhjákvæmilegt að hafa háa vexti á meðan. Vextir okkar banka verða vitanlega mjög komnir undir því, hverjir eru vextir við þá banka í nágrannalöndunum, sem þeir hafa mest viðskifti við. Það er viðurkent, að háir vextir eru þung byrði á atvinnuvegunum. En það þýðir ekki að heimta neitt í þessu efni, sem er óeðlilegt og ástæður ekki leyfa. Það leiðir af sjer ofnotkun lánsfjár og endar í hruni, þegar mesta fjárkreppa skellur yfir. Hitt er sjálfsagt, að gert sje af hálfu hins opinbera alt, sem hægt er, til þess að venjulegir bankavextir verði sem lægstir. Og þegar háttv. þm. Str. er að átelja stjórnina í þessu máli, þá held jeg, að það stafi af því, að hann hafi ekki skilið til fulls ýmsar till. stjórnarinnar í þessa átt, er hún hefir lagt fyrir þetta þing. Skal jeg þar fyrst telja frv. um forsvaranlega skipun seðlabanka hjer á landi, en það er eitt skilyrði til þess, að hægt sje að hafa hemil á gengi pappírsgjaldeyrisins. Háttv. þm. Str. var að vitna til Dana og reynslu þeirra í þessu atriði. En jeg verð að segja það, að reynsla þeirra er ekki sjerlega glæsileg nje eftirbreytnisverð. Þó hygg jeg, að síðasta ráðstöfun þeirra, sú, að þjóðbankinn taki að sjer að halda uppi gengi seðlanna, sje skynsamleg, og líklegt, að með því hafi Danir ráðið fram úr sínum gengisvandræðum. Hjer stendur nú svo á, að ekki er til neinn þjóðbanki, sem hægt sje að gera sömu kröfur til og þjóðbanka Dana, en á því þarf að ráða bót. Þetta bið jeg hv. þm. (TrÞ) að athuga vel, þegar á að fara að taka afstöðu til frv. um Landsbankann í flokki hans. Íhaldsbrjefið var eitt af skilyrðunum til þess, að bankavextir gætu lækkað. Eitt höfuðskilyrði til þess er það, að lánsfjárnotkun sje ekki of mikil. Ef hún er óhófleg og meiri en efnaaukning landsmanna leyfir, þá þýðir það það, að ef bankarnir setja ekki upp vextina og halda í hemilinn með því að neita um lán, þá fara menn fram hjá bönkunum til þeirra manna, sem peninga eiga í bönkunum, og semja við þá um lán með hærri vöxtum. Þá er afleiðingin sú, að viðskifti, sem eðlilegt væri, að færu fram fyrir milligöngu bankanna, gerast án þeirra íhlutunar. Því verður að stuðla að því, að eftirspurn eftir lánsfje sje ekki meiri en getan til að fullnægja henni, ef menn vilja, að vextir sjeu lágir. Í þessu efni getur stjórnin ekki mikið gert. En hún hefir þó gert eitt, sem um munar og miklu varðar, ef framhald verður á, en það er að byrja á greiðslu lausaskulda ríkissjóðs, og hún leggur til, að því verði haldið áfram með nokkuð miklum hraða. Þetta er sterkur þáttur í þeirri viðleitni að stuðla að því, að fje sje fyrir hendi til þess að fullnægja eftirspurn eftir vel trygðum lánum, er verja á til skynsamlegrar notkunar. Með því er ruddur vegur til þess, að vextir geti lækkað. Hitt, að valdboðnir sjeu vextir, aðrir en ástandið útheimtir, er þýðingarlaust. Fyrst verður að skapa skilyrði fyrir því, að þeir geti lækkað, og þá fyrst er hægt að ganga eftir því, að vextir sjeu ekki hærri en þörf gerist. Þegar því hv. þm. (TrÞ) er að átelja stjórnina á þessum grundvelli, hlýtur það að stafa af því, að honum sje ekki ljóst, hversu mjög till. stjórnarinnar ganga inn á þetta svið.

Háttv. þm. spurði, hvað stjórnin hefði framkvæmt í því að lækka vexti Íslandsbanka. Hann vill gera mögulegt að verjast því, að vextir sjeu hafðir svo háir til þess að vinna upp á þeim töp. Jeg vil benda háttv. þm. á það, að vextir Íslandsbanka eru ekki hærri en vextir Landsbankans, og hann hefir sagt í ársskýrslu sinni, að ástandið gæfi ekki tilefni til þess að lækka vextina.

Þá læt jeg útrætt um þetta og kem nú að því máli, sem hv. þm. (TrÞ) nefndi fyrst: Búnaðarlánadeildinni og öllu því máli um lánsstofnun fyrir landbúnaðinn. Hann sagðist ekki hafa aðfinslur að gera við einstök atriði, heldur við svipinn á aðgerðum stjórnarinnar í þessu máli. Jeg verð nú að segja það, að hv. þm., sem líka er ritstjóri, hefir í blaði sínu málað nokkuð annan svip á afskifti stjórnarinnar af málinu en þann rjetta, og jeg trúi því vel, að honum líki ekki sá svipur, en á honum ber hann sjálfur ábyrgð, en stjórnin ekki.

Jeg skal nú minnast á einstök atriði í ræðu hv. þm. (TrÞ) þessu viðvíkjandi. Skal jeg þá minna á það, að lögin kveða svo á, að Búnaðarlánadeildin skuli taka til starfa 1. júlí 1924, og til þess að hún geti tekið til starfa, á stjórn Landsbankans að ákveða tryggingar fyrir lánunum með. reglugerð, að fengnum till. Búnaðarfjelags Íslands. Þessum tveim aðiljum var ætlað að hjálpast að því að koma deildinni á fót. Jeg álít, að mjer hafi ekki borið skylda til þess að skifta mjer af málinu, með því að ráðuneytinu er ekki ætlað neitt starf við það að koma deildinni á fót.

21. okt. síðastl. kom fyrirspurn frá Búnaðarfjelaginu um það, hvenær deildin tæki til starfa, en nokkrum dögum áður hafði Búnaðarfjelagið sent stjórn Landsbankans þær till., sem lögin gera ráð fyrir. Þessi dráttur, frá 1. júlí til 21. okt., er á engan hátt stjórninni að kenna. Ef hann er einhverjum að kenna, þá er það stjórn Búnaðarfjelagsins, sem ábyrgð á að bera fyrir það, að hún kom ekki frá sjer till. sínum fyrir þann tíma, er Búnaðarlánadeildin átti að taka til starfa. Nú hefi jeg skýrt frá því við fyrri hluta þessarar umræðu, að þegar hjer var komið, stóð svo á, að það fór svo fjarri því, að Landsbankinn hefði fje til þess að stofna Búnaðarlánadeildina, að hann gat naumast gegnt þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að kaupa erl. gjaldeyri. Til þess að geta það varð stjórn bankans að koma tvisvar með viku millibili og beiðast leyfis til útgáfu meiri seðla. Þessu hefi jeg skýrt frá áður. Þessi aukna seðlaútgáfa hófst síðari hluta júlímánaðar, og var leyfð með því skilyrði, að þeir yrðu ekki notaðir til nýrra útlána.

En þegar svona stóð á, þá gat jeg ekki skipað bankanum að stofna Búnaðarlánadeildina, gat ekki sjeð, að það hefði neina þýðingu. Jeg gat það að vísu á pappírnum, — en hverjum hefði verið gagn að því ?

Jeg leit einnig svo á, að skaðlaust væri að láta þetta standa fram yfir áramót, þangað til seðlaveltan minkaði og dregið hefði verið inn, svo að fært þætti að veita ný lán. Og þá var um leið undirbúningi þessa máls svo langt komið, að unt var að fá stjórn Landsbankans til þess að stofna þessa deild, ekki aðeins á pappírnum, eins og hv. þm. Str. (TrÞ) segir, heldur í raun og veru. (TrÞ: Hafa lán verið veitt úr deildinni!). Jeg hefi ekki kynt mjer það mál. Býst þó við því, ef lánsskjöl hafa verið í lagi. Því hefir stjórn Landsbankans lofað mjer.

Þá gerði háttv. þm. Str. að umtalsefni undirbúning stjórnarinnar undir endanleg úrslit þessa máls. Hann sagði, að þetta væri ekki annað en nýr veðdeildarflokkur. Það er að vísu rjett. En það er veðdeildarflokkur með sjerstökum ákvæðum og stofnaður í sjerstöku augnamiði. Hann sagði, að ræktunarsjóðurinn væri líka veðdeild. Og jeg hefi sagt honum það, sem mjer hefir altaf verið ljóst, og honum verður vonandi einhverntíma líka, að það er ekki hægt að fá fje til fasteignaveðlána eins og þeirra, sem hjer ræðir um, á annan hátt en með stofnun veðdeildar eða veðlánabanka, sem er eitt og hið sama. Þetta sá hann ekki í fyrra, en Búnaðarfjelagsnefndin sá það, og vænti jeg góðs af því fyrir framgang þessa máls.

Þá sagði háttv. þm. Str., að vextir væru óbærilega háir. Reykjavíkurbær hefði selt brjef með vöxtum nær 8% en 7%. Þetta er nú fyrir það fyrsta ekki satt, en ef menn biðja um lánsfje, þá verða þeir að greiða þá vexti, sem peningamarkaðurinn heimtar. Og þegar um þjóðþrifafyrirtæki er að ræða, er hugsunin sú, að reyna að sæta þeim lægstu kjörum, sem markaðurinn býður. Og það er einmitt gert í frv. stjórnarinnar, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður taki ábyrgð á öllum lánum. Jeg er sannfærður um, að með þessu fyrirkomulagi fáist lægstu vaxtakjör, sem unt er. Og svo á einnig að vera.

Þá taldi hann það engan kost, að Búnaðarlánadeildin var stofnuð rjett fyrir þing. Jeg skal segja háttv. þm. Str. það, að þegar jeg hugleiddi málið í haust, þá gat jeg ekki sjeð, að það sakaði neitt, þótt þangað til væri dregið, en ef hún væri ekki stofnuð um miðjan vetur, þá þýddi það eins árs drátt, vegna þess, að þeir, sem taka vildu til framkvæmda í vor, ættu enga vissu um lán. Þetta, að gera engan drátt, sem hindrað gæti framkvæmdir, var aðalástæðan til þess, að jeg gekk í það umfram alla lagaskyldu að fá Landsbankann til þess að lofa lánum uns Ræktunarsjóður tæki til starfa.

Þá kvað hann togarakaupin ekki hafa orðið landinu til mikilla happa. En það er engin ástæða til þess að hindra þá, sem fje eiga, að leggja það í togara. Það hafa engin lán verið veitt til slíks, nema til þess að kaupa eitt skip til þess að hjálpa fjelagi, sem er í kröggum, til þess að vinna upp tap, sem annars hefði lent á Landsbankanum.

Þá sagði háttv. þm., að mikill skoðanamunur væri milli mín og sín. En eftir því, sem hann lýsir skoðun sinni, er svo ekki. Jeg er honum sammála um, að eitt mikilsverðasta viðfangsefnið sje að koma landbúnaðinum í svipað horf og hinum atvinnuveginum. Það er gott, að hann lýsi sinni skoðun og jeg minni. Og jeg vænti þess, að báðir verði teknir jafn trúanlegir.

Hann gat þess í byrjun, að hann væri talinn einn hinn grimmasti andstæðingur stjórnarinnar. Hann veit það náttúrlega best sjálfur. En jeg verð að segja það að sú stjórn getur verið róleg á eldhúsdeginum, sem á ekki hættulegri andstæðing en þann, sem er henni mestmegnis sammála.

Hæstv. forsætisráðherra (JM) og háttv. þm. (TrÞ) eru báðir bannmenn. En það, sem hann fann hæstv. forsrh. helst til foráttu, var framkoma hans í bannmálinu. Hann hefir þó naumast gert meira í því máli en hæstv. forsrh. Hann fann hæstv. atvrh. (MG) einkum til foráttu afskifti hans af innflutningshöftunum. Hæstv. atvrh. var þó talinn haftamaður á síðasta þingi, eins og háttv. þm. Str. Þegar til mín kemur, er það einkum landbúnaðarlánamálin, sem að er fundið. En þar veit jeg ekki annað en að við sjeum sammála. Mjer finst því stjórnin geta verið róleg, ef henni ber að skoða hv. þm. sem fulltrúa hinnar grimmustu andstöðu.