28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer er satt að segja farið að ofbjóða, hversu langar umr. eru orðnar, og skal því vera stuttorður.

Út af Þelamerkurveginum beindi hv. 2. þm. Eyf. (BSt) þeirri spurningu til mín, hvort ekki væri tilætlunin að láta vinna að vegargerðinni fyrir þá upphæð, sem í frv. stendur.

Jeg skal svara þessu skýrt á þann veg, að þetta er meiningin að því er snertir allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda samkv. stjfrv. Fyrir þær verður unnið, svo framarlega sem engin atvik, sem nú eru ófyrirsjáanleg, aftra því.

Þetta vona jeg, að sje nægilegt svar.

Hv. þm. (BSt) talaði um, að æskilegt væri, að akfærir vegir næðu alt í kringum landið. Jeg er þessu alveg samþykkur. Þetta væri mjög æskilegt, en það eru vanefnin, sem valda því, hversu lengi þetta, eins og svo margt annað, verður að dragast. En smátt og smátt nálgast þetta takmark.

Vegarkaflar, smáir og stórir, hafa nú þegar verið lagðir hingað og þangað um land alt, og er meiningin, að þeir verði með tímanum tengdir saman í eina heild, sem nái kringum alt land.

Ástæðan til þess, að vegagerðin er bútuð svo niður, er sú, að reynt er að leggja þá kafla árs árlega, sem brýnust er þörf fyrir.

Jeg get verið hv. samgmn. þakklátur fyrir það, að hún hefir ekki í nál. sínu um samgöngur á sjó viljað marka stjórninni sjerstaklega þröngan bás í þeim efnum, heldur leggur að mestu leyti á mitt vald að fara með og skifta því fje, sem kann að verða veitt til samgangna á sjó. Og þó að hv. nefnd hafi gert till. um skiftingu fjárins, þá lít jeg svo á, að þær sjeu ekki bindandi fyrir mig, en mun hinsvegar telja mjer skylt að fara eftir þeim að svo miklu leyti, sem unt verður.

Vegna þess að deilt hefir verið um, hvort leigja bæri eitt skip til flutninga um Faxaflóa og Breiðafjörð, skal jeg taka það fram, að ekki er til neins að deila um slíkt, meðan ekki er til hentugra skip til þeirra ferða en nú er.

Meðan á samningum stóð við Eimskipafjelag Suðurlands lýsti stjórn fjelagsins því yfir, að vel gæti svo farið, að fjelagið yrði að segja upp samningnum á miðju ári, ef það ætti einnig að taka að sjer Breiðafjarðarferðir. En að semja við fjelag, sem svo er ástatt fyrir, er sama og enginn samningur.

Fjelagið er, sem sagt, svo illa statt, að ekkert má út af bera til þess að það verði að hætta starfsemi.

Styrkurinn, sem þetta fjelag hefir fengið til Borgarnesflutninganna, er eftir staðháttum miklu hærri en nokkur annar slíkur styrkur, vegna þess að útgerð Suðurlands ætti í raun rjettri að borga sig. En fjelagið á við svo mikla örðugleika að búa, að það þolir engin skakkaföll. Það verður að fá fyrir öllum útgerðarkostnaði og meira, þar sem það verður þó a. m. k. að greiða vexti af skuldum, sem eru mjög miklar. Ef fjelagið væri sæmilega statt, mætti sennilega fá það til að taka að sjer þessa flutninga fyrir minni þóknun.

Út af ummælum hv. þm. S.-Þ. (IngB) um Eyjafjarðarbátinn skal jeg geta þess, að jeg sje litla von til, að kleift verði að láta hann ganga til Húsavíkur, enda er þess engin nauðsyn vegna þessa kauptúns. Húsavík nýtur betri og stöðugri samgangna en flest önnur kauptún landsins. Þar kemur Esja við í hverri ferð og sömuleiðis Goðafoss og skip Bergenska fjelagsins, svo að þetta kauptún fer alls ekki varhluta af skipakomum, eftir því sem gerist hjer á landi.

Hinsvegar þykist jeg vita, að nauðsyn beri til, að bátur þessi komi við í Hrísey öðru hvoru, og skal jeg hafa það í huga, þegar samið verður um þessar Eyjafjarðarferðir, en þori þó engu að lofa, þar sem jeg veit ekki nákvæmlega um, hversu mikið viðkoma í Hrísey muni kosta aukalega.

Út af ummælum hv. 2. þm. Árn. (JörB) um Biskupstungnaveginn vil jeg benda á, að þegar hefir allmikið verið unnið að vegagerð fyrir Biskupstungurnar, þar sem lagður hefir verið vegur frá Soginu yfir Grímsnesið, og síðast en ekki síst gerð brú á Brúará.

Jeg skal viðurkenna, að áður en þessa samgöngubætur voru gerðar, áttu Tungnamenn afarörðugt með alla flutninga, en sú mikla breyting hefir orðið á þessu, að nú geta þeir notað bifreiðar til flutningi alla leið austur fyrir Brúará, og er því ekki mjög ósanngjarnt, að þeir verði að bíða 1 eða 2 ár eftir framhaldi vegarins.

Þeim var veruleg nauðsyn að fá Brúará brúaða, og man jeg eftir því, að jeg studdi þá beiðni þeirra eftir mætti á sínum tíma, því að jeg sá, hversu þeim var brúin afaráríðandi.

En hinsvegar verða bæði þeir og aðrir að líta á það með sanngirni, að við verð um að skifta því litla fje, sem við getun varið til samgöngubóta á landi árs árlega hlutfallslega milli hinna ýmsu hjeraða landsins, eftir því hvar þörfin er brýnust.

Og jeg fyrir mitt leyti get ekki rjettara gert en að fara sem mest eftir till. vegamálastjóra í þessum efnum. Bæði er það, að hann er maður, sem stendur utan við alla hreppapólitík, og þar að auki er hann þessum málum gagnkunnugastur þeirra manna, sem völ er á.

Mjer skildist hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) vera óánægður yfir því, að stjórnin hafi ekki sent hv. fjvn. til umsagnar erindi frá Kjalnesingum um vegagerð þar. (ÁF: Það hefir sennilega gleymst). Nei, það hefir alls ekki gleymst. Brjef þeirra Kjalnesinganna er dagsett 15. febr. síðastl., m. ö. o. eftir að þing kom saman, og kom það til stjórnarráðsins hinn 18. sama mán. Samdægurs var brjefið sent vegamálastjóra til umsagnar, eins og ætíð er gert við slík erindi.

Hann svaraði síðan hinn 18. þ. m., og hinn 20. sendi ráðuneytið hv. fjvn. erindið síðan til umsagnar.

Jeg veit ekki, hvernig hv. þm. (ÁF) getur heimtað greiðari afgreiðslu af hendi ráðuneytisins.

Að öðru leyti get jeg vísað til álits vegamálastjóra að því er þennan veg snertir. Álit hans um, hvar sje brýnust þörf vegabóta á árinu 1926, hefir legið fyrir hv. fjvn., og man jeg ekki til þess, að þessa vegarspotta sje þar getið sjerstaklega.

Það, sem gerst hefir nýtt í máli þessu, er ekki annað en að nú hafa Kjalnesingar boðist til að leggja fram fje til vegargerðarinnar að nokkrum hluta.

Annars vildi jeg í þessu sambandi aðeins vekja athygli hv. þm. (ÁF) á því, að atvinnumálaráðuneytið hefir afgreitt þetta mál svo fljótt sem yfirleitt er unt.