17.02.1925
Neðri deild: 9. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Tryggvi Þórhallsson:

Það er aðeins örlítil kvittun til hv. þm. V.-Sk. (JK) fyrir ummæli hans áðan í minn garð, er jeg kvartaði undan, að allshn. hefði afgreitt þetta mál seint í fyrra. Hann sagði, að nefndin hefði tekið málin fyrir og afgreitt þau í sömu röð og þau komu. Einmitt það! — Jeg hefi sótt málaskrá Nd. í fyrra og upplýsist þá þetta samkvæmt henni: Allshn. hefir fengið frv. um aðflutningsbann á áfengi 19. mars og skilað því 28. apríl, þ. e. minni hlutinn, sem hv. þm. (JK) var í. Degi síðar, eða 20. mars, fær allshn. frv. til laga um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Það afgreiðir hún 29. og 31. mars, eða tæpum mánuði áður en aðflutningsbannsfrv. Sama dag og frv. um bæjarstjórnina fær nefndin frv. um sveitarstjórnarlögin. Það afgreiðir hún 22. og 24. mars, eða rúmum mánuði áður en aðflutningsbannsfrv. 12 dögum síðar, eða 31. mars, fær nefndin enn frv. um skattfrelsi fyrir Eimskipafjelag Íslands. Því er skilað 12 dögum á undan frv. um aðflutningsbannið, eða 15 apríl. Jeg ætla ekki að taka fleira. Þetta nægir til að sýna, að hv. þm. (JK) hefir farið algerlega með rangt mál.