30.03.1925
Neðri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það hefir ekki verið venja, og verður heldur ekki gert nú, að gefa yfirlit yfir fjárhag landsins við þessa umr. um síðari hluta fjárlaganna. Þó gætu sumir jafnvel haldið, að það væri sjerstaklega ástæða til þess nú, er flokkarnir í fjvn. hafa skift á milli sín framsögu fjárlaganna; en þó að þetta væri gert, kom það alls ekki af því, að það væri nokkurt reiptog milli flokkanna í nefndinni.

Háttv. frsm. fyrri hluta fjárl. (ÞórJ) gaf nokkurt yfirlit yfir fjárhaginn og flutti ýmsar slíkar almennar athugasemdir og lýsti stefnu fjárveitinganefndar viðvíkjandi starfi hennar. Við munum flestir nefndarmanna geta tekið undir það með honum, en af hálfu okkar Framsóknarmanna í nefndinni get jeg lýst yfir því, að við vorum ekki sammála einstökum ummælum háttv. frsm. (ÞórJ), og sjerstaklega vorum við ósamþykkir samanburði hans á núverandi og fyrverandi fjármálastjórn. En annars ætla jeg ekki að fara fleiri orðum um þetta og vil alls ekki vekja neinar deilur um þessi efni, og jeg tek það fram, að yfirleitt var gott samkomulag í nefndinni.

En áður en jeg vík að till. nefndarinnar ætla jeg að gefa stutt yfirlit yfir allar brtt., sem fyrir liggja, bæði frá nefndinni sjálfri (meiri hluta hennar) og minni hlutanum og frá einstökum þingmönnum.

Alls munu vera við fjárlögin rúmlega 150 brtt., að meðtöldum öllum varatillögum. Til samanburðar má geta þess, að fyrir rúmlega hálfum mánuði síðan lágu fyrir við 3. umr. fjárlaganna í danska þinginu 551 breytingartillaga.

Þá kem jeg að yfirliti því, sem jeg ætla að gefa yfir breytingartillögur við þennan kafla fjárlaganna:

Við 14. gr.:

Þar nema hækkunartill. nefndarinnar alls kr. 61500; frá minni hl.: kr. 33933,33; frá öðrum: kr. 80500, eða allar brtt. samtals kr. 175933,33.

Við 15. gr.:

Brtt. nefndarinnar ............ alls kr. 20900,00

— minni hl. ........ — — 26600,00

— frá öðrum ..................... — — 9000,00

eða allar brtt. samtals ............ kr. 56500,00

Við 16. gr.:

Hjer eru hækkunartillögur nefndarinnar flestar og hæstar, og hærri en á hinum greinunum öllum við þennan kafla:

Brtt. frá nefndinni ....... alls kr. 103900,00

— — minni hluta ...........— — 48900,00

— — öðrum ................ — — 110300,00

eða allar brtt. samtals ...... kr. 263100,00

Við 17.–26. gr.:

Brtt. frá nefndinni ... alls kr. 23566,66

— — minni hluta ......— — 50000,00

— — öðrum............. — — 14100,00

eða allar brtt. samtals ..... kr. 87666,66

Hækkanir nefndarinnar eru því alls:

Við 14. gr ............... kr. 61500,00

— 15. — — 20900,00

— 16. — — 103900,00

— 17.–26. gr......... ..— — 23566,66

eða alls .... kr. 209866,66

Þar frá dragast lækkunartillögur nefndarinnar, sem eru 500 kr.

Aðrar lækkunartill. eru:

Við 14. gr kr. 114433,33

— ................................15 — — 35600,00

— ................................16. — — 159200,00

— ................................17.–26. gr ... — 64100,00

eða hækkunartillögur alls kr. 583199,99

Þar við bætist dýrtíðaruppbót í 18. gr. alls kr. 13800,00.

Verða því hækkunartill. allar á þessum kafla samtals kr. 596999,99, eða um 600 þús. kr., og er þó þar ótalin eftirgjöf á láni til sýslumannsins í Borgarnesi.

Það verður þá af þessu augljóst, að hækkunartillögur nefndarinnar eru ekki nema þriðjungur af því, sem alls er lagt til, að hækkaðar verði áætlanir frv. Vafalaust má telja, að þær brtt., sem nefndin ber fram, sjeu hinar sjálfsögðustu og sem brýnust nauðsyn er að verða við. Hitt veit jeg, að flestar hinar brtt. eru líka rjettmætar og margar þeirra allnauðsynlegar. Þær hafa allar komið fyrir nefndina, ásamt skjölum og upplýsingum, sem þeim fylgdu, en nefndin hefir orðið að hafna þeim. Þetta yfirlit, sem jeg nú hefi gefið, er aðeins dálítil mynd af starfi nefndarinnar; en um aðrar till. en nefndarinnar mun jeg ekki ræða fyrst um sinn, fyr en háttv. flutningsmenn þeirra hafa talað fyrir þeim, en þó get jeg þegar tekið það fram, að langflestum þeirra leggur nefndin á móti.

Jeg skal ekki hafa þessi orð lengri, en snúa mjer að brtt. við þennan kafla, sem byrjar á 14. gr. Við þá grein er fyrst sú brtt. að lækka ritfje biskups úr 2000 kr. niður í 1500 kr. Sú till. er borin upp samræmis vegna, af því að lagt var til að lækka ritfje landlæknis á sama hátt. En þar sem sú till. er fallin, tekur nefndin þessa till. aftur.

Næsta brtt. er einnig við 14. gr., um húsabætur á prestssetrum. Segir í nál., til hverra staða þessi upphæð eigi að ganga og hve mikið á stað. Voru lögð fyrir fjvn. mjög skýr gögn um þá staði alla saman, og einnig rökstudd ummæli biskups. Nú álítum við þurfa að hækka þennan styrk vegna þriggja staða. Fyrst er að nefna Stað í Steingrímsfirði. Þar er fyrirsjáanlegt, að söfnuðurinn fær ekki prest nema húsakynni verði bætt að miklum mun á prestssetrinu. Lagðar voru fyrir nefndina mjög eindregnar áskoranir um, að lán fengist til að þetta yrði gert. — Þá er Mosfell í Grímsnesi. Þar er búið að reisa bæjarhús, og var það gert í samráði við kirkjustjórnina og húsameistara ríkisins. Biskup hefir mælt með hækkuðu láni, og nefndin sá sjer heldur ekki annað fært en leggja með því. — Þriðji staðurinn er Skútustaðir. Þar á að reisa hús, og hefir komið fram mjög eindregin áskorun frá sóknarmönnum um lán; einnig vilja þeir sjálfir leggja fje fram. Um þann stað er það að segja, að þangað sækja fleiri útlendingar en til nokkurs annars staðar á Norðurlandi, og væri sómi fyrir landið að hafa þar vel húsað. Um þennan lið stendur nefndin á einu máli, að samþykkja hann eins og hann er fram borinn.

Jeg þarf ekki að taka það fram, að í þessu efni er ekki um styrk að ræða, heldur lán, auðvitað með sjerstaklega góðum kjörum. En peningarnir renna á sínum tíma aftur í ríkissjóðinn. Jeg get bætt því við í þessu sambandi, að það lá beiðni fyrir fjvn. — sem var synjað — frá prestinum á Torfastöðum í Biskupstunguin, þar sem hann fór fram á, að keypt yrðu hús á staðnum, sem eru hans eign. Var beiðninni vísað til biskups til umsagnar, en hann lagði til að vísa henni frá, vegna ófullnægjandi upplýsinga; er slíkum málum ráðið til lykta af kirkjustjórninni sjálfri, og má kannske fá fje til þessa úr kirkjujarðasjóði.

Þá er nýr liður: styrkur til húsagerðar á Skútustöðum, gegn jafnri upphæð frá sóknarmönnum fimm þúsund krónur. Hjer er ekki um lán að ræða, heldur beinan styrk. Á Skútustöðum stendur alveg sjerstaklega á. Sóknarmenn þar sækja það ákaflega fast að fá sinn gamla prest aftur, sem sótti frá þeim og er nú í Laufási. Þeir sækja þetta svo fast, að auk þess sem þeir vilja fá lán, vilja þeir leggja fram fje frá sjálfum sjer, gegn helmingi úr ríkissjóði, til þess að alt geti orðið sem myndarlegast. Jeg vil ekki leyna því, að það hefir og komið fram annað í þessu máli. Það kom símskeyti frá Laufásprestakalli, þar sem þessu er mótmælt. Þeir vilji hafa sinn prest áfram. Svo mikill er reipdráttur um þennan prest. Vitanlega dettur fjvn. ekki í hug að taka afstöðu í þessu ágreiningsefni, enda eru skiftar skoðanir innan hennar um það. En nefndin leit svo á, að ef fram komi hjá sóknarmönnum í einu prestakalli viðleitni til þess að gera prestssetrið sem myndarlegast með því að leggja fram fje úr eigin vasa, þá eigi ríkið að koma á móti slíkri framrjettri hönd. Því hvað sem þessu kappi um prestinn líður, þá vildi meiri hl. nefndarinnar aðhyllast þá stefnu, að ríkið mætti þeim á miðri leið, sem eitthvað vildu á sig leggja til að húsa vel prestssetrin.

Áður en jeg skilst við þessa liði um aukinn styrk til þess að reisa við þessa staði, langar mig til að taka framhjá nefndinni í það eina skifti í minni framsögu. Jeg ætla að leyfa mjer að segja nokkur orð frá eigin brjósti, og það tek jeg skýrt fram, að það, sem jeg nú segi, er ekki frá nefndarinnar hálfu. Meira að segja er mjer kunnugt um, að sumir nefndarmenn eru skoðun minni mjög andstæðir. Það, sem valdið hefir því, að jeg hefi talið sjálfsagt, að ríkið styddi að viðreisn prestssetra úti um landið, er það, að jeg tel ríkið hafa alveg ótvíræða skyldu að rækja gagnvart kirkjunni í þessu efni. Jeg hefi í mínum tómstundum mörg undanfarin ár lagt stund á að kynna mjer okkar fornu sögu, og þá sjerstaklega kirkjusögu. Jeg er kominn að þeirri niðurstöðu, að sú skoðun, að kirkjan hafi aflað sjer hinna miklu eigna, sem hún átti yfir að ráða í gamla daga, með yfirgangi og rangindum, er algerlega röng. Það má finna þúsund sannanir fyrir því. Það er enginn vafi á, að kirkjan hefir fengið sínar miklu eignir yfirleitt fullkomlega á löglegan hátt. Þetta hefir dr. Páll E. Ólason sýnt fram á og að íslenska þjóðin hafi verið sjerstaklega gjafmild við þessa stofnun. Þetta verður ómótmælanlega sannað, þegar verður til fulls unnið úr þeim skjölum, sem til eru viðvíkjandi þessu efni. Eitt af því, sem sjá má af þeim skjölum, það er sá mikli auður, sem fólkið gaf til kirkjunnar; hann er miklu meiri en menn gera sjer í hugarlund. Það er enginn vafi á, að gripaeignin ein nemur miljónum kr. og jarðeignir tugum miljóna. Kirkjan átti t. d. meira en aðrahvora jörð á Norðurlandi. Þessar eignir allar gaf íslenska þjóðin til kristnihalds í landinu. Þessar eignir hjer um bil allar tók svo ríkið undir sig. Við því er auðvitað ekkert að segja í sjálfu sjer, og jeg ætlaði vitanlega ekki að fara langt út í þetta, en segja það hiklaust frá mínum bæjardyrum, að þar sem ríkið hefir tekið þessa tugi miljóna króna af kirkjunni og farið með alla tíð síðan, þá skoða jeg kirkjuna eiga svo miklar kröfur á hendur ríkinu, að ekki verði staðið á móti að fullnægja þeim kröfum, sem kirkjan kann að bera fram. Vil jeg sjerstaka áherslu leggja á það, að þar sem um er að ræða að reisa við gömul prestssetur, sem hafa verið menningarsetur hjá þjóðinni í margar aldir, þá er það tvímælalaus skylda ríkisins að bregðast vel við.

Næsti liður við 14. gr. er um viðbótarstyrk til háskólans, þar sem nefndin leggur til, að tekinn sje upp sjerstakur húsaleigustyrkur til stúdenta. Hæstv. fjrh. (JÞ) benti nefndinni á þetta, og það er í samráði við hann, sem liðurinn er tekinn upp. Annars skal jeg ekki fjölyrða um þetta, því að það er annað mál, sem blandast hjer inn í, og það er stúdentagarðsmálið, sem verður rætt seinna. Um aðra skóla hefir nefndin fáar till. Um kvennaskólana er það að segja, að það var ekki sjerstök ástæða fyrir nefndina að hreyfa við þeim, því að þeir eru til umræðu í hv. Ed. vegna sjerstaks frv. um þá. Annars lágu fyrir frá skólastjórnum við ríkisskólana ýmsar beiðnir, sem nefndinni sýndust þannig vaxnar, að ekki þyrfti að breyta neinu í fjárlögum, heldur gæti stjórnin sint þeim án frekari ákvæða. Ein beiðnin er frá Hólaskóla. Nefndin hefir fengið upplýsingar um það frá skólastjóra og hv. 2. þm. Skagf. (JS), að það sje mjög nauðsynlegt að hækka liðinn til viðhalds húsum eins og farið er fram á, vegna þess að viðhald á gamla húsinu á Hólum hefir mjög verið vanrækt. Um vjelstjóraskólann og stýrimannaskólann þarf að taka það fram, að launaviðbót tveggja kennara þar, Sigurbjörns Á. Gíslasonar og Guðmundar Kristjánssonar, hefir verið greidd í fjáraukalögum undanfarið, en hæstv. fjrh. hefir lýst því yfir, að þetta verði ekki greitt framvegis nema samkv. fjárlögum. Til fjvn. hefir ekki komið neitt frá skólunum, svo að hún hefir ekki haft neina ástæðu til að taka tillit til þessa ennþá, og því ekki borið fram till.

Næst eru unglingaskólarnir. Nefndin leggur til að hækka styrkinn úr 30 þús. kr. í 38 þús. Hún gerir ekki till. um breytt skipulag skólanna, enda liggur fyrir hv. deild frumvarp um það efni. En þetta aukna tillag er afleiðing af því, að unglingaskólunum er að fjölga. Hefir einn bæst nýlega í hópinn, og mun hann vera einna stærstur, skóli Þingeyinga. Annars er um þetta að segja hið sama og tekið er fram í nál., að nefndin hafði fyrir sjer skýrslu frá fræðslumálastjóra um það, hvernig styrknum var úthlutað 1924; og eigi styrkurinn að verða eitthvað svipaður framvegis, þá verður að hækka þessa upphæð eins og nefndin leggur til. Sú stefna virðist eiga nú mikið fylgi hjer á Alþingi að leggja áherslu á að hlynna að unglingafræðslunni.

Þá hefir nefndin komið með nýjan lið, til að reisa unglingaskóla í sveitum, alt að 2/5 kostnaðar, 20 þús. kr. Hjer er að vissu leyti tekin upp ný stefna, enda eru tekin fram sjerstök skilyrði fyrir því, að slíkur styrkur fáist. Það lágu fyrir nefndinni 2–3 umsóknir, þar sem leidd voru rök að því, að skólar, sem þegar er búið að reisa, hefðu orðið hart úti með byggingarstyrk. Nefndin treystist samt ekki til að verða við óskum um það eftir á að hækka styrkinn. Jeg kem ofurlítið að þessu síðar. Auk þessara umsókna lá líka fyrir umsókn frá Sunnlendingum til þess að reisa hjeraðsskóla á Suðurlandi. Sá fjórðungur er nú hjeraðsskólalaus, en mun þó ekki hafa minni þörf en aðrir. Þar er mikill áhugi vaknaður fyrir því að reisa skóla og mikil fjársöfnun hefir farið fram. En hinsvegar er málið þó ekki fullnægjandi undirbúið. Bæði vegna þessa og sömuleiðis fjárhagsins vegna hefir fjvn. ekki treyst sjer að leggja til, að sú upphæð verði veitt, sem skólanefndin fer fram á. Í stað þess telur nefndin rjett að dreifa styrknum á fleiri ár, og leggur til að taka upp sömu stefnu um þetta eins og á sjer stað um margt annað, að tilfæra ekki sjerstakar stofnanir, heldur veita meðan þess er þörf og með ákveðnum skilyrðum fje til að reisa hjeraðsskóla. Þessar 20 þús. kr. vill nefndin veita í þessu skyni; en það skal skýrt tekið fram, að hún ætlast ekki til þess, að neitt af þessum peningum verði notað til þess að bæta upp það, sem aðrir skólar, sem búnir eru að fá styrk, telja sig vera vanhaldna um. Tillagan er borin fram fyrst og fremst vegna Suðurlandsskólans. Viðvíkjandi honum má ennfremur geta þess, að það lágu ýms plögg fyrir nefndinni um rannsókn þess máls. Töluvert mikill ágreiningur er um staðinn, og lá fyrir skýrsla frá húsameistara ríkisins um rannsókn hans. Hann kveður hiklaust upp þann dóm sinn, að einn staður sje alveg sjálfkjörinn, sem sje Laugarvatn. Það er eitt af skilyrðunum, sem nefndin álítur, að eigi að fullnægja í þessu máli, að í samráði við húsameistara verði ríkisstjórnin að samþykkja, hvar skólinn skuli vera.

Svo er einn nýr liður, sem nefndin ber fram, sem stendur í nánu sambandi við þetta: styrkur til að gera sundlaug við alþýðuskóla Þingeyinga, 5 þús. kr. Frá þessum skóla kom umsókn um aukinn styrk til byggingarinnar af því að hún kostaði meira en gert var ráð fyrir. Nefndin treystist ekki til að fara inn á þessa braut og neitaði algerlega. Þess vegna meðfram var það, að meiri hl. nefndarinnar varð fús til þess að veita þá sjerstaklega styrk til þess að koma upp sundlaug. Líka vegna þess, að meiri hl. nefndarinnar — og ef til vill nefndin öll, — lítur svo á, að þetta verk, að reisa skólann, hafi farið mjög myndarlega úr hendi af hálfu Þingeyinga; er það mjög gott að nota hverahitann til að hita upp húsið. Um hitt er ekki heldur hægt að deila, að það að koma upp myndarlegri sundlaug fyrir skólann er alveg sjerstaklega ákjósanlegt í heilbrigðislegu tilliti. Út frá öllum þessum forsendum leggur nefndin með þessari styrkbeiðni. Sundlaugar munu hafa verið styrktar áður, þó að það hafi ef til vill ekki verið í svona ríkum mæli. Því má bæta við, að áætlun lá fyrir um gerð sundlaugarinnar.

Næst er fjárveiting til kvenfjelagsins Ósk á Ísafirði. Lá fyrir umsókn um töluvert hærri styrk. Hefir nefndin hækkað hann úr 1000 kr. upp í 2000 kr. Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) flytur tillögu um meiri hækkun, sem hann mun gera grein fyrir. Ætla jeg því ekki að tala um þennan lið nú, en bíða umsagnar hans. En niðurstaða nefndarinnar varð þessi, að hækka styrkinn ekki meira en þetta.

Næsta till. er um sundkenslu í Reykjavík. Jeg býst við, að allir hafi sjeð, að það er prentvilla í nál. þar sem stendur, að liðurinn hafi verið hækkaður í fyrra; en vitanlega á að standa, að hann var lækkaður. Nú barst hv. fjvn. erindi, þar sem farið var fram á töluvert meiri upphæð. Að vísu er það svo, að sundkenslan er nálega eingöngu fyrir Reykjavík. En hinsvegar er hjer 1/5, hluti íbúa landsins, og bæjarsjóður Reykjavíkur leggur fram styrk á móti í þessu skyni, og hjer er um að ræða duglega og áhugasama kennara. Vildi því nefndin sýna viðurkenningu og hækka þessa upphæð nokkuð í áttina við það, sem hún var áður.

Næst er nýr liður, til Ríkarðs Jónssonar, til þess að halda uppi kenslu í teikningu og trjeskurði í þjóðlegum stíl, 2000 kr. Í mörg ár hefir verið samskonar styrkur í fjárlögum, bundinn við nafn Stefáns Eiríkssonar. Þar sem bann er fallinn frá, er eðlilegt, að slíkur styrkur fjelli niður í stjórnarfrv. Hinsvegar er það upplýst fyrir nefndinni, að það er mjög nauðsynlegt að hafa slíkan skóla. Og um það verður ekki deilt, að Ríkarður Jónsson er allra manna best til þess fallinn að verða eftirmaður Stefáns í þessari grein. Þess vegna tiltekur nefndin sömu upphæð og áður var og bindur við nafn Ríkarðs. Hann hefir sýnt það með sínum verkum, að hann ann þjóðlegum stíl og að hann er fær um að stuðla að þjóðlegri ment á þessu sviði. Hefir hann haft slíkan skóla undanfarið, sem hefir verið mjög sóttur.

Áður en jeg skil við þessa skólagrein, vildi jeg beina fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JM) af nefndarinnar hálfu. Í fyrra bar fjvn. Nd. fram þáltill., og var því beint til stjórnarinnar, hvort ekki væri ráðlegt að flytja daufdumbraskólann í sveit. Var hún samþykt hjer í hv. deild. Þess vegna tel jeg rjett, að hæstv. stjórn skýrði hjer opinberlega frá þeim ástæðum, sem valdið hafa, að þetta hefir ekki verið gert ennþá. Fjvn. hefir að vísu fengið nokkra skilagrein um þetta, en þar sem till. var samþykt hjer í hv. deild í fyrra. Þá álít jeg rjett, að hæstv. stjórn noti tækifærið og skýri frá ástæðura sínum líka hjer.

Þá er 15. gr. 1. liður er við Landsbókasafnið. Því miður hefir fjárveiting til þess í fyrra verið skorin við nögl. Hæstv. stjórn hefir tekið upp hjá sjer að bæta að nokkru úr þörfinni, og fjvn. hefir þar að auki lagt til að hækka einn liðinn, sem sje til útgáfu handritaskrár, 3 þús. kr. Hv. þm. munu vita, hvað hjer er um að ræða, að það er merkilegt verk, sem dr. Páll E. Ólason vinnur að með sínum alkunna dugnaði og skörungsskap. En nú stendur upp á landið að gefa út. Er þarna að ræða um fólgna fjársjóði fyrir þá, sem vilja kynna sjer sögu landsins. Og það er handritaskráin, sem getur opnað þennan fjársjóð. En handritasafnið er annars eins og lokuð bók.

Í sambandi við þetta vil jeg geta þess frá nefndarinnar hálfu, að henni er kunnugt um það, að hæstv. stjórn ætlar nú í sumar að láta gera við safnahúsið, og munu allir ljúka upp einum munni um það, að þess er engin vanþörf. Það munu fleiri en jeg hafa fengið sting í hjartað, þegar íslensku kvikmyndirnar voru sýndar hjer fyrir nokkru, er þeir sáu, hvernig safnahúsið var á myndinni. Það er landi okkar til lítils sóma. Í sambandi við þetta vill nefndin skjóta því til hæstv. stjórnar, að forstöðumaður safnsins kom á fund hjá henni, og meðal annars fór hann fram á, að gert yrði við gólf safnsins, sem er mjög slitið. Orsakast af því mikið ryk, er sest á bækur og skemmir þær. Vill nefndin skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort ekki mætti ráða bót á þessu um leið og gert er við húsið að öðru leyti.

Næsta till. er um 600 kr. hækkun til Bókmentafjelagsins samkv. umsókn þess. Er hún gerð í því skyni frá nefndarinnar hálfu, að styrkur sá, sem fjelagið hefir haft undanfarið til þess að gefa út íslenskt fornbrjefasafn, verði eins og hann áður var; en hann var lækkaður í fyrra. Jeg get sagt það frá mínu eigin brjósti, að þarna mun vera að ræða um einhverja merkustu bókaútgáfu hjá okkur um þessar mundir. Væri því mjög sorglegt, ef við yrðum að minka styrk til þeirrar útgáfu samhliða því að missa manninn, sem hefir mest að útgáfunni unnið. Annars tekur sá maður við, sem mun vera til þess færastur, að dr. Jóni Þorkelssyni látnum, dr. Páll E. Ólason.

Næsta till. er aðeins orðabreyting viðvíkjandi styrk til Sögufjelagsins, á þá lund, að styrkurinn sje ekki eingöngu bundinn við að gefa út alþingisbækur, því að fjelagið hefir fleiri góðum útgáfum að sinna. Er þetta samkv. ósk formanns Sögufjelagsins.

Þá er komið að þeim lið 15. gr., sem ekki er minst skrafað um bæði á þingi og annarsstaðar. Auk hinnar almennu upphæðar til skálda og listamanna hefir nefndin tiltekið upphæðir, sem bundnar eru við nöfn tveggja skáld, Guðmundar Friðjónssonar og Jakobs Thorarensens. Orsök til þessarar breytingar er sú, að nefndin tók það fram í fyrra í nál., að hún ætlaðist til, að Jak. Th. fengi góðan skerf af skáldastyrknum. En það hefir ekki orðið; og það mun hafa frekar ýtt undir nefndina að taka þessa tvo menn út úr sjerstaklega. Annars er rjett og skylt að segja frá því, að töluverður ágreiningur var um þetta innan fjvn.; en þessi breyting varð þó seinast að samkomulagi.

Mjer var falið að taka það fram út af 14. lið d., um 3000 kr. til þess að kaupa listaverk, að sá liður var áður í sambandi við þjóðmenjasafnið. Það var í ráði, að nefndin flytti þennan lið til þannig; en hún hefir ekki gert það að sinni till., en leyfir sjer að benda því til hæstv. stjórnar, að hún gerir ráð fyrir, að fornmenja vörður verði hafður með í ráðum, þegar þessum lið verður ráðstafað.

Næsti liður er styrkur til Þórbergs Þórðarsonar. Er það till. nefndarinnar, að honum verði aftur veittur sá styrkur í fjárlögum, sem hann hefir hingað til haft til þess að safna orðum úr alþýðumáli Jeg tek það þó fram, að það er aðeins meiri hl. nefndarinnar, sem að þessari brtt. stendur, því að nefndin hefir ekki öll getað orðið sammála um hana. Þeir, sem fylgja fjárveitingunni, álíta Þórberg jafnmaklegan þessa styrks nú sem áður. Hjer á fróður maður og einkennilegur rithöfundur hlut að máli. Þó má ekki setja fjárveitingu þessa í samband við þær pólitísku ritsmíðar, sem þessi rithöfundur hefir nýlega látið frá sjer fara. Vjer höfum ekki sjeð ástæðu til, að þær hefðu nein áhrif á styrk þennan til eða frá.

Í sambandi við 16. lið, 4500 kr. til Einars Arnórssonar til að semja vissan hluta Alþingissögunnar, vil jeg geta þess, að fjárhæð þessi veitist í eitt skifti fyrir öll. Um næsta lið, 500 kr. hækkun á fjárveitingu til Hannesar Þorsteinssonar, get jeg vísað til nál., og hefi þar engu við að bæta.

Þá er næsti liður, hækkun fjárveitingar til veðurathugunarstofunnar. Nokkur styr hefir staðið um þá stofnun, og hefir verið sagt úr ýmsum áttum, að gagn af henni samsvaraði ekki kostnaði. Fjvn. í fyrra lagði til að lækka styrkinn, og var það gert að miklum mun. En nú er aðstaðan orðin öll önnur. Veðurathugunarstöðvar hafa verið settar upp á Grænlandi og Jan Mayen. Stofnunin er þegar búin að fá allmikla reynslu eftir margra ára starf. Nú berast kröfur úr tveim áttum í senn um, að veðurathuganir verði vel ræktar hjer. Í fyrsta lagi frá útlöndum, og í öðru lagi frá Fiskifjelagi Íslands. Fjvn. hefir því lagt til að hækka styrkinn um 10000 kr. Forstöðumaður þessarar stofnunar hefir látið í ljós, að við borð lægi, að veðurathugunarstofan myndi missa mann úr þjónustu sinni, er þar hefir starfað undanfarið. Væri því æskilegt að heimta heim mann, sem undanfarið hefir lagt stund á fræðigrein þessa í Noregi, og þingið hefir styrkt, Jón Eyþórsson. Verður að telja sjálfsagt að reyna að fá þennan mann hingað.

Næsta brtt. fer fram á að hækka styrkinn til Íþróttasambands Íslands um 1000 kr. Um þennan lið þarf ekki að deila. Íþróttafjelögin vinna meira gagn en metið verði til fjár. Nú er hugsað til meiri framkvæmda en áður. Á þeim grundvelli er lagt til að hækka hinn árlega styrk, fremur en að veita hærri styrk, sem um var beðið vegna námsskeiðs.

Þá kem jeg að till. fjvn. um fjárveitingu til Einars Jónssonar myndhöggvara. Nefndinni hafa borist margar umsóknir frá listamönnum um fjárstyrki. Hún hefir þó orðið að neita þeim næstum öllum, og hefir þegar fengið orð í eyra fyrir það, og er þó ekki öll nótt úti enn. En allir nefndarmenn voru á einu máli um að hlúa að Einari Jónssyni myndhöggvara. Hann hefir líka að öllu leyti sjerstaka aðstöðu. Ríkið hefir — sjer til sóma — bygt sjerstakt hús yfir verk hans. Það á að eignast öll listaverk hans, og vafalítið lifa þau lengst af öllum verkum þessarar kynslóðar.

Tilmæli um styrk þennan eru ekki komin frá Einari Jónssyni sjálfum, heldur frá vinum hans, sem er fyllilega kunnugt um, að listamaðurinn njóti sín ekki við þau kjör, sem hann á við að búa. Nefndin hefir og lagt til að veita honum styrk til að afla sjer aðstoðar, til að losa hann við að vinna alla mekaniska vinnu sjálfur við listaverk sín, en það hefir mjög tekið upp tíma hans.

Þá eru tveir smástyrkir seinast í 15. gr. Annar er viðurkenningarstyrkur til dr. Jóns Stefánssonar. Umsókn hans um styrk til að rita sögu Íslands á ensku hefir legið frammi í lestrarsal, og munu hv. þm. því hafa kynt sjer hana. Tilefnið er, að enskur bóksali einn er að gefa út ríkjasögubálk mikinn. Hefir dr. J. St. þegar ritað þar sögu Noregs og Svíþjóðar. Teljum vjer bæði gagn og sóma, að saga Íslands sje skráð þar einnig, enda er maðurinn mjög vel til þess fallinn. Styrkurinn er veittur í viðurkenningarskyni, enda var eigi farið fram á sjerstaka fjárhæð.

Þá er styrkur til alþýðufræðslu stúdentafjelagsins. Hann var feldur niður í fyrra, en nefndin kom sjer saman um að taka hann upp aftur. Hjer er um þarfa og vinsæla starfsemi að ræða, sem hefir gert mikið gagn.

Þá kem jeg að 16. gr. Þar verður fyrst fyrir allmikil hækkun á styrk til Búnaðarfjelags Íslands. Fjvn. leggur til að hækka hann úr 150000 kr. upp í 200000 kr. Fjárhagsnefnd búnaðarþings átti tal við fjvn., gerði glögga grein fyrir þörf fjelagsins fyrir aukinn styrk, lagði fram mjög vel rökstudda áætlun og óskaði eftir, að styrkurinn yrði hækkaður upp í 220–230 þús. kr. Fjvn. sá sjer þó ekki fært að fara fram úr 200 þús. kr. Var búnaðarþinginu tilkynt þessi till. fjvn., áður en því var slitið, og gekk það út frá þessari fjárhæð í fjárhagsáætlun sinni. Veldur það því mikilli truflun, ef tillaga fjvn. nær ekki fram að ganga. Öll nefndin var á einu máli um nauðsyn þessarar hækkunar.

Jeg vil benda á í sambandi við þetta mál, að Alþingi hefir alveg óvenjulega mikla tryggingu fyrir því, að þessu fje verði vel varið. Sú breyting var gerð á fyrir skömmu, að tveir í stjórn Búnaðarfjelagsins eru kjörnir úr landbn. Alþingis. Þriðji maður var nýlega kosinn skrifstofustjóri 2. skrifstofu í stjórnarráðinu. Búnaðarþingið sækja fulltrúar af öllu landinu. Tryggingin er því eins góð og unt er, að fje þessu verði vel varið.

Jeg skal og geta þess, að fjárhagsnefnd búnaðarþings bar ennfremur fram ósk um uppbót á styrk síðasta árs, sem er að upphæð 140 þús. kr. Sýndi nefndin fram á, að ómögulegt væri að komast af með svo lítið fje, og afleiðingin yrði stórkostleg skerðing á starfsemi fjelagsins. Auk þess færu kröfur þings og þjóðar til fjelagsins sívaxandi.

Fjvn. sagði, sem satt var, að hún mundi engin fjáraukalög bera fram á þessu þingi, og gæti því ekki orðið við þessari beiðni. Hinsvegar átti fjvn. tal við hæstv. atvrh. (MG) og lagði til við hann, fyrir sitt leyti, að fje yrði veitt til viðbótar eftir brýnum þörfum. Hæstv. atvrh. tók vel í málið að sínu leyti. Enda er tryggingin fyrir því, að fjeð verði ekki misnotað, svo góð, að enginn þarf að óttast slíkt.

Næsta brtt. fer fram á 8000 kr. fjárveitingu til Skeiðaáveitufjelagsins, og vildi jeg fara nokkrum orðum um það atriði.

Hjer er um mjög alvarlegt mál að ræða. Hv. þm. munu allir hafa kynt sjer skýrslu þá, er frammi hefir legið um þetta mál. Till. búnaðarþings lágu einnig fyrir fjvn. Hjer má ekki láta alt fara í kaldakol, enda þótt ekki sje hægt að neita því, að alvarleg mistök hafi átt sjer stað. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir trú manna á landbúnaðinum, ef alt færi yfir um. Að vísu hefir Búnaðarfjelagið þegar gert mikið til hjálpar, en þó var ekki laust við, að farið væri að bera á vonleysi hjá bændum.

Fjvn. treystist ekki að verða við öllum kröfum, sem að Alþingi var beint um þetta mál. Og á eitt vildi hún leggja sjerstaka áherslu. Það var það, að áður en gengið væri lengra um fjárveitingar, sæist, að bændur hefðu fullan vilja á að standa við skuldbindingar sínar. Enn sem komið er hafa þeir ekkert lagt fram sjálfir. Nefndin treystist því ekki að ganga lengra en í till. segir. Þar er um sjálfsagt atriði að ræða og í samræmi við fjárveitingar til Flóaáveitunnar, einn fjórði af kostnaði við að hlaða flóðgarða. Hinu er ekki hægt að neita, að bændur hafa orðið allhart úti. Einkum varð mikill kostnaður, sem alls ekki var gert ráð fyrir, við sprengingu á hraunklöpp einni. Nefndin hefir þó ekki lagt til að veita fje í tilefni af því að þessu sinni. En jeg held, að mjer sje óhætt að segja fyrir hönd nefndarinnar, að þegar bændur hafa sýnt, að þeir ætli sjer að standa við allar sínar skuldbindingar, að þá sje sjálfsagt að ljetta undir með þeim, enda þótt nefndin gæti ekki gengið lengra nú, vegna óvissunnar um fjárreiður fyrirtækisins. Þá hlið málsins, er snýr að Landsbankanum, mun jeg ekki fara út í hjer.

Þá kem jeg að hækkuninni á styrk til Fiskifjelagsins úr 55 þús. kr. upp í 70 þús. kr. Nefndin vill eftir mætti styrkja þau fjelög, sem efla framleiðsluna í landinu, og vildi því hækka styrk þennan í hlutfalli við styrkinn til Búnaðarfjelagsins. Jeg er að vísu ekki eins kunnugur Fiskifjelaginu, en nefndin var öll einhuga um hækkun þessa og átti rækilegt tal við forseta Fiskifjelagsins um málið.

Þá kemur styrkur til bryggjugerða. Margar umsóknir höfðu borist slíkar, en nefndin sá sjer ekki fært, sökum ókunnugleika, að gera till. um úthlutunina. Leggur hún því til, að styrkurinn verði veittur í einu lagi, en sjerfræðingur geri till. um, hvernig varið skuli, í samráði við landsstjórn. Ein á meðal umsókna var umsókn um 10 þús. kr. endurveiting til bryggju á Eyrarbakka. En þar sem nefndin treystist ekki til að skera úr þessu, tók hún þá leið að setja ákveðin skilyrði og leggja til, að stjórnin rjeði skiftingu fjárins í samráði við vitamálastjóra og aðra sjerfróða menn.

Kem jeg þá að fjárveitingu til Jóhanns Kristjánssonar, til leiðbeiningar í húsagerð til sveita. Nefndin var einhuga um að búa nokkuð betur að Jóh. Kr. en gert hefir verið, þar sem kunnugt er, að maður þessi hefir gert mikið gagn, en hinsvegar orðið hart úti undanfarið. Má og búast við, að byggingar til sveita fari vaxandi á næstu árum. Erindi lá fyrir frá manni þessum, þar sem hann fer fram á að mega taka borgun fyrir teikningar og vinnu. Nefndin taldi þó rjettara að veita honum ferðakostnað og skrifstofufje, en að teikningarnar væru ókeypis, og eins færi um greiðslu fyrir vinnu hans sem áður.

Næst er styrkur til Vestmannaeyjabátsins Þórs. Nefndin hefir lagt til, að hann yrði hækkaður um 10 þús. kr. Háttv. þm. Vestm. (JJós) hefir farið fram á, að styrkurinn yrði hækkaður upp í 80 þús. kr., með tilliti til þess, hve lágur hann var árin 1920–1922. Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að fara hærra en upp í 35 þús. kr., en vill jafnframt, að skipið sje notað til strandvarna, er Vestmannaeyingar þurfa þess ekki með. Annars get jeg vísað til nál. um þetta atriði.

Þá er næst brtt. um að hækka styrkinn til Þórðar Flóventssonar um 200 kr. Hjer er um alkunnan mann að ræða, sem er að vísu enginn vísindamaður, en hefir vakið almennan áhuga á sínu starfssviði og er alstaðar kærkominn gestur. Þótt lærðir læknar sjeu góðir, gátu homopatarnrr verið það líka.

Næst er fjárveiting til Lofts Guðmundssonar fyrir töku kvikmyndar, sem allir hv. þm. hafa víst sjeð og er oss til mikils sóma. Umsókn um 10 þús. kr. styrk barst frá þessum manni. Nefndin gat ekki rengt, að hann hefði skaðast á myndinni, en sá sjer þó ekki fært að verða við beiðni hans. Vildi því fara milliveg og veita 3000 kr., fremur í viðurkenningarskyni en sem styrk.

Þá er styrkur til Magnúsar Konráðssonar, til að ljúka verkfræðinámi. Nefndinni bárust allmargar umsóknir frá námsmönnum, en þessari einni var sint, enda stóð hjer sjerstaklega á. Maður þessi var í síðasta hópnum, sem náði í Garðstyrkinn, og hefir einskis styrks notið hjeðan. Nefndin fjekk fullnægjandi upplýsingar um það, að maðurinn væri styrksins mjög vel maklegur.

Þá koma tveir liðir í 17. gr. til sjúkrasjóða, er áður hafa fylgst að í fjárlögunum. Stjórnin feldi þá niður í þetta sinn, en nefndinni þótti rjett að taka þá upp í 17. gr. Lágu fyrir umsóknir frá hv. 1. þm. Skagf. (MG) og hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Nefndinni fanst rjett að taka till. upp aftur. Annars geta hlutaðeigendur gefið nánari upplýsingar, ef óskað er.

Kem jeg þá að 18. gr. Verður þar fyrst fyrir leiðrjetting á prentvillu, og þarf jeg ekki að fjölyrða um það, nje heldur þá liði, er koma þar næst á eftir. Jeg skal þó þegar geta þess, að nefndin hefir lagt til að bæta frú Theodóru Thoroddsen í næsta lið, og er öll einhuga um það.

Þá eru aðeins tvær till. eftir, þar sem nefndin leggur til í nýrri grein í fjárlögunum, að stjórninni sje veitt heimild til að veita eftirgjöf á tveim lánum úr viðlagasjóði, öðru til Hvítárbakkaskólans og hinu til mötuneytis kennaraskólans. Jeg þarf ekki að bæta miklu við það, sem í nál. segir um þetta. Borgfirðingar hafa, eins og kunnugt er, lagt mjög mikið á sig til þess að gera Hvítárbakkaskólann að hjeraðsskóla. Þeir tóku við skólanum á mjög erfiðum tíma, og auk þess eru hús skólans ekki svo vönduð sem þyrfti, og hafa þeir því orðið að leggja enn í kostnað til þess að bæta þau. Nú er ástandið þannig, að fyrirtækið mæðir mest á fáum bændum, sem bera skólann uppi. En í hjeraðinu er það metnaðarmál, að skólinn haldi áfram. Og það er ekki vafi á því, ef Alþingi vill sinna þessu máli, þá eru skilyrði fyrir hendi til þess að hjer verði rekinn ágætur skóli. Þessi skóli hefir ekki fengið hlutfallslegan styrk til byrjunar við aðra skóla, og leggur því nefndin til, að honum sje gefið eftir lánið, enda full ástæða til þess, þar sem skólinn er hjeraðsskóli. Jeg get bætt því við, að klofningur hefir orðið í hjeraðinu um skólann, og rekur nú einstakur maður þar skóla sjerstaklega. Sendi hann umsókn til nefndarinnar um styrk, en nefndin vildi ekki sinna því, heldur hlynna sem best að þeim skóla, sem sjálft hjeraðið stendur á bak við.

Um hina till., um mötuneyti kennaraskólans, þarf jeg litlu við að bæta. Menn þekkja þennan skóla, sem hjer á hlut að máli. Það er einn besti skóli landsins. Fólk það, sem sækir skólann, er flest utan af landi, fátækt fólk og á ekki að glæsilegum stöðum að hverfa að loknu námi, og er því sanngjarnt, að ríkið hlynni heldur að því. Þessi stofnun, mötuneytið, hefir gengið vel. Þar hefir fæði verið 15–20 kr. ódýrara á mánuði en jafngott fæði annarsstaðar. Þannig hefir þetta fólk, sem flest á við þröngan kost að búa, ljett af sjer dálitlum kostnaði. Nefndinni virtist rjett að styrkja þetta þarfa fyrirtæki lítilsháttar, í eitt skifti fyrir öll, og leggur því nefndin til, að því sjeu gefnar eftir eftirstöðvarnar af láni þess úr viðlagasjóði. Enda hefir eigandi hins skólans, sem hjer á hlut að máli, gefið því upp lán af sinni hálfu. Virðist nefndinni, að hjer sje alls ekki verið að brjóta neitt samræmi, því að við skóla þá, sem standa í sveit og ríkið styrkir, er víðast svo í haginn búið, að þeir geti haft mötuneyti fyrir sína nemendur. Þess má líka geta, að mötuneyti stúdenta hjer hefir notið styrks af opinberu fje.

Jeg hefi nú talað nokkuð lengi, enda hefi jeg minst á 27 brtt., en það er ekki í flýti gert. Jeg get nú lokið máli mínu. Jeg fylgi dæmi háttv. frsm. fyrri hlutans (ÞórJ) í því, að tala ekki um till. einstakra þm. fyr en þeir hafa lokið að tala fyrir þeim.