19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla ekki að leggja margt til málanna nú. Treysti hv. frsm. meiri hl. (JBald) vel til að halda á málstað bannmanna. Þakka jeg háttv. nefnd góða afgreiðslu málsins, og þá fyrst og fremst meiri hl. hennar, því að till. hans eru að mínu skapi. Og það verð jeg að segja, að önnur er nú meðferð þessa máls en á þinginu í fyrra, bæði betri og skjótari. Og einnig þakka jeg hv. minni hl. það, að hann hefir sjeð sjer fært að ganga þó að frv., því að það er þó betra en ekki neitt.

Þrátt fyrir þá breytingu, sem gerð var á bannlögunum 1922 og ’23 hefir það hvergi komið fram, nema síður sje, að Ísland vildi ekki vera bannland áfram. Sú undanþága, sem gefin var 1922 og ’23, var ekki gefin vegna þess, að þjóðin hefði skift um skap í þessu máli, heldur var hún gefin vegna þess, að annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar var í voða staddur. Og bannvinir þoldu það, að þessi undanþága væri veitt, af því að þeir sáu, hvílík vá var fyrir dyrum.

En einmitt af því, að bannmenn gengu inn á að veita þessa undanþágu, sem þeir vissu þó, að yrði til að lama tilgang bannsins til stórra muna, einmitt vegna þess, segi jeg, er það skylda stjórnar og þings að sinna þeim kröfum, sem bannvinir bera fram til þess að þetta brot af bannlögum, sem eftir er, nái tilgangi sínum að svo miklu leyti sem hægt er, og að sýnt sje í verkinu, að þjóðin sje ennþá bannhugsjóninni trú.

Út frá þessum forsendum segi jeg þá það, að Alþingi beri fyrst og fremst að hlýða sjerstaklega á allar þær till., er forgöngumenn bannmálsins bera fram, því að þeir eru best færir um að dæma um, hvað heppilegast er í þessu máli, og þeim einum trúandi að bera það eitt fram, sem landi og þjóð er fyrir bestu, því að hjá þeim er áhuginn vakandi um að hinn góði tilgangur laganna náist.

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að við hv. þm. Borgf. (PO) hefðum fengið frv. frá Stórstúku Íslands um breytingar á bannlögunum, en óráðið væri, hvort við bærum það fram eða tækjum úr því það, sem okkur þætti máli skifta, og flyttum það sem brtt. við stjfrv.

Við hnigum að því ráði, til þess að forðast frekari úlfúð og sundurlyndi í þinginu, að afhenda hv. allshn. frv. til athugunar, með þeirri ósk, að hún gæti að sem mestu leyti samrýmt það brtt. sínum við stjfrv. Þetta hefir nefndin gert, eða meiri hl. hennar, að töluverðu leyti; að vísu er ýmislegt eftir í frv. stórstúkunnar, sem meiri hl. hefir ekki tekið upp, en við erum þakklátir fyrir það, sem gert er. Sjálfir höfum við ekki borið fram neinar brtt. enn, og bíðum átekta með það um stund, eða sjáum fyrst, hvernig brtt. meiri hl. reiðir af nú við þessa umr.

Jeg mun fylgja öllum brtt. meiri hl. nefndarinnar, þó jeg hinsvegar verði að játa, að allar þessar breytingar sjeu, að mínu viti, ekki jafnnauðsynlegar. Ein af þessum breytingum er þýðingarmest af þeim öllum og fyrir mjer stærsta atriðið í þessu máli. Það er að afnema „læknabrennivínið“ svokallaða, eða losa lækna við það leyfi að gefa eða afhenda áfengi eftir lyfseðlum. Það leikur ekki á tveim tungum, að margir læknar, — jeg segi ekki allir, því ýmsar heiðarlegar undantekningar þekkjast þó, sem betur fer, — hafa misnotað þetta leyfi, enda eru það hæstu kröfur allra sannra bannvina, að þetta verði numið úr lögum sem allra fyrst, og að slíkum kröfum stend jeg fast.

Aðstaða þingsins er og betri nú en áður í þessu máli, þar sem kunnugt er, að á læknaþingi Íslands, sem háð var á Akureyri í sumar, var samþykt með 10 atkv. gegn 2 að fella niður úr lögunum, að læknar mættu afhenda áfengi eftir lyfseðlum. Þegar slík krafa kemur frá læknunum sjálfum, ætti þingið ekki að vera í neinum vafa um, hvað gera skal. Þess vegna kom mjer hálfkynlega fyrir að heyra af vörum hæstv. forsrh. (JM), að ástæðulaust væri að taka þessa ályktun læknaþingsins til greina vegna þess, að á Akureyri hefði aðeins verið samankominn nokkur hluti lækna. Mjer er að vísu kunnugt, að læknafundur hjer í Reykjavík í haust lagði til það gagnstæða. En þarflaust er að taka svo til orða, eins og hæstv. forsrh. (JM), að minni hluti lækna hefði staðið að Akureyrarályktuninni, enda er mjer ekki kunnugt um, að meiri hluti lækna landsins hafi verið á þessum Reykjavíkurfundi. En fyrir mjer er þó aðalatriðið það, að Akureyrarfundurinn var aðalþing lækna og þangað komnir læknar víðsvegar að af landinu, svo mjer finst meiri ástæða til að taka mark á þeim till., sem þar voru samþyktar, heldur en að byggja nokkuð á Reykjavíkurfundinum, þar sem kannske hafa verið samankomnir ýmsir þeir læknar, sem vitanlegt er um, að hafa misnotað þetta margumþráttaða leyfi. Það er vitanlegt, að sumir læknar hjer í Reykjavík hafa drjúgar tekjur af því að telja áfengislyfseðla, og þá ekki nema von til, þó að þeir greiði atkvæði móti því að missa svo góðan spón úr askinum sínum.

Þá ætla jeg að víkja fáum orðum að háttv. þm. V.-Sk. (JK), frsm. minni hl. Honum fórust orð eitthvað á þá leið, að breytingartill. þær, sem meiri hl. nefndarinnar bæri fram, stefndu í beinan voða, ef þær næðu samþykki deildarinnar.

Það hefir nú reynst erfitt að rökræða nokkurt mál við þennan hv. þm., enda ætla jeg að sleppa því. En jeg verð að segja það, að það megi undarlegt vera, ef það stefni landi og þjóð í hreinan og beinan voða að samþykkja þá till., sem fimmfaldur meiri hluti lækna samþykkir á læknaþingi Íslands og sem allir bannvinir á landinu standa að. Slíkar staðhæfingar eru fjarstæða og ekki orðum eyðandi um þær.

Jeg ætla ekki að fara frekar út í ræðu hv. þm., enda var hún aðallega stíluð gegn brtt. meiri hl. og verður að vonum svarað úr þeirri átt.

Hæstv. forsrh. (JM) lýsti því yfir, að hann vildi heldur, að frv. fengi fram að ganga óbreytt. Jeg er honum sannnála um, að betra er en ekki, að það gangi fram óbreytt. En vel viðunandi tel jeg ekki afgreiðslu þess, nema sú breyting fáist, að læknabrennivínið sje afnumið. Það er fyrir mjer langstærsta atriðið, að fá það af numið.

Áður en jeg sest niður, vildi jeg skjóta því til hæstv. forseta, að mjög æskilegt væri, að brtt. 2, a. á þskj. 163 yrði borin upp í tvennu lagi. Þar er um tvö óskyld atriði að ræða; annað er um leyfi læknum til handa að láta úti áfengislyfseðla, en hitt um konsúlabrennivínið.