19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það hafa orðið lítið meiri andmæli gegn brtt. okkar meirihlutamanna en við gátum búist við. Okkur var kunnug afstaða háttv. þm. V.-Sk. (JK) úr nefndinni og vissum, að hann mundi leggjast á móti okkur, en um hæstv. forsrh. (JM) var okkur ekki jafnljóst, þó við hinsvegar gerðum ráð fyrir, að hann mundi verða á móti ýmsum þeim atriðum, er við berum fram.

Það, sem hv. frsm. minni hl. (JK) sagði um rjettarmeðvitund almennings, eða að hann vildi ekki vera með að samþykkja þær till., sem gengju á móti rjettarmeðvitund þjóðarinnar, þá verð jeg að líta svo á, að hann viti lítið, hvað hann sje að fara; hann hefir ekki spurt þjóðina, hvað hún vilji í þessu efni. En hitt get jeg fullvissað hann um, að þjóðin, eða meiri hl. hennar, mun standa nær till. okkar meirihlutamanna í þessu máli en hans, svo að ef það er vilji hans að fara eftir rjettarmeðvitund almennings, þá ætti hann að fylgja okkar máli.

Það, sem hann hafði eftir mjer um hlutdeildarmennina, var ekki rjett. Jeg taldi það til bóta, sem þar er breytt, en ljet þess hinsvegar getið, að líklega væri þetta upp tekið í frv. vegna nokkurskonar samviskubits út af slælegri rannsókn á stórfeldum bannlagabrotum núna fyrir skömmu.

Þá rakti hv. þm. V.-Sk. (JK) sögu bannlaganna og taldi fram allar þær breytingar, sem á þeim hafa verið gerðar frá því fyrsta. En öll sú nákvæma og sögulega fræðsla lögfræðingsins sannar aðeins það, er jeg hjelt fram í fyrri ræðu minni, að þingið hefði altaf frá því fyrsta verið að krukka í lögin og hver breyting miðað í þessa ákveðnu átt: að draga sem mest úr tilgangi laganna og gera þau aðeins að áhrifalausu pappírsgagni. En það er ekki til neins fyrir okkur að deila um þetta; hann er andbanningur en jeg er bannvinur. Hann segir, að við eigum engin bannlög að hafa og að þau sjeu vond; jeg segi, að bannlögin sjeu okkur nauðsynleg og góð, og þess vegna beri okkur skylda til þess að vernda þau og bæta.

Þá skildist mjer, að hann í röksemdum sínum gegn aðaltill. okkar þættist greiða okkur rothögg, með því að væri kipt í burt rjetti lækna til þess að gefa lyfseðla á áfengi, þá mundu læknar taka upp það, sem ekki væri bannlögunum betra, þeir mundu fara að selja spíritus.

Jeg er nú hálfhræddur um, að hann hafi ekki athugað nógu rækilega lagaákvæðin um þetta, ef hann heldur, að tillögur okkar geri það að verkum, að eftirleiðis verði læknum þá heimilt að selja spíritus eftir vild.

Það stendur hvergi í bannlögunum, að læknum sje heimilað að gefa lyfseðla á spíritus til neyslu. Og þó slíkt hefði staðið í bannlögunum, þá væru þau ákvæði ekki framar í gildi, síðan sett voru lög um einkasölu ríkisins á áfengi og reglugerð í sambandi við þau, sem út var gefin 7. ágúst 1922 og lýtur að heimild lækna til að selja áfengi.

Upphaf 2, gr. þessarar reglugerðar hljóðar svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Lyfsölum og læknum er ekki heimilt að selja ómengað áfengi (spíritus), hvorki óblandað nje blandað öðrum efnum, til neins annars en lækninga, sjúkdómsrannsókna og annara iðkana í læknisvísindum“ o. s. frv.

Af þessu er auðsætt, að rothögg það, sem hann ætlaði að greiða okkur meirihlutamönnum, hefir nú snúist að honum sjálfum og öll hans mikla röksemdafærsla fallin um sjálfa sig. Þetta var nú aðaluppistaðan í ástæðum þeim, er hann færði gegn brtt. okkar um afnám „læknabrennivínsins“.

En það er alveg rjett, sem hann sagði, að læknar yrðu að fá spíritus, en það fá þeir eftir öðrum lögum. Um þetta spurði jeg landlækni núna undir umr., og sagði hann mjer einmitt þetta.

Það er satt, að læknarnir sjálfir eru ekki sammála um þetta atriði. Sumir vilja fyrirbyggja það, að læknar geti misnotað heimildina, og telja því sjálfsagt að strika hana á burt, en aðrir vilja halda dauðahaldi í hana. Og sem dæmi þess höfum við þessar tvær samþyktir lækna, sem minst hefir verið á: Læknaþingið vildi í sumar afnema hana, en Læknafjelag Reykjavíkur halda henni. En eins og hv. þm. Str. (TrÞ) tók rjettilega fram, þá tel jeg meiri ástæðu til að fara eftir því, sem læknaþingið samþykkir, heldur en Læknafjelag Reykjavíkur. Enda ættu ekki læknar hjer í Reykjavík, sem misnotað hafa heimild sína til að gefa út lyfseðla á áfengi, að eiga atkvæðisrjett um þessi mál, eða dæma í sinni sök, því margir eru brotlegir, eins og hæstv. forsrh. (JM) benti á.

Þá er það Eimskipafjelalgið og rjettur þess til að veita og selja áfengi á skipum sínum. Hv. þm. V.-Sk. (JK) kom ekki með neitt nýtt í þeim málum. Við vissum það áður, að fjelagið er okkur meirihlutamönnum andstætt í skoðunum á þessu, en hitt eru staðhæfingar út í loftið, og ekki á neinum rökum bygt, að fjárhag fjelagsins sje stefnt í voða vegna þess, að fjöldi manna hætti að ferðast með skipum þess, ef tekið verður af fjelaginu leyfi til þess að selja eða veita áfengi á skipunum. En um hitt blandast mjer ekki hugur, að okkur væri það til sóma, bæði inn á við og út á við, að þurka skipin af áfengi, svo framarlega sem við hugsum til þess að vera bannþjóð áfram.

Þá er það „konsúlabrennivínið“ svonefnda. Jeg skal játa, að út af fyrir sig er þetta ekki stórt atriði, en mjer finst eðlilegra, að ræðismönnum sje engin undanþága veitt í þessu efni. Og mjer finst það alls ekki nein ókurteisi gagnvart þessum erlendu sendimönnum, eða að þeim sje á nokkurn hátt gert rangt til, þó að þeir verði að búa undir sömu lögum og reglugerðum eins og sjálf börn landsins. Hvað tíðkast í Ameríku í þessu efni, finst mjer að okkur komi ekkert við. Við setjum lög fyrir okkur og hegðum okkur eftir þeim, án þess að seilast til Vesturheims. Annars kem jeg síðar að þessu atriði, er jeg svara hæstv. forsrh. (JM).

Jeg hefi áður vikið að breytingartill. meiri hluta nefndarinnar um húsrannsókn án dómsúrskurðar í framsöguræðu minni og þarf eiginlega ekki að fara um það fleiri orðum. Þetta getur líka hver maður skilið, hvílíka örðugleika það bakar lögreglunni í eltingaleiknum við launsalana, að mega ekki umsvifalaust gera húsrannsókn hjá þeim, enda þótt hún vilji mennina seka, en að verða að bíða úrskurðar bæjarfógeta, uns alt er um seinan. Þessi rannsókn getur heldur ekki tekið til annara en þeirra, sem áður hafa orðið brotlegir við 1. málsgr. 12. gr.

Jeg hefi einnig áður minst á lyfseðla sölu lækna, eða öllu heldur afnám hennar, og hefi þar litlu við að bæta. Því hefir verið haldið fram, að læknar myndu selja áfengi í öðrum myndum, ef þessi ákvæði næðu fram að ganga. Þeir myndu selja spíritusblöndur undir ýmsu yfirskini. Þetta kynni að koma fyrir, en þó myndu ekki aðrir læknar gera það en þeir, sem annars leitast við að brjóta bannlögin á hvern hátt sem þeim gefst kostur á. Þessir menn eru máske til, en jeg bæði veit og vona, að heiðarlegu læknarnir sjeu hjer í miklum meiri hluta og láti ekki hafa sig til slíkra lögbrota.

Um konsúlabrennivínið get jeg verið fáorður. Að vísu hafa ekki komið fram kvartanir yfir því, að því hafi verið misbeitt. En bæði virðist það fremur óviðkunnanlegt, að ræðismenn geti ekki hlítt lögum þeirrar þjóðar, sem þeir eru búsettir hjá, eða venjum hennar í mat og drykk, og auk þess segir það sig sjálft, að t. d. ræðismaður sunnan af Frakklandi fer hjer á mis við ýmislegt í lifnaðarháttum, sem hann gat notið í átthögum sínum.

Þá var reynt að bera í bætifláka fyrir eftirlitið með bannlögunum. Það er nú á hvers manns vitorði, að það hefir verið harla slælegt, enda er það margviðurkent, jafnvel af sjálfum forsrh. (JM).

Hann hefir lagt til, að skipaður yrði sjerstakur rannsóknardómari í bannlagabrotum, og það er óneitanlega óbein játning um það, að einhverjar veilur hafi verið í eftirlitinu hingað til, enda þarf ekki um það að þrátta.

Jeg get þá lokið máli mínu að sinni, enda býst jeg við, að umræðunum verði frestað að sinni, þar sem fundartími er þegar á enda, og verður því tækifæri til að segja fleira um málið við framhald umræðunnar.