30.03.1925
Neðri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Jeg geri ekki ráð fyrir því, að jeg tali um margar till. hv. fjvn. Þar sem hv. nefnd hefir farið nokkru lengra en jeg treysti mjer til í till. mínum, að því er við kemur kenslumálum, listum og vísindum, þá get jeg auðvitað ekki verið að hafa á móti því. Jeg þorði ekki að fara lengra en frv. sýnir í till. mínum. En ef það er álit hv. fjvn., að fjárhagur landsins sje svo góður, að hann leyfi það, að bætt sje við útgjöldum til þessara hluta, þá situr ekki á mjer að hafa á móti því.

Jeg vil svara því nokkru, sem hv. frsm. (TrÞ) sagði viðvíkjandi styrk til Jakobs Thorarensens. Sagði hv. frsm., að hann hefði átt að fá góðan skerf af fje því, sem veitt var til skálda og listamanna, samkvæmt till. fjvn. Nd. í fyrra, en af því hefði ekki orðið. Jeg skil þetta ekki almennilega. Árið 1924 voru veittar til skálda og listamanna 12 þús. kr., og þá fjekk þessi maður 700 kr. Nú fjekk hann ekki meira en 500 kr., en það er að minsta kosti jafnmikið hlutfallslega og árið áður, þar sem ekki voru veittar nema 8 þús. kr. í þessu augnamiði 1925. Jeg geri ráð fyrir því, að háttv. fjvn. skilji, að það er örðugra að skamta vel af 8 þús. kr. en 12 þús. eða, eins og áður var, yfir 20 þús. kr. Jeg ráðfærði mig við þá menn, er jeg treysti best til þess að hafa vit á, um úthlutun listamannastyrksins, og hefi farið eftir þeirra till. í ár var þessu fje skift sem næst í þrjá staði jafna, til skálda, sönglistarmanna og málara (og myndasmiðs). Styrkurinn til sönglistarmanna og málara var aðallega veittur byrjendum og þeim, sem eru að undirbúa sig og læra. Aðeins einn maður fjekk styrk af fje þessu, sem efasamt er, hvort átt hefði að vera með, og enn tveir, er þingið hafði bundið stjórnina um. Jeg held nú, þegar fjvn. skamtar svona smátt og lætur auk þess fylgja, að vissum mönnum eigi að veita góðan skerf, þá fari að verða örðugt að skifta. Jeg hefi ekki á móti því, að menn sjeu teknir út úr, en þá væri best að skamta öllum.

Vilji hv. fjvn. veita Þórbergi Þórðarsyni styrk til orðasöfnunar, þá skal jeg ekki mæla því í móti. Jeg feldi styrkinn niður af því, að mjer hefir fundist orðabókarstarfið allajafna hvíla nokkuð í lausu lofti. Hvað snertir Þ. Þ., þá er hjer ekki um annað að ræða en styrk til aukastarfs, sem jeg veit ekki, að hverju gagni má koma vísindalegri orðabók. Alt öðru máli er að gegna um sjera Jóhannes L. L. Jóhannsson. Hann var tekinn úr allgóðu embætti og settur í orðabókarstarfið. Um það hefir annars verið svo oft rætt, að jeg ætla ekki að orðlengja þar um. Hann verður að hafa áfram full laun. Annars væri hann gabbaður á þann hátt, er ekki er viðsæmandi.

Hv. frsm. (TrÞ) talaði um styrk til verkfræðinema Magnúsar Konráðssonar, til þess að ljúka námi. Jeg hefi ekkert á móti þessum manni. Mjer skilst, að hann hafi haft Garðstyrk í 4 ár áður. En jeg vil aðeins láta þess getið, að mjer finst það býsna athugavert að veita í fjárlögunum styrk til stúdenta til þess að ljúka námi.

Jeg hafði hugsað mjer, er jeg bar hjer fram frv. til laga um ákveðinn námsstyrk til stúdenta erlendis, að þá fylgdi þar með, að þeim þýddi ekki að sækja um frekari styrk. Því að ef auk fjögra ára námsstyrks er farið að veita einstökum mönnum styrk til að ljúka námi, þá munu verða margir til að sækja um slíkt. Mjer þykir ekkert gaman að vera að spilla fyrir þessum manni, en það er fordæmið, sem hv. fjvn. gefur með þessu, sem jeg er dálítið hræddur við.

Hv. frsm. (TrÞ) sagði, að hv. fjvn. væri því hlynt, að gert yrði við Safnahúsið. Það er ekki hægt að segja, hvað slík aðgerð muni kosta, en hún mun kosta allmikið, ekki síst ef ráðist verður í það að gera við gólfið svo sem þarf. Það er auðvitað gott að hafa meðmæli hv. nefndar, og vitanlega verður farið fram á aukafjárveitingu til þessarar nauðsynlegu aðgerðar, sem dregist hefir því miður alt of lengi og ómögulegt er að fresta.

Þá var hv. frsm. (TrÞ) með fyrirspurn um daufdumbraskólann. Það er gott að fá tækifæri til þess að skýra frá því, hvað gert hafi verið samkvæmt þál. um það mál frá þinginu í fyrra. Jeg skal játa, að það er ekki mjög mikið annað en það, að leitað hefir verið álits bæði fræðslumálastjóra og forstöðukonu skólans. Forstöðukona skólans hefir í álitsgerð sinni lagt sjerstaka áherslu á það atriði, í hvorum staðnum betra væri fyrir börnin að skólinn standi, kaupstað eða sveit; í hvorum staðnum þau muni fá bráðari og meiri þroska og meiri von um atvinnu síðar, þegar þau hafa náð þroska. Hún tekur það fram, sem almenningur mun ekki gera sjer fyllilega ljóst, hve miklum erfiðleikum það er bundið fyrir þessi börn að fá þroska. Kensluaðferðin er alt önnur við þessi börn, eins og eðlilegt er. En það er alveg víst, að börnin sjá meira í kaupstað en í sveit. Það er einkennilegt, hvað heyrnar- og málleysingjar eru aðgætnir um það, sem fyrir augun ber, enda fá þeir svo að segja alla fræðslu með sjóninni. Það er að vísu ekki sjálfsagt að fara í þessu eftir venju annara þjóða, en þar munu daufdumbraskólar vera undantekningarlaust í kaupstöðum. Líklegt er þó, að einhver reynsla liggi bak við þessa tilhögun. En þó að svo sje utanlands, að daufdumbraskólarnir sjeu í kaupstöðum, þá er gjarnan farið með nemendurna til höfuðborgarinnar, til þess að þeir sjái sem flest. Og það er sagt, að á þeim tíma, sem börnin eru í höfuðstaðnum, þroskist þau margfalt meira á jöfnum tíma en annars. Forstöðukonan álítur líka, að það sje miklu hægra fyrir börnin, jafnvel áður en námi þeirra í skólanum er lokið, að ráða við sig, hvaða lífsstarf þau eigi að taka, ef þau eru hjer. Þeir, sem læra hjer, taka venjulega einhverja handiðn, svo sem smíðar eða brauðgerð, og hjer er hægra að komast að slíkum handiðnum. Slíks er varla kostur í sveit. Svo er eitt atriði, sem hefir mikla þýðingu fyrir daufdumba, en það er það, að ef þeir ílendast hjer í Reykjavík, sem tíðast er, þá geta þeir haft stað til að koma saman. Þeirra heimur er út af fyrir sig, og því eðlilegt, að þeir vilji hafa fjelagsskap hver með öðrum. Og þeir, sem verið hafa í daufdumbraskólanum og síðan hafa atvinnu hjer, koma gjarnan saman í skólanum og eiga hjer að heimili að hverfa, þar sem daufdumbir eru fyrir, og hafa ánægju af því að vera saman. Her er líka í bænum daufdumbur bakari, sem á daufdumba konu, og þar safnast þetta fólk líka saman. Þess vegna álítur kenslukonan, að það sje mjög mikilsvert fyrir börnin, að þeim sje kent hjer. En það er líka auðvitað sjálfsagt og nauðsynlegt fyrir þau að vera í sveit, enda eru börnin undantekningarlaust send í sveit á sumrin. Þar á móti var það áður lítt tiltækilegt, meðan skólinn var í sveit, að senda börnin hingað til Reykjavíkur og hafa þau hjer yfir sumarmánuðina.

Fræðslumálastjóri gefur álit sitt um þetta mál, er fer að mörgu leyti í sömu átt. Tekur hann það líka fram, að það sje margra hluta vegna heppilegra að hafa skólann í kaupstað en í sveit. Hvað kostnaðinn snertir, þá fer hann líka nokkuð út í það atriði. Og án þess að það hafi verið rannsakað til hlítar, þá er vitanlegt, að ef skólinn yrði fluttur, þá verður að byggja. Húsrúmi skólans hjer er að vísu ábótavant, en mikill munur er að bæta það nokkuð eða að byggja alveg af nýju.

Jeg fór svo ekki lengra út í þetta mál. Mjer virtist einsætt eftir þessu, að ekki mætti barnanna vegna flytja skólann í sveit. Framtíð barnanna er hjer betur borgið, því að hjer eiga þau frekar kost á ýmsum störfum við sitt hæfi. Forstöðukonan álítur, að sjóndeildarhringur daufdumbra sje svo þröngur, að varla sje við því að búast, að t. d. daufdumbur maður geti orðið bóndi í sveit, því að framkvæmdir bóndans þurfa að vera svo alhliða, að varla sje hægt að búast við því, að hann geti leyst slíkt af hendi. Auðvitað getur hann orðið vinnumaður í sveit. En þó að þessir menn sjeu ófullkomnir að mörgu leyti, þá er ólíklegt, að þeir geti unað við það að verða aðeins vinnumenn alla æfi, þótt sú staða sje reyndar í sjálfri sjer eins góð og heiðarleg eins og hver önnur. En þetta er nóg til þess, að jeg treysti mjer ekki til þess að leggja það til, að skólinn verði fluttur í sveit. En þó að skólinn haldi hjer áfram, þá er samt óhjákvæmilegt að bæta við húsnæði hans, sem nú er orðið alveg ónógt. Það hús, sem hingað til hefir verið baslað við, var upphaflega keypt heldur ódýrt. En eins og enn til hagar um fjárhag ríkisins, treysti jeg mjer ekki til þess að fara fram á 50–70 þús. kr. til þess að byggja yfir skólann. En eftir þeirri skoðun, sem mjer virðist ríkja í þessari hv. deild, og að sumu leyti líka í hv. fjvn., þá veit jeg ekki nema jeg hafi verið hjer of lítilþægur, að fara ekki fram á fjárveitingu til þessarar byggingar. Hún er ekki síður nauðsynleg og sjálfsögð en sumt annað, sem hjer á nú að veita fjé til.

Jeg vil þá afhenda hv. fjvn. framkomnar umsagnir um mál þetta, og getur hún þá athugað frekar rök fræðslumálastjórans og forstöðukonunnar.