27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Eins og jeg mintist á í dag í öðru máli, þykir mjer leitt, hve lengi þetta mál hefir dregist. Get jeg þó ekki beint neinum ásökunum til nefndarinnar, því að hún skilaði málinu frá sjer í tíma. En drátturinn stafar af því, að málið hefir ekki komist til umr., þótt tekið hafi verið á dagskrá.

Jeg vildi nú mega vænta þess, að mál þetta yrði afgreitt á þessu þingi, svo að það þurfi ekki að vera að þvælast lengur fyrir. Enda sje jeg ekki annað en það sje vel hægt, því að ágreiningur um það virðist ekki svo mikill. Skal jeg fyrir mitt leyti stuðla að því, að umræðurnar verði sem stystar, og snúa mjer strax að breytingartillögunum.

Um brtt. allshn. hefi jeg ekkert að segja, því jeg get gengið inn á þær. En jeg ætla að snúa mjer að brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), á þskj. 182, og taka þær eftir röð.

1. brtt. tel jeg ekki hægt að samþykkja eins og hún liggur fyrir, því í henni er ekki tekið tillit til samninga þeirra, sem vjer gerðum við Dani með sambandslögunum, um jafnrjetti þeirra hjer á landi, — ef búsettir eru hjer. Hv. þm. (SvÓ) ætti því að taka þessa tillögu aftur, enda er ekkert í þessari tillögu, sem nauðsynlegt getur talist.

Um vatnsvirkjun ríkisins fer að sjálf sögðu eftir því, sem Alþingi segir fyrir Er því það ákvæði brtt. með öllu óþarft.

Um 2. brtt. hefi jeg ekkert að segja.

Jeg get gengið inn á alla liði hennar, og þarf jeg ekki frekar um hana að ræða.

3. brtt. er við 7. gr. Um hana vil jeg aðeins segja það, að rjettmæti hennar fer eftir því, hvort þingið vill gefa stjórninni meira eða minna vald. Jeg álít það óþarfa fyrirhöfn að ætla þinginu að ákveða í hvert sinn, hvort virkja má yfir 10 þúsund hestöfl. í þessu tilfelli vil jeg því heldur halda mjer við stjórnarfrumvarpið, enda þykist jeg sjá, að verði brtt. samþykt, geti hún orðið hemill á virkjun, ef til kemur nokkurntíma, sem jeg vil vona. Annars geri jeg þetta ekki að neinu kappsmáli.

Þá er 4. brtt. Hún gengur út á að stytta sjerleyfistímann úr 75 árum niður í 50 ár. Út af þessu vil jeg benda á, að hjer er um hámarkstíma að ræða, sem jeg hygg, að ekki sje heppilegt að færa niður strax, því jeg býst við, að nógu torsótt verði að fá samninga um að virkja fyrstu fossana, þó að tíminn sje langur. Er því mjög óheppilegt að setja skilyrðin svo ströng, að ekki verði hægt að fá menn til að virkja fossana, því að sú hlýtur þó að vera meiningin með þessari lagasetningu. Það er nokkurn veginn víst, að þau leyfi, sem fyrst verða gefin, verða með mun verri kjörum fyrir okkur en þau, sem síðar kunna að verða veitt.

5. brtt. er við 12. gr. Um hana þarf jeg ekkert að segja, því jeg sje ekki ástæðu til að vera á móti henni.

Þá er 6. brtt. Hana get jeg ekki gengið inn á. Því að jeg er hræddur um, að tilgangur flutningsmanns með henni sje sá, að koma hjer inn á hina gömlu deilu um rjettindi yfir vatni, en þeirri deilu er lokið með vatnalögunum, og vil jeg ekki fyrir nokkurn mun blanda þeirri deilu í þetta frv., enda á hún ekki hjer við, og jeg hefi forðast að nefna hana á nafn, til þess að vekja ekki sundurþykkju um þetta mál. 15. gr. er og fullskýr í frv. og því ekki ástæða til að breyta henni.

Um 8. brtt. er hið sama að segja og hina 6. Hennar þarf ekki með.

Síðustu brtt. skilst mjer að nefndin hafi gengið inn á. En jeg skil ekki, að hún sje til bóta. Hún gengur út á, að jafnan skuli borið undir Alþingi, hvort veita skuli útlendingum sjerleyfi. Að sjálfsögðu geri jeg hana ekki að kappsmáli, en mun þó ekki greiða atkvæði með henni.

Jeg hefi nú haldið loforðið, að vera stuttorður, og vona, að aðrir, sem taka vilja til máls í þessu máli, verði það líka.