27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Klemens Jónsson:

Jeg get gefið sama loforðið og hæstv. atvrh. (MG), að vera stuttorður.

Jeg býst nú við, að hv. deildarmönnum sje það öllum kunnugt, að jeg hefi haft mikil afskifti af vatnamálum, þar sem jeg um mörg ár var í stjórn fossafjelagsins „Titan“. Og ennfremur hafði jeg þann heiður á tveimur þingum að koma fram sem ráðherra með frv. það, er hjer liggur fyrir nálega óbreytt.

Jeg vænti því, að hv. deildarmenn taki það ekki illa upp fyrir mjer, þó að jeg segi hjer nokkur orð til að lýsa ánægju minni yfir því, að málið skuli nú loks vera komið á þann rekspöl, að mjög sennilegt er, að það nái fram að ganga.

Það hefir nú verið furðu lengi á döfinni, en á því var jeg þó mest hissa, er ekkert nefndarálit kom um það á síðasta þingi hjer í deildinni, því að eðlilegast hefði verið, að það hefði þá náð fram að ganga, úr því að það gat ekki orðið vatnalögunum samferða 1923, sem helst hefði átt að vera.

Jeg skal ekki, frekar en aðrir hv. þm., fara inn á hið gamla ágreiningsatriði, eignarrjettinn yfir vatninu, heldur snúa mjer að öðru. Ef frv. þetta, eins og það liggur fyrir nú, hefði verið orðið að lögum 1919 eða 1920, þá er það að minsta kosti víst, að eitt fjelag hefði sjeð sjer fært að byrja virkjun í stórum stíl á fossunum austan fjalls. Á þessu er enginn vafi. Og þó að það, sem líklegt er, hefði orðið að hætta, sjerstaklega vegna krepputímanna, sem þá dundu yfir Noreg, þá er þó víst, að byrjað hefði verið á ýmsum stórfeldum mannvirkjum, ekki aðeins byggingum, heldur og ýmsum samgöngubótum, t. d. járnbrautarlagningu frá Reykjavík, Eyrarbakka eða Stokkseyri. Þessi mannvirki hefðu að sjálfsögðu orðið eftir í landinu, þó að fjelagið hefði hætt. Er því illa farið, að frv. þetta skuli ekki fyr hafa verið gert að lögum.

Jeg finn ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um sjálft frv. að sinni. En jeg vil geta þess, að jeg er að mestu leyti sammála hæstv. atvrh. (MG) um brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg get ekki fallist á 1. brtt. hans, við 2. gr. frv., en aftur á móti get jeg samþykt 2., 5. og 9. brtt. hans. Um 9. till. er það og að segja, að allshn. hefir fallist á hana.

Jeg leyfi mjer að endurtaka það, að mjer virðist frv. nú á góðri leið til þess að ná fram að ganga, og allar líkur til þess, að þinginu auðnist nú, eftir 9–10 ára baráttu, að ljúka þessu máli.