27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þykist hafa skilið afstöðu hæstv. atvrh. til þessa máls, en þó er jeg ekki ánægður með svör hans. Mjer finst sem hann hafi túlkað málið þannig, að þetta fjelag sje innlent. En þetta er undir 7. gr. frv. komið, eða með öðrum orðum, að ef fjelagið vill ekki virkja nema 24 þús. hestöfl, þá þurfi ekki að koma til kasta Alþingis og heimilt sje að leyfa svo stórfeldar framkvæmdir, og jafnvel að leggja járnbraut, án samþykkis Alþingis. Er þetta ekki rjett skilið? (Atvrh. MO: Jú, ef fjelagið er íslenskt). Jeg álít, að hjer sje um svo stórar framkvæmdir að ræða, að það megi til að bera þær undir Alþingi áður en endanleg ákvörðun er tekin. Því að þótt svo sje talið, að innlendir menn standi fyrir fyrirtækinu, þá er öllum ljóst, að það verða aðallega útlendingar, sem eru eigendur þess. Og mjer þykir gott að hafa fengið fram hjá hæstv. atvrh., að stjórnin muni telja sjer skylt að láta sjerleyfislögin ekki koma til framkvæmda án þess að Alþingi fjalli þar um.