27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð, til þess að fá enn skýrara fram eitt stórvægilegt atriði í þessu máli. Tveir þingmenn hafa drepið á það og verið sammála um það, en hitt finst mjer þýðingarmest, að hæstv. atvrh. er þeim ekki sammála. Hv. 2. þm. Rang. sagði, að hjer væri ekki um innlent fjelag að ræða, og kæmi það því undir ákvæði 36. gr., hvort það gæti fengið sjerleyfi. En mjer skildist á hæstv. atvrh. (MG), að hann teldi þetta innlent fjelag. Eða er það misskilningur, og lítur þá hæstv. atvrh. (MG) á eins og hv. 2. þm. Rang. (KM), að hjer sje ekki um innlent fjelag að ræða?