29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Sveinn Ólafsson:

Jeg bjóst ekki við, að þetta frv. kæmi svona fljótt á dagskrá aftur. Þess vegna vanst mjer ekki tími til þess að gera þær brtt., sem jeg hafði hugsað mjer. Jeg verð að segja, að mjer finst talsvert athugaverðar sumar grein frv. og ósjeð, að þær reynist haldkvæmar, svo sem 12., 27. og 33. gr. og jafnvel fleiri. Jeg held, að rjett hefði verið að athuga þær miklu betur en gert hefir verið.

Jeg hefi leyft mjer að bera fram tvær brtt. að þessu sinni við frv., báðar á þskj. 405. Sú fyrri er við 2. gr., en hin síðari við 36. gr. frv. Jeg bar að vísu fram brtt. við báðar þessar greinar við 2. umr., og var sú við 36. gr. samþ. En brtt. við 2. gr. fjell, að því er jeg best veit fyrir þá skuld, að þess var ekki gætt af mjer, að eins og hún var orðuð mátti skilja hana svo, að hún haggaði því jafnrjetti til atvinnu milli Íslendinga og Dana, sem lögfest er með sambandslögunum. Á þetta benti hæstv. atvrh. (MG), að sjálfsögðu rjettilega. Þetta mun hafa orðið brtt. að falli. Hinsvegar hefi jeg með þessari nýja brtt. stýrt fram hjá þessu, aðeins bundið mig við 1. málsgrein á þann veg, að engu er breytt gagnvart dönskum ríkisþegnum. Jeg hefi borið þessa brtt. undir hæstv. atvrh., og hann hefir tjáð mjer, að hann hefði ekkert við hana að athuga. Jafnframt þessu hefi jeg lagfært eina prentvillu í greininni. Það er talað um fallvatn í eintölu, en rjett á eftir í sömu setningu bendingarfornafnið „þeim“ haft í fleirtölu. Þetta er leiðrjett með brtt. Breytingin á greininni er í því fólgin, að inn í byrjun fyrstu málsgreinar: „Eigi er heimilt“ er skotið: umráðamönnum vatnsrjettinda, og verður setningin þess vegna: Eigi er umráðamönnum vatnsrjettinda heimilt o. s. frv. Eins og greinin nú er orðuð, virðist í henni fólgin „kommúnistisk“ hugsun, eða að hver og einn geti notað sjer vatnsaflið, án þess að hafa umráð yfir því eða eignarheimildir. En jeg hjelt, að ekki ætti við hjer að lögfesta neinskonar „kommúnista“ skilning um þessa hluti.

Þá skal jeg víkja að brtt. við 36. gr. Jeg legg til, að bætt sje aftan við 1. tölul.: „Sama gildir um framsal sjerleyfis til útlendra manna eða fjelaga, sbr. 27. og 28. gr.“ Jeg hafði ekki athugað það, þegar jeg bar fram brtt. við 2. umr., um að Alþingi eitt geti veitt útlendingum sjerleyfi, að þetta er alveg hliðstætt við það, að Alþingi veiti sjerleyfi, þegar um það er að ræða.

Á þessu sama þskj. liggur fyrir brtt. frá hv. þm. Str. (TrÞ). Hún gengur í sömu átt og brtt. mín, sem fjell við 2. umr., um niðurfærslu þeirrar hestaflatölu, sem heimilt er að leyfa án þess að leita samþykkis Alþingis. Jeg hafði farið fram á að talan yrði færð úr 25 þús. niður í 10 þús., en hjer er farið fram á 15 þús., í stað 25 þús. Jeg er þessari brtt. að sjálfsögðu samþykkur og mun greiða henni atkvæði.

Fleira finn jeg ekki ástæðu til að taka fram í þetta sinn.