29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Jakob Möller:

Mig hefir furðað dálítið á 1. brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hann hefir verið í sambandi við þetta mál að lýsa ánægju sinni yfir afgreiðslu vatnalaganna 1923 og viljað láta líta svo út, sem hann teldi þá lagasetningu í samræmi við skoðun sína á eignarrjettinum. En þó er hann nú að reyna að troða inn í þetta frv. hálmstráum, sem hægt sje að hengja eignarrjettarhattinn á, rjett eins og honum finnist þó einhverjir gallar á þessari löggjöf frá 1923, og kemur það heim við það, að hv. þm. (SvÓ) greiddi þá atkvæði á móti lögunum. En allar tilraunir hans að smeygja slíkum ákvæðum inn í þessi lög eru og hljóta að verða árangurslausar. Það liggur í hlutarins eðli, að vatnalögunum frá 1923 verður ekki breytt með þessum lögum, nema það verði tekið hjer fram, að 2. gr. þeirra laga hafi hjer með mist sitt gildi. Annars standa þau óhögguð.

Hvað snertir þessa 1. brtt., sem hjer er fram borin, á þskj. 405, þá virðist hún eingöngu vera borin fram í þessum tilgangi, sem jeg lýsti áðan. En hún kemur alls ekki að notum. Það geta hæglega verið til umráðamenn vatnsrjettinda án þess að eignarrjetturinn komi þar neitt til greina. T. d. getur ríkið fengið manni í hendur umráðarjett yfir vatnsfalli. Þá er hann rjettur umráðamaður þess, þó hann eigi það ekki. Þetta hefir því ekki hið allra minsta að þýða hvað snertir spurninguna um eignarrjettinn. Og brtt. hljóta einmitt að veikja málstað hans sjálfs yfirleitt, því með þeim hefir hann óbeinlínis lýst því yfir, að vatnalögin frá 1923 sjeu ekki eins úr garði gerð og hann vill vera láta. Og það er alls ekki óhugsandi, að það geti haft áhrif á lögskýringu í þessu atriði síðar, ef til kæmi. Svo það má einu gilda, hvort till. verða samþyktar eða ekki. Þær verða aldrei til annars en að veikja málstað hv. 1. þm. S.-M. Þó er jeg ekkert á móti því, að þær nái fram að ganga, í fyrsta lagi vegna ágreiningsins um eignarrjettinn, og í öðru lagi vegna þess, að þær geta ekki breytt vatnalögunum. En jeg samþykki ekki 1. brtt. hv. þm. (SvÓ) vegna þess, að hún sje betur orðuð en greinin í frv., eins og sjá má á því, að hún notar fleiri orð en frvgr. En till. hefir sjerstök ákvæði hvað viðvíkur umráðamönnum fallvatna, eins og hv. þm. Dala. (BJ) tók fram, án þess að jeg vilji blanda mjer inn í deilu þeirra út af því, við hvað hjer sje átt. Í frv. er hjer villa, „þeim“ í stað „því“. Slíka villu má laga í prentun án þess að till. sje um það gerð. Jeg hygg, að það sje svo algengt hjer á Alþingi, er slíkar prent- eða skrifvillur slæðast inn, að leiðrjetta þær þannig eftir bendingu í prentsmiðjunni, að það þurfi ekki að valda neinum örðugleikum í þetta sinn.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði í byrjun ræðu sinnar, að það yrði að samræma þessi lög vatnalögunum; en það er fullkominn misskilningur. Það eina, sem þörf gæti verið að aðgæta, er, að þessi lög byggist ekki á mósettum skilningi, síst í meginatriðum, en það gera þau einmitt ekki.

Hinsvegar er jeg þakklátur hv. þm. (SvÓ) fyrir 3. brtt. á þskj. 405, því hún er fram komin í samræmi við aths., sem jeg gerði við 2. umr. Og þó líklegt sje, að lögin þurfi ekki þeirrar skýringar, þá er rjett að taka hjer af allan vafa, svo að það komi beint fram, að það þurfi samskonar heimild og upphaflega, þegar um er að ræða framsal eða sölu á sjerleyfi eða slíkt.