29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skildi ekki í því, að háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) skyldi vera að kvarta um tímaleysi í þessu máli, því að hann hefir haft tíma til þess að athuga málið síðan 1919, eða 5 ár. Út af orðinu „umráðamaður“ þá vil jeg segja, að jeg skil það svo, að það merki þann, er hefir slík rjettindi yfir fallvatni, að hann geti virkjað það að fengnu leyfi stjórnar eða Alþingis. Eignarrjettinn snertir þetta ekki beinlínis, og löggjöf Norðmanna er ekki bindandi fyrir okkur.

Hv. 2. þm. Rang. (KIJ) kvartaði um það, að sá siður væri nú niður lagður, að brtt. væru bornar út til þm. að kvöldi, en þar til er því að svara, að sá siður hefir verið niður lagður áður en jeg kom á þing, enda væri nú örðugt að koma því við, því að prentsmiðjur eru farnar að loka svo snemma, að brtt., er seint koma fram, fást ekki fyr en daginn eftir, nema alveg sjerstaklega standi á og prentsmiðjan fái vitneskju um það fyrir lokunartíma, að von sje á þingskjali, sem sjerstaklega liggi á. Annars eru þessar brtt., sem hjer liggja fyrir, svo einfaldar, að margar hafa komið fram áður miklu flóknari á síðustu stundu, og enginn fengist um.