29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Magnús Torfason:

Grundvöllur sá, er hv. 2. þm. Rang. (KIJ) og jeg byggjum á, er svo ólíkur, að þar „skilur haf hjarta og vör.“ En út af ummælum háttv. þm. Str. (TrÞ) vil jeg taka fram nokkur atriði til skýringar. Hann sagðist ekki vilja fossavirkjun fyr en innlendir menn væru færir um það. En jeg vil nota útlendingana til að hjálpa til að koma virkjun í framkvæmd. Háttv. þm. (TrÞ) talaði um áburðinn og hvað hann væri mikill þáttur í viðreisnarsögu landsins, og þegar jeg talaði um, að landið væri aflvana, þá hafði jeg og það atriði í huga. En svo vil jeg benda á það líka, að virkjun fossanna getur orðið til þess að vernda þjóðerni okkar. Nú safnast alt fólkið hjer að togaraútgerðinni, en ef við fáum rafmagnsstöðvar inni í landinu sjálfu, yrði það til þess að draga úr aðsókninni til kaupstaðanna, og þá mundu myndast menningarstöðvar þar inni í landinu, með allskonar þægindum. Og verði fossamir virkjaðir, þá skapast ný skilyrði fyrir landbúnaðinn, og frá mínum bæjardyrum sjeð get jeg ekki hugsað mjer neina öflugri aðstoð fyrir hann en ef slíkar stöðvar mynduðust uppi til sveita.

Það hafa ýmsar skýringar komið fram um eign vatnsrjettinda og þegar lögin 1923 voru sett, samþyktu menn þau með ýmsum hug hvað þetta atriði snertir, og jeg hygg, að menn hafi ekki breytt skoðun sinni síðan, og því megi lítið mark taka á yfirlýsingum nú í því efni.