31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

1. mál, fjárlög 1926

Klemens Jónsson:

Jeg á 2 brtt á þskj. 235, sem jeg þarf að gera grein fyrir. Fyrri brtt. fer fram á að auka styrk til Sögufjelagsins úr 2000 kr. upp í 3000 kr. Á síðasta þingi var klipið af þessum styrk, eins og flestu öðru til bókmenta- og atvinnufyrirtækja, en hæstv. stjórn hefir nú hækkað hann úr 1000 kr. upp í 2000 kr. í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er auðvitað þakkarvert, en nokkuð lítið, og vil jeg því mælast til, að hann verði hækkaður enn um 1000 kr. Eftir stjfrv. á að verja þessum 2000 kr. til þess að gefa út landsyfirrjettardóma og alþingisbækur. Styrkurinn hefir verið því skilyrði bundinn, að gefin væru út þessi tvö rit. En fjvn. hefir gert breytingu á því með því að bæta við „o. fl.“

Hv. frsm. (TrÞ) sagði, að þetta væri aðeins orðabreyting, en svo er ekki. Nefndin ætlast til, að fjelagið gefi út fleiri rit en áskilið var, en lætur þó styrkinn standa óbreyttan. Samfara auknum skyldum hefði styrkurinn átt að fara hækkandi. En þetta gerir ekki svo mikið til. Fjelagið hlýtur að gefa út fleira, svo sem t. d. Blöndu. En sem sagt, fjvn. fer nokkuð lengra en stjórnin, leggur meiri kvaðir á styrkinn en hún. Hún hefði því átt að vera því fylgjandi, að styrkurinn væri hækkaður. Væntanlega tekur háttv. fjvn. þetta til greina.

Þetta fjelag hefir nú starfað í full 20 ár og gefið út mörg merk rit um sögu landsins. Það hefir notið lítils styrks. Lengi fjekk það 800 kr., þá 1000 kr., en síðan 1920 2000 kr. Jeg skal geta þess, að fjelagið er þegar byrjað að gefa út þjóðsögur Jóns Árnasonar og fylgir gömlu útgáfunni, þannig að lína svarar til línu og síða til síðu, og eru þegar komnar 4 arkir á þessu ári. Jeg hygg, að þetta muni Vera kærkomin gjöf til íslensku þjóðarinnar. Þjóðsögurnar hafa verið lesnar upp til agna, ef svo mætti að orði kveða, og varla til lengur nema í söfnum og fást ekki lánaðar út. Annarsstaðar eru aðeins til rifrildi af þeim. Fyrir utan þetta á Sögufjelagið eftir að gefa út rit, sem það er þegar byrjað á og verður að halda áfram, en það mun ekki sjá sjer fært að gera það, nema því aðeins, að það fái hærri styrk. Það er því vonandi, að enginn, sem ann sögu landsins og bókmentum, verði á móti þessu. Svo er að vísu, að í mörg horn er að líta, en þegar þess er gætt. hvað hæstv. stjórn og hv. fjvn. vilja að öðru leyti gera til þess að efla bókmentalíf í landinu, skil jeg ekki í öðru en að þessu verði sint.

Þá er önnur brtt., á sama þskj., þar sem farið er fram á, að veittar verði 35 þús. kr. til landmælinga. Þessar landmælingar hafa staðið í full 20 ár. Þær hófust um aldamótin og hjeldu áfram sleitulaust til 1914, er stríðið byrjaði. Þá var hætt við þær vegna stríðsins; annars væri nú búið að mæla mestan hluta landsins. Þá voru mælingamennirnir staddir á Hólum í Hjaltadal og voru að mæla Skagafjörð.

Jeg hefi hjerna hjá mjer kort yfir það, sem síðast hefir verið mælt, ef einhver hv. þm. vildi sjá það. Jeg þarf ekki að lýsa, hversu mikla þýðingu slík landmæling hefir; það hefir verið gert svo vel áður. Jeg læt nægja að vísa til greinargerðar fyrir þál. 1923 frá hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Þar er því lýst skilmerkilega, hversu þýðingarmikil hún sje og alveg eins nauðsynleg eins og skýrslur um atvinnuvegi og slíkt. Jeg vil því vísa til þeirra ummæla og þess, að okkur ætti að vera það metnaður að koma þessu fram. Í þál. var tekið fram, að þetta væri merkasta fyrirtækið, sem stofnað hefði verið til hjer á þessari öld og get jeg verið því samþykkur.

Áður voru þessar landmælingar framkvæmdar eftir stórum mælikvarða, sem sje 1 :50000. Þær voru því afarnákvæmar, og eiginlega of nákvæmar fyrir menn, sem ekki þurftu að styðjast við þær nema til ferðalaga, en máske ekki fyrir verkfræðinga. Þó að aðeins sje farið yfir stutt svæði, þarf mörg blöð, og það er erfitt úti á víðavangi. Eftir að byrjað var að mæla Húnavatnssýslu, var mælikvarðinn minkaður um helming og er nú 1:100000, og er það nægilegt fyrir almenning. Jeg sagði áðan, að mælingarnar hefðu lagst niður 1914, en eftir stríðslok kom fram till. (1923) frá 4. þm. Reykv. (MJ), þess eðlis, að skorað var á stjórnina að halda landmælingum áfram. Hún var samþykt í báðum deildum og endanlega á þá leið, að Alþingi skoraði á ríkisstjórnina að leita samninga við dönsku stjórnina. Stjórnin gerði það, sem tillagan fór fram á, en þegar til kom að veita fje 1925, var sparnaðarstefnan orðin ríkjandi, og þá varð þetta útundan eins og margt annað. Að öðru leyti býst jeg við, að hæstv. stjórn geti gefið upplýsingar um, hvað þeirri málaleitan líður. Jeg veit, að danski „Generalstaben“ er fús á að halda áfram mælingunum, enda væri það best, þar sem hann hefir annast þær frá byrjun. Ástæðan til þess, að þetta var ekki tekið upp í fjárlagafrv. í fyrra, var auðvitað fjárkreppan. Fyrir utan upphæðina sjálfa, sem var allhá, mátti gera ráð fyrir 1/4 að auki í gengismun, þar sem mikill hluti fjárins átti að greiðast í dönskum krónum. Nú eru fjárhagsvandræðin, sem betur fer, ekki eins mikil, og gengismunurinn horfinn að mestu.

Áður voru mælingar þessar að mestu leyti kostaðar af dönsku fje, þannig að mönnum hefir talist svo til, að þær hafi kostað 380 þús. kr., en af því hafi aðeins 80 þús. verið greiddar af Íslendingum. Nú kemur kostnaðurinn eingöngu á okkur, en þó fáum við, ef „Generalstaben“ annast mælingarnar, ýmsar ívilnanir, svo sem áhöld og útbúnað, sein danska hermálastjórnin lánar fyrir ekkert, eða að minsta kosti fyrir mjög lítið gjald. Það er búið að mæla frá Austur-Skaftafellssýslu og vestur fyrir land til Skagafjarðar, og enda mælingarnar í fjöllunum milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Eftir eru Eyjafjarðarsýsla. Þingeyjarsýslur og Múlasýslur. Vænti jeg stuðnings frá hv. þm. þessara kjördæma, því að ekki er sanngjarnt að láta ekki þessar sýslur njóta sömu rjettinda og hinar, enda væri þetta til mikils gagns fyrir almenning, þar sem mælingarnar eru svo nákvæmar.

Hv. þm. Dala. (BJ) segir oft um þær fjárveitingar, sem hann leggur til, að þessi og þessi fjárveiting sje svo sjálfsögð, að enginn geti verið á móti henni. Jeg tek mjer þau orð í munn og segi, að þessi fjárveiting er svo sjálfsögð, að allir hljóta að greiða henni atkv. sitt.

Jeg ætla að minnast ofurlítið á brtt., sem komið hafa hjer fram, og þá fyrst frá hv. meiri hl. fjvn.

Jeg gat þess, að hv. fjvn. væri fús á að styðja að aukinni andlegri mentun hjer á landi. Á liðunum 29–35 er farið fram á 58 þús. kr. fjárveitingu eingöngu í þessu efni. Jeg er ekki beint að hafa á móti þessu, en það er auðsjeð, að henni hefir fundist ástæða til að snúa sjer að því andlega, engu síður en að verklegum framkvæmdum. Jeg get þó ekki neitað því, að það, sem farið er fram á . til skóla, finst mjer fullríflegt, og meðan ekki er hægt að framkvæma meira en gert er, mætti margt af þessu bíða. Mjer finst hv. fjvn. hefði alveg eins getað tekið Sögufjelagið með og bætt við 1000 kr. Jeg vonast til, að fjvn., þó að hún haldi við sínar tillögur, líti líka í náð til annara tillagna, sem á rökum eru bygðar.

Þá eru stafliðirnir a. og b. undir 56. brtt. á sama þskj. Um a-liðinn, styrkinn til Lofts Guðmundssonar, er það að segja, að jeg tel vel farið, að hv. fjvn. hefir tekið hann upp. Þessi kvikmyndataka hefir orðið honum ærið kostnaðarsöm, en getur hins vegar unnið landinu mikið gagn. Svo að þótt hann fái þennan styrk, verður hann ekki skaðlaus, en er dálítill vottur um, að þingið viðurkenni þessa starfsemi hans. En hann er alls ekki fær um að bera kostnaðinn af henni sjálfur.

Hvað b-liðinn snertir, eða styrkinn til stúdentsins til að ljúka námi í verkfræði, þá er jeg samþykkur því, sem hæstv. forsrh. (JM) sagði um það efni, að það sje ekki rjett að veita slíka lokastyrki. Það er líka skamt síðan það var upp tekið að veita styrk til verkfræðilokanáms, og þá gert vegna þess, að verkfræðingar voru svo fáir í landi hjer, en nú höfum við nógu marga verkfræðinga, svo að ástæðulaust er, að þingið fari að bæta við þá. Jeg vil, að tekin sje upp í fjárlögin í einu lagi upphæð til styrktar stúdentum, er nám stunda við erlenda skóla. Hitt er hættuleg braut að ganga inn á, að taka einstaka stúdenta inn í fjárlög og veita þeim styrk, án þess nokkur gögn liggi fyrir, að þeir sjeu styrksins maklegir. Þess vegna greiði jeg atkv. móti þessum lið.

Hvað Sigfús Sigfússon frá Eyvindari snertir, þá kann jeg illa við þann sess. er hv. fjvn. hefir valið honum. Hann er fræðimaður og á því heima í hópi þeirra, en óviðkunnanlegt að sjá hann hjer innan um vitaverði og aðra uppgjafasýslunarmenn þjóðarinnar.

Hvað Vigfús Sigurðsson vitavörð snertir, þá hygg jeg, að það sje sami maðurinn, sem nefndur hefir verið Vigfús Grænlandsfari, eftir að hann fór með Koch höfuðsmanni yfir þvert Grænland, og vil jeg mæla sem best með því, að hann fái þennan styrk. Mjer er kunnugt um, að þessi maður varð til þess að bjarga þeim fjelögum frá bráðum bana við endalok ferðarinnar, er þeir fjelagar vorn alveg að þrotum komnir með vistir, með dugnaði sínum og áræði. Þá sögu sagði Koch höfuðsmaður Hannesi Hafstein í veislu í Kaupmannahöfn, um það leyti, er hann kom úr Grænlandsförinni, og ljet mikið yfir dugnaði Vigfúsar og hvílík bjargvættur hann hefði reynst þeim fjelögum, þegar mest svarf að högum þeirra í Grænlandsóbygðum. Sögu þessa sagði mjer Hannes Hafstein þegar eftir heimkomu sína, svo jeg veit, að hún er sönn. Að vísu getur Koch ekki um þessa sögu í ferðabók sinni, en ber hins vegar Vigfúsi söguna ávalt vel og telur hann hafa verið öruggan og góðan fylgdarmann og rækt starf sitt ágæta vel, en það var, eins og kunnugt er, fólgið í því aðallega að hirða um íslensku hestana, er þeir höfðu í ferðinni. Af þessum ástæðum tel jeg því Vigfús maklegan þessa styrks, og jafnvel þó hærri hefði verið.

Jeg get ekki lofað neinu góðu um að fylgja öllum brtt. hv. minni hl. fjvn. (BJ), en þó er þar ein brtt., sem jeg mun hiklaust fylgja enda gleður það mig, að hún skuli vera fram borin. Það er 15. brtt. á þskj. 204, um 6 þús. kr. styrk til þess að gefa út minningarrit um Eggert Ólafsson á tveggja alda afmæli hans. Mjer finst sjálfsagt, að Alþingi leggi lítinn skerf af mörkum til þess að heiðra minningu þessa merka manns, og vænti því, að hv. þdm. geti orðið sammála um það.

Um brtt. einstakra hv. þm. á þskj. 235 get jeg verið fáorður, enda mun jeg sýna það í atkvæðagreiðslunni, hverjum jeg fylgi og hverjum ekki. Þó er þar ein brtt., sú XXXT. í röðinni, frá hæstv. forseta (BSv), um 2500 kr. styrk til Fræðafjelagsins, til þess að gefa út jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem jeg vil mæla með. Mjer er kunnugt um, að margir bíða með óþreyju eftir því, að Jarðabókin komi út, en Fræðafjelagið ekki svo efnum búið, að það geti hraðað útgáfunni. Væri því vel, ef Alþingi sæi sjer fært að verða við þessari málaleitun fjelagsins, svo að þetta merka rit gæti komið út sem fyrst. Vona jeg því, að þessi brtt. nái fram að ganga.

Þá vil jeg vekja eftirtekt hv. fjvn. á því, að í 18. gr. eru taldar tvær ekkjur, sem dánar eru, og finst mjer það óviðkunnanlegt að sjá þær standa þar, því að ekki á víst að skilja það svo, að halda eigi áfram að greiða þeim eftirlaun eftir að þær eru dánar. En svo er t. d. um ekkjuna, sem stendur undir h. 1., að hún er dáin.

Annars vildi jeg í þessu sambandi beina athygli hv. fjvn. og hæstv. stjórnar að kjörum prestsekknanna. Það verður ekki annað sagt en að þau sjeu harla bágborin. Þær eru flestar með þetta 100 kr. eftirlaun og fáeinar með örlítið hærri upphæð. Að vísu hafa allmargar fengið nokkra uppbót og sumar framfærslustyrk með börnum sínum í ómegð. En oftast eru það ekkjur eftir þjóðkunna presta, sem verið hafa þingmenn eða skarað fram úr að einhverju leyti. Þó er þess ekki að dyljast, að einnig má sjá þær prestsekkjur, sem áttu tæplega meðalmenn, en hafa þó komist inn í fjárlög með allálitlega upphæð, vegna þess, að þær áttu þá menn að, er töluðu máli þeirra bæði við þing og stjórn. En svo eru aftur fjöldamargar og fjörgamlar prestsekkjur, sem aðeins hafa sínar 100 kr. á ári, eða liðlega það. Mjer finst rjett að vekja athygli á þessu. (TrÞ: Prestsekknasjóðurinn bætir þeim upp). Jú, en það verður altaf af handahófi, sem þeim styrk er úthlutað. Það stendur óhaggað, að flestar þessar gömlu og þreyttu ekkjur fá aðeins þessar 100 kr., og mjer finst ekki rjett að láta þær gjalda þess, að þær eiga engan að til að tala máli þeirra á hærri stöðum. Þess vegna leyfi jeg mjer að beina því til hv. fjvn., hvort hún sjái sjer ekki fært að bæta úr þessu og koma á betra samræmi um eftirlaun prestsekknanna, eða kannske hæstv. stjórn vilji taka það upp hjá sjálfri sjer. Hvort sem heldur verður, þá er jeg reiðubúinn að ljá því atkvæði mitt.

Að svo mæltu læt jeg máli mínu lokið og geri ekki ráð fyrir, að jeg þurfi að taka aftur til máls.